31.10.2008 | 17:09
Ég bið að heilsa - e.Lawrence Ferlinghetti (þýðing Arnar Már)
Sérhverri skepnu sem étur og skýtur sitt blóð
og sperrtum veiðimönnum veifandi rifflum á pallbílum
og skyttum og varaliðsmönnum
með sjónauka fyrir augu
og sérhverjum rednekk með sjeffer í bandi
og afsagaðar haglabyssur
og sérhverjum skerfara með mannsins tryggasta vin
á slóð einhvers sem er að flýja
og sérhverju óeinkennisklædduleynimenni
með axlarhulstur troðfullt af dauða
og sérhverjum þeim sem bugta sig fyrir byssumönnum
og þeim sem skjóta þá sem flýja
og sérhverjum lögggæslumanni með lögin í gæslu
með handjárn og kylfur
og sérhverjum landamæraverði á sérhverju checkpointcharley
báðum megin Berlínarmúrsins
bambus- eða tortillatjaldsins
og sérhverri riddaralöggu í skraddarasaumuðum
reiðbuxum með óeirðahjálm úr plasti
og skóreimabindi með sexhleypu í silfurlögðu hulstri
og sérhverjum sírenöðum löggubíl með haglara í skottinu
og sérhverjum flugmanni með sprengjur og napal undir væng
og sérhverju varnarmálaráðuneyti seljandi vopn
til stríðandi fylkinga
og sérhverjum þjóðernissinna af sérhverri þjóð
sem drepur í nafni þjóðarinnar
og sérhverjum spámanni eða skáldi með dálk eða byssu
og sérhverjum valdamanni voldugra landa
og sérhverjum þeim sem drepur og drepur og drepur í nafni friðar.
Ég bið að heilsa ykkur með löngutöng á lofti,
þeirri einu kveðju sem hæfir.
Athugasemdir
Góði vinur. Mér ver bant á að á þessum slóðum væri að finna það nýjasta í höfundarverki Arnars Más. Ég þarf lengri tíma til að komast í gegnum þetta. Eitt sýnist mér þó ljóst. Þú sjálfur, Grímsi spá, Unnur Lilja og hún Hanna frá Æsustöðum ættuð að hoppa uppí næstu rellu og koma ykkur heim. Þarna hafið þið ekkert að gera. Hér heima yrði hinsvegar kallað á ykkur úr öllum hornum,- nú þarf þetta land á öllu sínu að halda,- einkum ungu og hugmyndaríku fólki og víst er að markaðurinn fyrir marktæka spámenn hefur aldrei verið sterkari. Bið að heilsa Svíanum. Það eru nefnilega býsna góðir menn. Häsningar. BV
Björn Vigfússon (IP-tala skráð) 1.11.2008 kl. 18:00
'eg heilsa þér og þínum, ekki með löngutöng, vona að þið eigið góðan sunnudag, vildi óska að þið væruð að koma í kaffi og ég myndi í tilefni þess reyna að búa til einhverskonar tilbrigði af sviðalöppum, en úr sykri, eggjum og hveiti.
Brynja (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 10:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.