5.11.2008 | 19:31
Iðnaðarbankinn
Það var árið 1987, að ég held, ég var að verða 15; hress og kátur unglingspiltur, kankvís og kerskinn, ætíð hrókur alls fagnaðar, með liðað fallegt hár sem lék við silkimjúka vanga (reyndar var ég óhress og ókátur mannhatari með fitugt hár sem rímaði skemmtilega við þurrar varir og bólur).
Nú sem þá þótti mér flest leiðinlegt. Nema að éta og
Nú sem þá var ég fælinn og óframfærinn - eini munurinn er sá að nú er maður klókari.
Nú sem þá var ég geysilegur peningamaður og mjög áfram um að ávaxta vel mitt pund - þetta sumar vann ég á Kjötiðnaðarstöð KEA og peningar áttu það til að safnast fyrir í vösum, undir rúmdýnum og í raun hvar sem ég fór.
Nú sem þá var nokkuð til sem hét útvegur og nokkuð sem hét banki. Útvegsbanki. Önnur stofnun hét Iðnaðarbanki. Og þar sem ég vann á Kjöt-Iðnaðar-stöðinni hlaut ég að vera í viðskiptum í banka þeim er við iðnað var kenndur.
Um þessar mundir átti sér stað mikil tæknibylting. Fram voru að komu fyrirbæri þau er tölvur nefnast og hraðbankar. Hægt var að taka út pening úr hraðbanka með svokölluðu t-korti, ef ég man rétt.
Um þessar mundir var Iðnaðarbankinn til húsa í Sjálfstæðishúsinu (leiðréttið mig ef ég rugla, þarna var allavega banki, hvað sem hann hét).
Einn veðurdag datt fitug hárbóla með hjartslátt inn um innganginn á bankanum og hafði í hyggju að sækja um t-kort. Það þótti sjálfsagt mál. Og eflaust hefur hjartslátturinn fyllt inn nafn og heimilisfang, nafnnúmer og sitt hvað fleira. Hjartasjúklingurinn var síðan beðinn að koma viku síðar og sækja kortið.
Nokkrum árum síðar fékk taugahrúgan að heyra frá einum kennara sinna að víst hefði hún fallega rithönd, verst væri að ekki væri hægt að lesa hana.
Líður nú vikan við leik og störf: eflaust hef ég verið hrókur alls fagnaðar í einsmannspartíum hjá sjálfum mér hlustandi á svarta tónlist svartra manna. Reyndar man ég að ég hitti stundum fólk og meiddi það - það heitir að vera í íþróttum og það hefur mér alltaf þótt gaman. Og eflaust hefur maður legið á maganum á gólfteppi og lesið Moggann og legið yfir úrslitum í enska boltanum frá því deginum áður - á þessum árum var netið svakalega slappt og engan veginn hægt að treysta á að nýjustu upplýsingar bærust áður en atburðir gerðust eins og nú.
Púlsinn yfirgefur nú heimili sitt á brekkunni og lekur niður brekkuna. Hápunktur á frábærum degi - að sækja t-kort í Iðnaðarbankann. Hann gengur framhjá Amtinu og heyrir Hörð og Hólmfríði ljósmynda kort í gríð erg. Hann gengur fram hjá JMJ þar sem Raggi er að velta fyrir sér tveimur möguleikum: á ég að halda áfram í kótilettum, rjóma og þægindum eða halda á vit spartversku. Síðan hefur hann eflaust selt par af kakíbuxum og hvíta sokka með bros á vör - senst Raggi var með bros á vör, ekki...
Í afgreiðslu Iðnaðarbankans var Árni sprettur Freysteinsson að afgreiða; eflaust hefur hann verið í litríkri skyrtu, gyrta ofan í efnisbuxur, sem hann (í retróspekti) hefði gjarnan vilja hafa aðeins neðar á líkamanum heldur en upp við bringu. Eflaust hefur Árni verið með asnaleg gleraugu, svipuð og Björk var með um daginn, og strípur. Eflaust hefur Árni verið hinn hressasti. Ég bar upp erindi mitt, myndi það líklega heita í einhverri heimsmynd - ég frussaði einhverju út úr mér sem með góðum vilja hefði mátt túlka sem erindi. Árni hóf leit í einhverju boxi með kortum og var greinilega með stafrófið á hreinu. Ekkert fannst undir A. Skrýtið. Hefði ég haft húmor hefði ég beðið hann að leita undir Hálfviti eða Fífl - en mér var ekki hlátur í hug. Áfram heldur Árni að vandræðast í A-inu og finnur kort sem gæti komið til greina.
Ástarguðinn Amor birtist einatt sem allsber krakki með boga og á unglingsárum var hann örugglega með feitt hár og bólur.
"Amor Már Arngrímsson stendur hér" segir Árni og kemur þessu ekki heim og saman, enda grunar mig að kantmenn hjá KA árið 1987 hafi ekki verið að hugsa eftir þeim brautum. Kannski var hann bara að hlífa mér. Kannski vissi hann að ég þyrfti ekki á gríni að halda.
Ég kem þessu strax heim og saman og hrifsa af honum kortið. Á umsókninni hafði ekki verið beðið um prentstafi þar sem skrifa ætti nafnið - og séu menn þannig innstilltir, er auðvelt að lesa Amor út úr tilraun minni til að skrifa nafnið mitt. (Ég var eitt sinn spurður hvort ég héti Styrmir, á sama hátt má lesa það út úr lykkjuvirkinu).
Og því hélt fitugt hárið af stað upp Oddagötuna með viðbjóðslegt t-kortið í vasanum; ávísun á hlátur og skemmtilegheit hjá fólki sem finnast ófyndnir hlutir fyndnir.
Ég bar ekki nafn með rentu - allsber smákrakkaguð með boga. Í hjarta mínu var ég undarleg blanda af heróínsjúklingnum Nick Cave og atvinnumanni í fótbolta.
Léttur í spori (lygi) gekk ég upp Oddagötuna.
Athugasemdir
að éta og hvað? Annars finnst mér amor styrmir ágætis nafn hahhaha
Brynja (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 20:01
Gvuð hvað þetta var fyndin lesning - þú ert frábær penni Amor.
Linda (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 21:48
Brynja:
Spurðu Högna.
Hnegg. Hnegg.
Hjörvar (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 20:29
Mér fannst þú nú alltaf sodið sætur þegar við vorum bekkarfélgar í 8. bekk Amor minn : ) Fékk bæði nostalgíu og hláturkast við að lesa þetta! Kv. Jóhanna
Jóhanna Hjartardóttir (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 12:04
Hef 3 spurningar
Er Arni sprettur brodir Jóns spretts ( eg er nefnilega ekki ad nordan!)
Notadirdu thetta kort einhvern timann
Manstu nafnnumerid thitt
mitt var 9576-3529
Thu ert godur penni!
Kvedja Tobba
Tobba (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 12:37
jeremías hvað ég hló! ég man eftir gleraugum Árna Freysteins og girðingunni! Takk og af hverju skrifarðu ekki bara bók? Endurminningar af Brekkunni? Kærar kveðjur til Hönnu frænku og ykkar allra
María Páls (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 17:20
Það á ekkert að éta! Hnegg.
Magnús (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 23:18
Alþýðubankinn var í sjallahúsinu, Iðnaðarbankinn var með á nótunum (nótonum) en hvar hann var til húsa man ég ekki. Kanski breyttist nafnið í Alþýðubankann. Nei það passar ekki ...
Gamalt hús við torgið sem nú er búið að rífa eða inniheldur skranbúð (vesturendi torgsins. Var ekki Iðnaðarbankinn þar eða var það Sparisjóður Glæsibæjarhrepps ?
Valli (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 14:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.