20.11.2008 | 17:42
Einhvers konar manifesto
Tvær sænskar drottningar hafa kveðið sér hljóðs (sjá athugasemd við síðasta blogg) - þær eru reyndar af íslenskum ættum en mig grunar að eftir áralanga dvöl í Svíaríki sé Íslendingurinn í þeim eitthvað farinn að linast, þrátt fyrir ræður um annað. Mig grunar að þegar Tobba og Brynja fara í ríkið á Íslandi muni þær sakna færibandshringjanna og á síðkvöldum muni þær dreyma hávaxna, ljóshærða menn í kakíbuxum í Lacoste-bolum. Kannski mun Brynja taka Hjassarass í fangið og neyða hann í dodofína Lacoste-treyju.
Í athugasemd Tobbu má greina snefil af ádeilu á stefnu vora í bloggmálum - kallar það á andsvör.
Blogg flestra eru blokkir þar sem kellingar og kallar eru á stöðugu rápi um stigaganga, kíkjandi í kaffi hér og þar hjá vinum og vandalausum - en staldra stutt við. Flestir tala á innsoginu og hlusta rétt á meðan þeir blása reyknum af Viceroy framan í viðmælandann. Eldhúsin eru lítil. Þar sitja menn gjarnan yfir sandkökum og tína uppí sig mylsnuna - einstaka sinnum er boðið upp á suðusúkkulaði og á skárri heimilum rækjusalat og ritz. Appelsínugulir og brúnir tónar eru ráðandi í eldhúsunum og víða er korkur eða málaður steinn á gólfum. Þeir sem eru nýkomnir úr námi frá Svíþjóð eru einatt á klossum og í skyrtum með kínakraga
Það er fjör í þessum blokkum - fullt af krökkum - Abba á fóninum. Svört hillusamstæða í stofunni með heildarsafni Selmu Lagerlöf og mynd af fjölskyldunni að synda í skerjagarðinum.
Og konurnar tala um hávaxna ljóshærða menn í kakíbuxum og karlarnir staupa sig á ákavíti og stanga kjötbollur úr tönnunum með títuberjasultu í skegginu.
Og það er drukkið kaffi og spjallað. Um leiðinlega hluti eins og íþróttir, stjórnmál, kynlíf og ferðalög.
Bloggið mitt er ekki blokk það er vin í eyðimörk. Vin sem fáir vita um. Vin sem er ekki á kortum. Nei. Þetta er ekki góð líking. Bloggið mitt er fjallakofi í Ölpunum. Ég er ekki alltaf heima eins og fólkið í blokkunum. Stundum hleyp ég nakinn um fjöllin með haglabyssu í annarri og Raunir Werthers unga í hinni í rómantísku æði og ég æpi, já ég æpi "...kaum einen Hauch!! Ruhest du Auch!" og ég hníg niður í snjóinn og veina og get ekki stillt mig og borða snjóinn þó hann sé gulur. Vei! Ó Vei! "Hvar hafa litir dags þín lífinu glatað" "Roslein auf der Heide, die Wange sanft wie Seide".
Þá kemur kannski einhver að tómum kofanum og neyðist til að fletta gömlum dagblöðum og opna skúffur fullar af Burberrys-sokkum.
Eflaust sný ég aftur kalinn á honum og set hann kannski í ullarsokk og sest við sjónvarpið og set spóluna með eldinum í og læt mig dreyma um alvöru arinn. Í framhaldinu horfi ég á kvikmyndir um fjallgöngumenn og flugslys í Chile þar sem menn neyðast til að taka sér vini sína til munns. En ég treð mig út af ostafondue og kakói.
Eftir rómantísk æðisköst er gott að sjá spor við kofann - sjaldnast eru þau mörg, stundum er eins og einhver hafi sest niður fyrir utan kofann og afturendinn brætt O í snjóinn. Þá líður mér ekki vel. Við blokkirnar er snjórinn traðkaður niður af allskyns fótum og einnig vélsleðum og fyrir framan blokkirnar er teikað á vetrum og börnunum er sögð sagan af drengnum sem teikaði í Álfheiminum og uppgötvaðist í Hafnarfirði.
Kannski er bloggið mitt ekki kofi í ölpunum. Kannski er það stórt einbýlishús með súlum og ljónaskúlptúrum við Laugaásinn. Kannski spóka ég mig um á daginn á flókateppinu í reykslopp með pípu og strýk yfir kili fyrstu útgáfna af Tómasi Guðmunds. Kannski legg ég mig oft á daginn og er mjög þreyttur. Kannski koma mánaðarlega umslög frá Valhöll sem gleðja mig. Hugsanlega er ég búinn að stoppa hundinn minn upp, en ekki konuna, ekki enn. Ég stend við stofugluggann og hlusta á snarkið í arninum og horfi yfir dalinn - og hristi hausinn yfir skrílnum í Álfheimablokkunum. Hvað er þetta fólk að gera? Það er örugglega reykjandi Viceroy gúffandi í sig rækjusalati, hugsa ég með mér og bergi á Remy Martin XO. Mannshöfuð eru þung og ég segi sífellt færri orð. Þetta pakk í blokkunum þvaðrandi um daginn og veginn. Fólk sem hefur stúderað félagsfræði í Svíþjóð og fer aldrei í bað og smjaðrar fyrir öfuguggum og svarta manninum.
Athugasemdir
Ég á enga klossa né kínakraga og guði sé lof og dýrð að hjassarassinn minn á ekki gulan lancoste bol eða björn borg brók ef út í það er farið, mun fyrr neyða hann í gömul svitalyktajakkaföt keypt hjá hernum en slíkan fatnað. Ég var áðan að vinna verkefni með svarta manninum frá Ethiopiu, öfuggugganum frá Sverige og þýskumælandi Austuríkismanninum. Vildi óska þess ég gæti átt góðar stundir með þeim áfram en leiðir fara bráðum að skiljast. Væri alveg til í að deila með þeim rækjusalati og ritz en myndi líklega afþakka viceroyinn þó ekki nema til að skemma ekki rússið sem litasinfónía veggfóðursins orsakar. Íslendingurinn í mér að linast? Hmmm, nei ekki rétt, en hann er kannski aðeins víðsýnni en áður og reynslunni ríkari. Arnar ég býð þér í fisk í hlaupi og fondue næst þegar þú átt leið hjá ljúfurinn minn. Hlakka til að hafa aðgang að þér ekki í formi vinar í eyðimörk heldur vinar sem býr í nágrenninu og sem kíkir í saltfisk á síðkvöldum með kvenmanninn sér við hlið og krakkaskarann.
Bryssan (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 19:16
Ég held, Arnar, að hér sé einhver misskilningur á ferð. Það er auðvitað á engan hátt sjálfgefið að þótt manni auðnist að kyssa hring páfans að páfinn kyssi manns eigin hring (eða jafnvel "hring").
Þannig gerast kanski kaupin á eyrinni en ekki í hinum kaþólska heimi stéttarskiptingar, hrópa, gráts, móðgana og svitastorkins hárs.
Vallitralli (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 21:44
tobba (IP-tala skráð) 22.11.2008 kl. 11:24
voðalegt bloggkommentavæl er þetta í ykkur (ó)Lundarfólk....skiljið þið ekki að Arnar er að reyna að breiða yfir þá staðreynd að hann er með ólæknandi svag fyrir svíum .....hann tekur sænska vin sinn reglulega í fangið og klæðir hann í kakíbuxur og lacoste skyrtu og svo hlusta þeir trallandi á Jusse Björling fram eftir kvöldi, stundum alveg til klukkan tíu....við skulum heldur ekki gleyma Niklasi sem drakk kakó og átti kærustu sem hét Yuko en hann kallaði hana alltaf Yoko því það var meira töff....hann var meira að segja með hálfsítt og skipt í miðju og sagði 'jus' í staðinn fyrir djús......sýnið nú Arnari þann stuðning sem hann á skilinn, undir hrjúfu yfirborðinu leynist viðkvæmur svíaelskare.....
Hanna (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 09:25
Vildi bara nota þetta upplagða tækifæri til að benda á að Hollendingar eru heimsmeistarar í Lacoste-bolanotkun! Þetta hef ég lært á mínum mörgu ferðum um heiminn. Þeir eiga gjarnan einn svartan, einn bleikan og svo einn til viðbótar í valfríum lit. Það er svo gott efni í þeim. Það væri kannski ekki alvitlaus viðskiptahugmynd að selja Lacoste-boli þrjá saman í pakka til Hollands, og láta kímnígáfu fylgja með? Jólagjöfin í ár? Kveðja, Björg
Björg (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 09:56
Björg, ertu þá að meina sænska kímnigáfu í pakkann eða....?
Hanna (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 11:50
Var ekki krókódílamaðurinn hans Megasar í Lacoste bol?
Unnar (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 17:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.