11.1.2009 | 11:58
Tenerife og ég veit ekki hvað - Og uppgjör við árið 2008
Hann er kaldur í Madríd - hér snjóaði í gær og allt fór andskotans til; þeir lokuðu flugvellinum, opnuðu vettlingaskúffurnar og í það minnsta einn bjó til snjókall. Ég sit í eldhúsinu og drekk heitan drykk, unnin úr brenndum baunum. Hefð hefur verið fyrir því að kalla drykkinn kaffi og hann heitir það á flestum tungumálum. Misjafnt er þó hvar áherslan liggur; KAffi eða KaffI - á Spáni, merkilegt, er orðið hins vegar skrifað með gæsalöppum "café" af því að það er svo vont að varla er hægt að kalla það café fullum fetum, án þess að gyrða það gæsalöppum eða setja upp lygaramerki eða ranghvolfa augunum eða segja "ó fyrir framan". Á Tenerife gerðist ég svo frægur að smakka versta kaffibolla ueberhaupt. Nú hef ég aldrei verið beinn þátttakandi í stríði og aldrei fengið skömmtunarseðil. Í seinna stríði og kannski eitthvað lengur var eitthvað til sem hét kaffibætir eða export og sem notaður var til að drýgja kaffi sem var af skornum skammti og dýrt. Mér skilst að eitthvað sé til sem heiti sikkórírót sem sé þurrkuð og mulin og bætt út í kaffið þó ekki til að bæta það. Eitthvað var í kaffibollanum þarna á Tenerife grunsamlegt. Þetta var eins og að drekka kaffi með dassi af mentol eða lakkrísbragði. Segið mér öldnu kempur, hvernig var bragðið af export kaffi?
Ég vil byrja á að óska mér til hamingju. Kláraði 600 blaðsíðna Wallander á spænsku. Rosalega verður nú auðvelt fyrir mig að læra sænsku - það munar bara einu pjei.
Frí eru verkfæri djöfulsins en samt skemmtileg (eins og verkfæri djöfulsins)
Orðabók úr Tenerife-ferð
Safaríferð á fjórhjólum með "fyndnum" frakka
Hjörtur mágur minn er mótormaður. Ég vildi fara í fiðrildaskoðunarferð en ofan á varð að vara í safaríferð á fjórhjólum. Tvímennt var á hjólin; Gunna systir og Hjörtur, Örvar og Nathalie og Ég og Árni. Leiðangursstjóri var franskur maður. Sem leit út eins og Gandi, eða réttara sagt Ben Kingsley í hlutverki Gandis. Gandi er svona frekar alþjóðlegt orð. Gunna eða einhver þurfti endilega að segja á íslensku að hann væri rosalega líkur Gandi. Mér fannst hann skilja það og taka það nærri sér. Gandi á fjórhjóli á Tenerife með Íslendinga í rassgatinu.
Gormiti
Er ekki eyja heldur smámenni sem Grímur heldur mikið uppá. Fígúrur svona 5 sm háar og mikil skrímsli. Svona æði þið vitið. Eitthvað eru krakkar að bítta á þessu líka. Grímur gleymir sér tímunum saman með Gormitunum sínum.
Gamlárs
Þar sem hlaðborðið á hótelinu á aðfangadag hafði nánast gert út af við menn var ákveðið að elda heima á gamlárs. Reyndar var keypt naut í búð og nautið var eldað í búðinni. Gott hjá þeim. Hlaðborð eru vond - maður reynir alltaf að græða, eða í það minnsta koma út á sléttu og ef einhver hefur ekki lyst þarf að bjarga honum á land til að koma ekki út í tapi.
Við vorum á ströndinni á gamlárs. Hrein dásemd að leika sér í öldunni. Reyndar var ég svo lúinn að datt út af kl. 00.10.
Tennis
Náði að snúa Örvar nokkrum sinnum niður sem er nýtt. En á einu átti ég ekki von að Árnilitlibróðir er farinn að gera sig gildandi.
Sund
Hið ótrúlega gerðist. Ég fann 50 metra útisundlaug. Vel upphitaða. Eins og að vera staddur í Laugardalnum. Mér þykir ekki ólíklegt að ég eigi eftir að verða öldungameistari í sundi einhvern tímann. Þarf samt að læra snúninginn. Drukkna eiginlega alltaf í snúningnum. Guðjón er hins vegar góður í snúningnum, en ekkert spes í sundi. Kannski gæti hann keppt í snúningi og orðið bestur í því. Maður er orðinn svo innfæddur að maður lætur ekki sjá sig nálægt sundlaug án þess að vera með sundhettu og í sandölum. Enda er gengið í skrokk á mönnum sem ekki eru með sundhettu. Magnús Aðalbjörns "frændi minn" sagði mér frá því að hann hafi verið skikkaður til þess á Spáni að setja upp sundhettu. Magnús var reyndar ekki með hár og sá ekki tilganginn með höfuðfatinu. En nei, það þýddi ekki að mögla. Það verður að fylgja reglunum.
Alhæfing
Mér finnst stundum sem Spánverjar séu að þykjast vera Þjóðverjar. Þá benda þeir á reglur og verkferla og dæsa og segja að þetta gangi nú ekki. En öfugt við Þjóðverja er oft hægt að ræða málin við Spánverja og benda á aðra möguleika í stöðunni. Þegar eitthvað er ekki hægt í Þýskalandi þá er það ekki hægt. Á Íslandi er allt hægt, stundum um of. Menn segja gjarnan: Ég bjarga þessu eða séu menn raunsæismenn: Ég skal líta á þetta. Aðeins einu sinni mætti ég "ekki hægt" viðhorfinu á Íslandi. Ég fór með forláta skó til skósmiðs. Skósmiðnum leist ekkert á þá "það er ekki hægt að gera við þá" Já, sagði ég, "En viltu ekki gefa því séns". Nei, svaraði hann. "Það er ekki hægt." Svo fór ég til annars skósmiðs og auðvitað var það hægt.
Rusl
Af hverju smyr maður sér ekki nesti, kaupir ávexti og hnetur fer með þetta á ströndina? Af hverju ruslar maður út í eytt? Misvitrir hamborgar og pizzur. Reyndar hef ég varla lyst á bjór fyrr en á kvöldin og er það vel.
Ókurteisi
Árni bróðir var næri laminn af ítölskum þjóni. Árni hafði greinilega séð of margar bíómyndir þar sem menn smella fingri til að fá þjónustu.
Mole
úff
Laddi
úff
Þakkir
til mömmu og pabba fyrir að bjóða okkur, takk.
Listar frá 2008
Besta platan
1. Juan Antonio Jobim og Luis Bonfá frá ca 1958
2. Bonnie Prince Billie "Lie down in the light".
Besta lagið
1. Craclin'Rosie - Neil Diamond
2. Mediterráneo - Joan Manual Serrat
3. Zapatos ortopedicos - La Excepción
4. Þórsmerkurljóð - Megas
Versta lagið
1. Þú komst við rassgatið í mér - Rafn Hjaltalín
2. Tóti tölvukall
3. Lítill fugl (Hörður Torfason)
(sem minnir mig á það þegar Maggi Karls tók fram gítarinn í partíi og tók þessa vondu heimsádeilu Harðar Torfa. Án þess að kunna á gítar og án þess að kunna textann lyfti Maggi laginu upp í áður óþekktar hæðir).
Besta bók ársins
1. Chesil Beach - Ian McEwan
2. Grasið syngur - Doris Lessing
3. Ljóðabók Ingunnar Snædal
Besta mynd ársins
1. Te doy mis ojos
2. Into the Wild
(Sú kom mér á óvart - greip hana á leigu á Íslandi í lok ágúst og vissi ekkert um hana. Rakst síðar á bókina og sjá eitt af þessum röru skiptum að myndin er ljósárum betri en bókin).
Versta mynd ársins
1. Body of Lies - Ridley Scott
2. Juno
(Fór með alvöru karlmönnum á þessa mynd í Kringlunni, voru það ekki Maggi Karls og Basti eða var það Unnar? Þegar myndin var búin og mannfjöldinn streymdi út úr Kringlunni reyndi ég að tala eins og ég hefði verið á annarri mynd. Hvernig get ég útskýrt þetta? Þessi krúttlegu amerísku ungmenni, sem eru að þykjast vera Indie og á móti öllu, enu eru samt svo mikið með kerfinu)
Bíóferð ársins
1. Battmann - The blakk kniggit. Fór með tengdó í Nýja-Bíó á Akureyri. Í salnum var staddur maður sem a) svaraði í það minnsta tvisvar í símann og talaði hástöfum b) var með krakkana sína með sér sem ekki höfðu aldur til að sjá myndina c) fór í það minnsta tvisvar með þau á klósettið í miðri mynd og þurfti að klofa yfir heila sætaröð af fólki. En myndin var góð. Held ég.
Bestu tónleikar ársins
1. Ola Kvernberg tríó á Græna hattinum.
2. Bonnie Prince Billy í Madríd.
Þjóðarstolt ársins
1. Móttaka handboltalandsliðsins á Skólavörðustíg og Arnarhóli.
Þjóðarlost ársins
1. Der Untergang með Geir Haarde í aðalhlutverki
Vefur ársins
1. Dr.gunni; fimmta eða sjötta árið í röð, heldur hann úti bloggi sem er alltaf býsna ferskt.
Snýting ársins
1. Á meðan stelpan frá Rússlandi var að lesa upphátt fyrir bekkinn kom stelpan frá Þýskalandi sterk inn af kantinum, reif upp tempo og náði einum rosalegum. Fagnaðarlátunum í hjarta mínu ætlaði aldrei að linna.
Útvarpsþáttur ársins
1. Andrarímur - Guðmundur Andri Thorsson
2. Asuntos propios - Toni Garrido
3. Días como hoy - Juan Ramon Lucas.
Baukur ársins
1. Rauður Víking hjá tengdó
Linsubaunasúpa ársins
1. Guðjón og Brynhildur. (10 árið í röð)
Verstu kaup ársins
1. Úlpur í Zöru; rennilásarnir á þessu ódýra drasli eru alltaf hrákasmíði, fokk.
2. Brúðkaup! Djók!
Íþróttaviðburður ársins
1. Nadal vs. Federer á Wimbledon.
2. Arnar vs. Örvar á Tenerife
Versta ákvörðun ársins
1. Að fara upp í Laugafell á frekar vönduðum jeppa föður míns. Og fara fetið og finna sárt fyrir því að þessa sex klukkutíma ævi minnar fengi ég ekki aftur.
Uppgötvun ársins
1. hafði lengi leitað en aldrei fundið fyrr en í ár. Fann erótísku síðuna á Internetinu. Nú skilst mér að til sé önnur. Ja hérna hér.
Vonbrigði ársins
1. Þegar ég átti stefnumót við "vin" minn úr grænmetisbúðinni á bar til að sjá Barcelona - Real Madrid og hann mætti ekki og ég sat þarna einn á latinó-bar og allir eitthvað svo fullir. Og ég stood up og hei, ekki einu sinni af kvenmanni eins og vanalega.
2. Skrifaði grein sem nefndist "Ullarband á tímum fjöldaframleiðslu sinnar" og fékk hana ekki birta í prjónablaðinu Ír.
3. Hvorki heimsfrægð né landsfrægð.
4. Pantaði "agua con gas" og þjónninn skildi mig ekki.
Sigrar ársins
1. "Eitt barn á dag brúnt á litinn"
2. Fyrsta tennissessjón mót Örvari bróður á Tenerife.
Hvað er í pípum ársins 2009?
1. allt á huldu. Hver veit hvar við dönsum um næstu jól?
1. Veit þó að ég þarf að vinna mikið... í bakhöndinni.
1. Læra snúning í sundi
1. Fá birta grein í Prjónablaðinu Ír, eða Dónablaðinu hýr, eða Skjónablaðinu Kýr
1. Segja setningu í subjunctivo án þess að það virki undirbúið.
1. Fækka skapsveiflum og reyna að verða eðlilegur
1. Hætta að tala illa um Guðjón
1. Læra að brenna diska; ég er búinn að vera í svo mikla kvíðakasti að ég treysti mér ekki til að læra það.
1. Verði ég á Akureyri; tala við Óda um að stofna byrjendaflokk öldunga í júdó sbr. "Gamalt fólk deyja."
1. Fjölga réttum á afar einhæfum matseðli fjölskyldunnar.
1. Halda áfram að vera bestur í fótbolta.
1. Halda rétt á spöðunum, það er mjög mikilvægt, annars slær maður boltann upp í loftið.
Athugasemdir
Sæll vinur, dreymdi þig og þína í nótt, þið voruð með myndir af ykkur og börnunum í loftinu á svefnherberginu og reyndar okkur Val líka það fannst mér fyndið en jafnframt ákaflega eðlilegt. Þið buðuð mér gruggugt vatn sem mér leist ekkert á en allt fór vel þar sem það þurfti bara að láta það renna vel, veggirnir í húsinu ykkar voru vínrauðir. Annars er ég sammála þér með "into the wild" en ósammála með Juno. Ég er líka mjög fegin að hægðir þínar séu góðar og stolt af framlagi þínu. Lifðu vel árið 2009 og vonandi náum við að hittast á vor eða haustmánuðum, þá panta ég tómatasúpu með þeyttri kókosmjólk og koriander takk.
Brynja (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 19:29
Dreymdi þig ekki í nótt, dreymdi bara bull og vitleysu svona eins og vanalega, ólíkt Brynju sem dreymir alltaf eitthvað viturlegt. Skemmtilegur pistill, gangi þér og þínum allt í haginn á nýju ári, á nýju Íslandi, í nýjum fötum frá Zöru. Alltaf jafn ömurlegt þegar þjónar skilja mann ekki, lenti einu sinni í því þegar ég var 16 ára í Luxembourg að biðja um öskubakka, endaði með að slá af fyrir framan manninn og benda, var samt með orðabók, og allt. Hef ekki lent í því síðan. Nema þegar þjónar vilja ekki skilja það sem ég er að segja.
agua gazata agua minerale, en þú getur kannski sagt mér af hverju danir kalla sódavatn Danskt vadn!
tobba (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 15:22
Mikið er gott að geta nú loksins hreytt í þig einhverjum ónotum. Mogginn ofverndar þig svo það er ekki hægt að koma inn svokölluðum kómentum nema endrum og eins.
Helvítis bömmer er þetta kaffimál hjá þér. Ég skal svo sem trúa því að þeim geti brugðist uppáhellingslistin á Tenerifu en Hispanjólar eiga að kunna þetta. I mangel af bedre er hér svolítil tillaga:
Ef þú kaffi kjamsar á
og kurlar það af natni,
fáðu þér, svona eftir á,
ögn af heitu vatni.
Þetta gæti dugað.
En kannski væri best að þú fengir þér óbrennt og yljaðir því sjálfur í komfúrinu þínu. (Einhvern tíma var til Dusine hér og talaði að því hún taldi dágóða íslensku. Einhvern tia er hún sögð hafa sagt: Ég vantar stoff til nýja ildhusgardiner)
Sverrir Páll Erlendsson, 12.1.2009 kl. 18:27
Æææ. Ég gleymdi að setja athugasemd við athugasemd Tobbu. Málið er að orðið sódavatn er á íslensku sóðavatn og þess vegna er það kallað danskt vatn í Danmörku.
Leitungswasser í Þýskalandi halda sumir að sé kranavatn, en það er hins vegar leiðsluvatn og menn komast í svoleiðis ástand þegar þeir drekka mikið af því úr blýpípunum þeirra :)
Sverrir Páll Erlendsson, 12.1.2009 kl. 18:30
Ég hef komið til Tenerife. Mér datt ekki í hug að prófa að drekka kaffi þar - af hverju ætti maður að gera það? Þarna var fullt af öðrum drykkjarvörum, betri og áhrifameiri. Mér finnst gaman að lesa bloggið þitt.
Ég skil ekki nærri því allt sem þú skrifar en mér finnst það gaman, sérstaklega það sem ég skil ekki.
Þá veit ég að ég veit ekki allt - ennþá.
Batnandi manni er best að lifa - ég á þá einhverja möguleika ónotaða framundan.
En ég hef áhyggjur af þeim manni sem skrifar um íþróttaiðkun sína og talar aðallega um sund og tennis - tennis, er það íþrótt?
Var ekki Örvar bróðir þinn einhvern tíma sæmilegur í fótbolta - svona svipað og þú? Mér hefði þótt einkar viðeigandi að þið hefðuð tekið dálítla törn í að sparka á milli - svona eins og ég hef oft gert í garðinum mínum þegar litlu dóttursynirnir komu í heimsókn. (Þeir koma reyndar enn í heimsókn en eru ekki lengur eins litlir og áður og hafa minna gaman af fótboltanum hans afa).
Mér finnst líklegt að ef þú æfir vel einar sjö setningar í subjunctivo (það heitir nú coniunctivus á latínu) getirðu án mikillar fyrirhafnar slengt svo sem einni þeirra fram á góðri stundu án verulegrar umhugsunar - jafnvel án hugsunar.
Gangi þér vel.
Valdimar (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 18:53
Þessi frásögn af nafna mínum og laginu hans Harðar Torfa minnir mig á það þegar ég spurði einu sinni á kvöldvakt í vinnunni hvort einhver gæti nefnt tvö lög með Herði Torfa. Eftir að nokkrir höfðu þverneitað því, eins og ég bjóst við, steig einn fram og sagðist svo sannarlega geta nefnt fleiri lög, enda væri hann "mikill Harðarmaður". Ég sleit umræðunni samstundis.
Magnús T (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 17:16
Verið velkomin heim af rifinu og gleðilegt ár. Til Íslands hafa borist jólalegar myndir frá Madrid, snjór og alles. Bloggþörfin hefur greinilega verið orðin mikil og er gaman að lesa hina líflegu ferðasögu og ekki síður ígrundað uppgjör ársins. Hér í MA er próftíð á fullu og fermingarveislur á hverjum degi þannig að kannski ætti maður að æfa snúninginn og fara í sund. Og þó.
Stefán Þór Sæmundsson, 13.1.2009 kl. 22:41
Hvaða diss er þetta á Laugafell? Ég hef aldrei skemmt mér betur. Man ekki betur en að við hefðum hitt franska fyrirsætu í þröngum buxum.
Unnar (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 09:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.