Einhvers konar manifesto

Tvær sænskar drottningar hafa kveðið sér hljóðs (sjá athugasemd við síðasta blogg) - þær eru reyndar af íslenskum ættum en mig grunar að eftir áralanga dvöl í Svíaríki sé Íslendingurinn í þeim eitthvað farinn að linast, þrátt fyrir ræður um annað. Mig grunar að þegar Tobba og Brynja fara í ríkið á Íslandi muni þær sakna færibandshringjanna og á síðkvöldum muni þær dreyma hávaxna, ljóshærða menn í kakíbuxum í Lacoste-bolum. Kannski mun Brynja taka Hjassarass í fangið og neyða hann í dodofína Lacoste-treyju.

Í athugasemd Tobbu má greina snefil af ádeilu á stefnu vora í bloggmálum - kallar það á andsvör.

Blogg flestra eru blokkir þar sem kellingar og kallar eru á stöðugu rápi um stigaganga, kíkjandi í kaffi hér og þar hjá vinum og vandalausum - en staldra stutt við. Flestir tala á innsoginu og hlusta rétt á meðan þeir blása reyknum af Viceroy framan í viðmælandann. Eldhúsin eru lítil. Þar sitja menn gjarnan yfir sandkökum og tína uppí sig mylsnuna - einstaka sinnum er boðið upp á suðusúkkulaði og á skárri heimilum rækjusalat og ritz. Appelsínugulir og brúnir tónar eru ráðandi í eldhúsunum og víða er korkur eða málaður steinn á gólfum. Þeir sem eru nýkomnir úr námi frá Svíþjóð eru einatt á klossum og í skyrtum með kínakraga

Það er fjör í þessum blokkum - fullt af krökkum - Abba á fóninum. Svört hillusamstæða í stofunni með heildarsafni Selmu Lagerlöf og mynd af fjölskyldunni að synda í skerjagarðinum.

Og konurnar tala um hávaxna ljóshærða menn í kakíbuxum og karlarnir staupa sig á ákavíti og stanga kjötbollur úr tönnunum með títuberjasultu í skegginu.

Og það er drukkið kaffi og spjallað. Um leiðinlega hluti eins og íþróttir, stjórnmál, kynlíf og ferðalög.

Bloggið mitt er ekki blokk það er vin í eyðimörk. Vin sem fáir vita um. Vin sem er ekki á kortum. Nei. Þetta er ekki góð líking.  Bloggið mitt er fjallakofi í Ölpunum. Ég er ekki alltaf heima eins og fólkið í blokkunum. Stundum hleyp ég nakinn um fjöllin með haglabyssu í annarri og Raunir Werthers unga í hinni í rómantísku æði og ég æpi, já ég æpi "...kaum einen Hauch!! Ruhest du Auch!" og ég hníg niður í snjóinn og veina og get ekki stillt mig og borða snjóinn þó hann sé gulur. Vei! Ó Vei! "Hvar hafa litir dags þín lífinu glatað" "Roslein auf der Heide, die Wange sanft wie Seide".

Þá kemur kannski einhver að tómum kofanum og neyðist til að fletta gömlum dagblöðum og opna skúffur fullar af Burberrys-sokkum.

Eflaust sný ég aftur kalinn á honum og set hann kannski í ullarsokk og sest við sjónvarpið og set spóluna með eldinum í og læt mig dreyma um alvöru arinn.  Í framhaldinu horfi ég á kvikmyndir um fjallgöngumenn og flugslys í Chile þar sem menn neyðast til að taka sér vini sína til munns. En ég treð mig út af ostafondue og kakói.

Eftir rómantísk æðisköst er gott að sjá spor við kofann - sjaldnast eru þau mörg, stundum er eins og einhver hafi sest niður fyrir utan kofann og afturendinn brætt O í snjóinn. Þá líður mér ekki vel. Við blokkirnar er snjórinn traðkaður niður af allskyns fótum og einnig vélsleðum og fyrir framan blokkirnar er teikað á vetrum og börnunum er sögð sagan af drengnum sem teikaði í Álfheiminum og uppgötvaðist í Hafnarfirði.

Kannski er bloggið mitt ekki kofi í ölpunum. Kannski er það stórt einbýlishús með súlum og ljónaskúlptúrum við Laugaásinn. Kannski spóka ég mig um á daginn á flókateppinu í reykslopp með pípu og strýk yfir kili fyrstu útgáfna af Tómasi Guðmunds. Kannski legg ég mig oft á daginn og er mjög þreyttur. Kannski koma mánaðarlega umslög frá Valhöll sem gleðja mig. Hugsanlega er ég búinn að stoppa hundinn minn upp, en ekki konuna, ekki enn. Ég stend við stofugluggann og hlusta á snarkið í arninum og horfi yfir dalinn - og hristi hausinn yfir skrílnum í Álfheimablokkunum. Hvað er þetta fólk að gera? Það er örugglega reykjandi Viceroy gúffandi í sig rækjusalati, hugsa ég með mér og bergi á Remy Martin XO. Mannshöfuð eru þung og ég segi sífellt færri orð. Þetta pakk í blokkunum þvaðrandi um daginn og veginn. Fólk sem hefur stúderað félagsfræði í Svíþjóð og fer aldrei í bað og smjaðrar fyrir öfuguggum og svarta manninum.

 

 

 


Perúskur perubrjóssykur

Ekki beint, en ég átti yndislega stund í þorpinu okkar á meðan Grímur sótti tíma í einhverju sem kalla mætti tónlist. Við eyðum annars litlum tíma í þorpinu því þorpið er eiginlega lokað þegar við sækjum krakkana í skólann og þyrftum á þorpinu að halda. Þorpið er nefnilega opið milli 10-2 og opnar aftur milli 5-8.  Ég átti sem sagt fallegan klukkútíma milli 18.30-19.30 á meðan Grímur tók tónlistargyðjuna á kné sér.

Ég keypti grænu mjólkina í minnstu búðinni í heiminum og kólumbíska konan hrósaði mér fyrir hattinn sem ég þó var ekki með á þessari stundu. Á meðan ég beið eftir afgreiðslu náði ég fínu augnsambandi  við viskíflöskurnar í efstu hillunni. Það voru meira að segja eðalskotar þarna inn á milli.

Síðan fóru ég í vonda súpermarkaðinn til að kaupa almennar nýlenduvörur. Sérkennilegt að koma inni í verslun sem er einfaldlega sjabbí og skítug. Ágætis tilbreyting að þurfa ekki að bíða við kassann í kortér eins og í Carrefour.

Í framhaldinu lá leiðin til slátrarans. Það er ætíð kvíðvænlegt að fara í búðir sem þessar með takmarkaða málakunnáttu í farteskinu. Það er að mörgu að hyggja, stundum kaupir maður til dæmis fisk sem kostar mann mánaðarlaun. Það er ekki erfitt að kaupa eitthvað óvart hjá slátrara sem kostar mann aleiguna. Í þetta sinn tókst mér að koma á framfæri ósk um hluta af lambi; og af því að það er kreppa þá er best að segja að ég hafi keypt hjörtu og nýru en ekki lambalæri svo fólk haldi ekki að ég hafi það of gott.

Perúski grænmetissalinn var næstur á listanum. Við erum mestu mátar. Við tökum ætíð spjall saman - enda þótt ég skilji ekki orð af því sem hann segir og geti ekki munað hvað hann heitir og nú er orðið of seint að spyrja - ég hef þekkt hann of lengi - ég er alltaf að vona að einhver kalli í hann meðan ég versla þannig að málið leysist. Við spjöllum oft um fótbolta - í þetta sinn reyndi ég að vera málglaðari en ella og féll í gildruna sem ég hélt ég væri búinn að hylja með plönkum og spýtnarusli; tussugildruna.  Tussugildran er svona: tvö orð eru afar lík í útliti og líkur á því að maður verði laminn velji maður annað þeirra við gefnar aðstæður: Coño er tussa. Menn segja líka "coño" sbr. "Fjandinn".  Fari maður hins vegar í ísbúð þá fær maður sér oft ís í "cono" sem er kramarhús. Á stundum sem þannig stíga heilinn og tungan afar varlega til jarðar: "ég ætla ekki að segja coño, ekki coño, ekki coño. Og maður endar með því að biðja um ís í tussu. Jæja. Ég var ekki staddur í ísbúð en ég féll í tussugildruna spjallandi við perúska perluvinin minn hann Machu Pichu. Talandi um Barcelona sagði ég við hann yfir hálfa búðina (lausleg þýðing): "Já, trúðurinn minn skoraði fyrir Barcelona um daginn." Tussugildran: payaso=trúður, paysano=landi. Og ég hafði ekki ætlað að falla - en jú, mér tókst að breyta mínum ágæta landa honum Eiði Smára í trúð. Eins og hann hafði staðið sig vel.

Endastöð innkaupanna var heilsubúðin þreytta. Þar afgreiðir mjög þreytt kona sem selur ekki mikið. Spánverjar eru allir rauðir af saltkjötsáti og heimta bara kjötbúðing, kaffi og bjór - heilsufæði, fuss. En ég fer þarna stundum - eitt sinn keypti ég bjór sem reyndist vera útrunnin - það er ekkert spes. En hún er ágæt, konan, smákjaftar oft við mig um krakka og veður (sadómasó og leður).

Já, ég er innsti koppur í búri í þorpinu mínu. Mig vantar bara krá þar sem allir þekkja nafnið mitt. 


Villi djöfull

Þýðir ekki að laumast bara í gestabókina - hafðu nú samband, drengandskoti, gerðumst við ekki fóstbræður þarna þessi áramót í New York?

Síðan skilst mér að mun styttra sé frá Kaliforníu til Madrídar heldur en frá Madrídar til Kaliforníu.

 


Heimsgasti nemandinn - fösstudagur

Frú Reyes heldur að ég sé tossinn í bekknum. Það er nefnilega svo að þegar hún spyr hvort allir skilji þá svara ég einfaldlega stundum nei. Reyes er góður kennari, gallinn er bara sá að hún kann bara spænsku og á erfitt með að setja sig í spor nemenda sem tala tungum.

Í skólanum í morgun, svona um ellefuleytið, sýndi frú Reyes ykkur myndbút sem fjallaði um San Sebastian og þá ekki síst matarmenningu íbúanna með áherslu á pinchos sem er einhvers konar tapas. Annar hver maður var slefandi hafandi einungis nært sig á espresso um morguninn. Þetta var svipað og að sitja undir vissum atriðum í Basic instinct í setustofu úti á sjó, einungis innan um samkynja og eiga í engin "hús" að venda.

í nýrri útgáfu á ljóðum Davíðs hefur einhver póstmódernískur hryðjuverkamaður komist í handritið - fyrsta erindi "Konunnar sem kyndir ofninn minn" er nú svona:

Ég finn það gegnum svefninn,

að einhver læðist inn

með eldhúslampann sinn,

og veit, að það er Conan,

sem kyndir "ofninn" minn.

 

Þetta verða að teljast skemmdaverk. Enginn ber lengur virðingu fyrir neinu. 

Töluverð viðbrögð voru við síðasta texta um Amor. Gleðilegt verður að teljast að kvenfólk er farið að sýna mér áhuga - gleðilegt og sorglegt. Það hefði mátt gerast fyrr. Eflaust hringir síðan landsliðsþjálfarinn í fótbolta í mig á morgun; 15 árum of seint. 

Flestir unglingspiltar hafa upplifað kvenhræðslu. Halldór Laxness lýsir þessu fyrirbæri í einni af minningarbókum sínum; að hann hafi verið kvenhræddur. Það er tilfinningin þegar unglingspiltur, einn á ferð, gengur fram hjá hóp af unglingsstúlkum á svipuðum aldri; töluvert um fliss og önnur skemmtilegheit og hann verður allmeðvitaður um sjálfan sig. 

Annað orð eða frasi sem lýsir þekktu fyrirbæri er þetta: "að vera sleginn húsblindu". Það er þegar íbúar tiltekins húss verða samdauna ýmsum vanköntum íbúðar (það vantar lista, dósir, og ýmislegt smálegt til að fullkomna íverustaðinn). Ég er húsblindur, algerlega.

 


Iðnaðarbankinn

Það var árið 1987, að ég held, ég var að verða 15; hress og kátur unglingspiltur, kankvís og kerskinn, ætíð hrókur alls fagnaðar, með liðað fallegt hár sem lék við silkimjúka vanga (reyndar var ég óhress og ókátur mannhatari með fitugt hár sem rímaði skemmtilega við þurrar varir og bólur).

Nú sem þá þótti mér flest leiðinlegt. Nema að éta og

Nú sem þá var ég fælinn og óframfærinn - eini munurinn er sá að nú er maður klókari.

Nú sem þá var ég geysilegur peningamaður og mjög áfram um að ávaxta vel mitt pund - þetta sumar vann ég á Kjötiðnaðarstöð KEA og peningar áttu það til að safnast fyrir í vösum, undir rúmdýnum og í raun hvar sem ég fór.

Nú sem þá var nokkuð til sem hét útvegur og nokkuð sem hét banki. Útvegsbanki. Önnur stofnun hét Iðnaðarbanki. Og þar sem ég vann á Kjöt-Iðnaðar-stöðinni hlaut ég að vera í viðskiptum í banka þeim er við iðnað var kenndur.

Um þessar mundir átti sér stað mikil tæknibylting. Fram voru að komu fyrirbæri þau er tölvur nefnast og hraðbankar. Hægt var að taka út pening úr hraðbanka með svokölluðu t-korti, ef ég man rétt.

Um þessar mundir var Iðnaðarbankinn til húsa í Sjálfstæðishúsinu (leiðréttið mig ef ég rugla, þarna var allavega banki, hvað sem hann hét).

Einn veðurdag datt fitug hárbóla með hjartslátt inn um innganginn á bankanum og hafði í hyggju að sækja um t-kort. Það þótti sjálfsagt mál. Og eflaust hefur hjartslátturinn fyllt inn nafn og heimilisfang, nafnnúmer og sitt hvað fleira. Hjartasjúklingurinn var síðan beðinn að koma viku síðar og sækja kortið.

Nokkrum árum síðar fékk taugahrúgan að heyra frá einum kennara sinna að víst hefði hún fallega rithönd, verst væri að ekki væri hægt að lesa hana. 

Líður nú vikan við leik og störf: eflaust hef ég verið hrókur alls fagnaðar í einsmannspartíum hjá sjálfum mér hlustandi á svarta tónlist svartra manna. Reyndar man ég að ég hitti stundum fólk og meiddi það - það heitir að vera í íþróttum og það hefur mér alltaf þótt gaman. Og eflaust hefur maður legið á maganum á gólfteppi og lesið Moggann og legið yfir úrslitum í enska boltanum frá því deginum áður - á þessum árum var netið svakalega slappt og engan veginn hægt að treysta á að nýjustu upplýsingar bærust áður en atburðir gerðust eins og nú.

Púlsinn yfirgefur nú heimili sitt á brekkunni og lekur niður brekkuna. Hápunktur á frábærum degi - að sækja t-kort í Iðnaðarbankann. Hann gengur framhjá Amtinu og heyrir Hörð og Hólmfríði ljósmynda kort í gríð erg. Hann gengur fram hjá JMJ þar sem Raggi er að velta fyrir sér tveimur möguleikum: á ég að halda áfram í kótilettum, rjóma og þægindum eða halda á vit spartversku. Síðan hefur hann eflaust selt par af kakíbuxum og hvíta sokka með bros á vör - senst Raggi var með bros á vör, ekki...

Í afgreiðslu Iðnaðarbankans var Árni sprettur Freysteinsson að afgreiða; eflaust hefur hann verið í litríkri skyrtu, gyrta ofan í efnisbuxur, sem hann (í retróspekti) hefði gjarnan vilja hafa aðeins neðar á líkamanum heldur en upp við bringu. Eflaust hefur Árni verið með asnaleg gleraugu, svipuð og Björk var með um daginn, og strípur. Eflaust hefur Árni verið hinn hressasti. Ég bar upp erindi mitt, myndi það líklega heita í einhverri heimsmynd - ég frussaði einhverju út úr mér sem með góðum vilja hefði mátt túlka sem erindi. Árni hóf leit í einhverju boxi með kortum og var greinilega með stafrófið á hreinu. Ekkert fannst undir A. Skrýtið. Hefði ég haft húmor hefði ég beðið hann að leita undir Hálfviti eða Fífl - en mér var ekki hlátur í hug. Áfram heldur Árni að vandræðast í A-inu og finnur kort sem gæti komið til greina.

Ástarguðinn Amor birtist einatt sem allsber krakki með boga og á unglingsárum var hann örugglega með feitt hár og bólur.

"Amor Már Arngrímsson stendur hér" segir Árni og kemur þessu ekki heim og saman, enda grunar mig að kantmenn hjá KA árið 1987 hafi ekki verið að hugsa eftir þeim brautum. Kannski var hann bara að hlífa mér. Kannski vissi hann að ég þyrfti ekki á gríni að halda.

Ég kem þessu strax heim og saman og hrifsa af honum kortið.  Á umsókninni hafði ekki verið beðið um prentstafi þar sem skrifa ætti nafnið - og séu menn þannig innstilltir, er auðvelt að lesa Amor út úr tilraun minni til að skrifa nafnið mitt. (Ég var eitt sinn spurður hvort ég héti Styrmir, á sama hátt má lesa það út úr lykkjuvirkinu).

Og því hélt fitugt hárið af stað upp Oddagötuna með viðbjóðslegt t-kortið í vasanum; ávísun á hlátur og skemmtilegheit hjá fólki sem finnast ófyndnir hlutir fyndnir.

Ég bar ekki nafn með rentu - allsber smákrakkaguð með boga. Í hjarta mínu var ég undarleg blanda af heróínsjúklingnum Nick Cave og atvinnumanni í fótbolta.

Léttur í spori (lygi) gekk ég upp Oddagötuna. 

 


Dagur

Segir fátt af kleinum.

 

36 ára fara menn að finna fyrir hnjám eins og Perry Smith sem var tekinn af lífi 36 ára fyrir að myrða Clutter-fjölskylduna. Hann gekk fyrir aspiríni - upp að hnjám.

Samkvæmt ævisögu Davíðs Stefáns bauð hann gestum upp á gos eða brennivín; að bera fram kaffi var kvenmannsverk.

Ég mætti í skólann - tómur kofi - engin kennsla í dag: þið getið farið heim og slappað af, tekið ykkur sturtu eða farið í bað. - Ég fór í sund. Það er í mörg horn að líta áður en farið er í sund. Gleymi maður sundhettunni eða sandölunum er maður dauðans matur. Ég held (án gríns) að það væri í lagi að gleyma sundskýlunni - bara að maður gleymi ekki sundhettunni og sandölunum.

Rosalega er pirrandi að drukkna alltaf við tilraunir til snúnings - neyðarlegt þetta tilstand alltaf og alltaf er ljóti sundlaugarvörðurinn á vakt, veifandi leyfi til munnviðmunnveitingar. 

Er of seint að byrja að æfa sundballet? Ætli maður fái nefklemmu á fyrstu æfingu eða þurfi að fara í nefklemmubúð niðri í Madríd?

Í búðinni er maður alltaf gegnumlýstur áður en maður vogar sér inn með eilífan innkaupapoka. Ég fer alltaf sama hringinn - enda alltaf í mjólkinni grænu og.. æ ég veit það ekki. Það eru hundrað kassar - 20 eru virkir - 10 starfsmenn eru vakandi - það gekk ekki að skanna tómatana - sleppum þeim. Það er ekki annað hægt. Annað kallaði á ferðalag, ævintýri.

1. þáttur síðustu seríu af Soprano. Ást hatur sambandið við sjónvarpið. Gamla pælingin: það er betra að lesa lélega bók heldur en að horfa á lélegt sjónvarp. Lífseigt. Það er líklega ekkert betra en Sopranos. Tony er Egill Skallagrímsson. Sturlaður en samt eitthvað svo geðslegur. Ó, hvað þetta er geðslegur maður.

Ef það fréttist að búið sé að tæma laugarnar heima og farið sé að nota þær undir þorskeldi - þá kannski þá sest ég hér að. 

Segir fátt af kleinum og öðru sætabrauði.

 

 


Ég bið að heilsa - e.Lawrence Ferlinghetti (þýðing Arnar Már)

Sérhverri skepnu sem étur og skýtur sitt blóð

og sperrtum veiðimönnum veifandi rifflum á pallbílum

og skyttum og varaliðsmönnum

með sjónauka fyrir augu

og sérhverjum rednekk með sjeffer í bandi

og afsagaðar haglabyssur

og sérhverjum skerfara með mannsins tryggasta vin

á slóð einhvers sem er að flýja

og sérhverju óeinkennisklædduleynimenni

með axlarhulstur troðfullt af dauða

og sérhverjum þeim sem bugta sig fyrir byssumönnum

og þeim sem skjóta þá sem flýja

og sérhverjum lögggæslumanni með lögin í gæslu

með handjárn og kylfur

og sérhverjum landamæraverði á sérhverju checkpointcharley

báðum megin Berlínarmúrsins

bambus- eða tortillatjaldsins

og sérhverri riddaralöggu í skraddarasaumuðum

reiðbuxum með óeirðahjálm úr plasti

og skóreimabindi með sexhleypu í silfurlögðu hulstri

og sérhverjum sírenöðum löggubíl með haglara í skottinu

og sérhverjum flugmanni með sprengjur og napal undir væng

og sérhverju varnarmálaráðuneyti seljandi vopn

til stríðandi fylkinga

og sérhverjum þjóðernissinna af sérhverri þjóð

sem drepur í nafni þjóðarinnar

og sérhverjum spámanni eða skáldi með dálk eða byssu

og sérhverjum valdamanni voldugra landa

og sérhverjum þeim sem drepur og drepur og drepur í nafni friðar.

Ég bið að heilsa ykkur með löngutöng á lofti,

þeirri einu kveðju sem hæfir. 


Guðmundur Böðvarsson

Guðmund uppgötvaði ég afar seint. Ég hélt að hann væri sveitó. Málið var bara að hann var bóndi og bjó í sveit en hann var ekki sveitó. Hann var reyndar alveg djöfulli magnaður. Og ef eitthvað er að marka ævisögu hans eftir Silju Aðalsteins, þá var hann líka góður gæi. Í menntaskóla lásum við um Rauða steininn. Það þótti mér leiðinlegt ljóð. Fylgd lásum við líka, það fer skánandi. Og síðan skoðuðum við líka ljóðið þarna um dvergandskotana í norður- og suðurey. Það er dálítið flott, sérstaklega núna, núna þegar menn eru búnir að svíkja sína huldumey.

Á þetta ljóð rakst ég gluggandi í best of Guðmundur í eldhúskróknum á Æsustöðum, hugsanlega étandi sviðalappir - örugglega bergjandi á rauðum víking.

 

Raddir sem aldrei hljóðna

Svo hljótt þaut mín jörð yfir himinsins nafnlausu vegi

að hjarta mitt fann ekki mismun á nóttu og degi,

í feiminni þrá, sem endalaust bíður og bíður.

Hann blekkti mig, tíminn, ég vissi ekki, hvernig hann líður.

 

Og svo flaug hann á burt með mitt vor yfir heiðar og hlíðar,

með höll mína, tign mína og ríki, ég vissi það síðar,

með hið fegursta og besta, sem aðeins af afspurn ég þekki

-og ég átti það, átti það allt, en ég vissi það ekki.

 

Nú undrast ég það, þar sem einn ég í skugganum vaki

að mín æska er liðin, er horfin, og langt mér að baki,

á einfaldan hátt, eins og auðfarinn spölur á vegi,

og þó undrast ég mest, að ég gekk þar, og vissi það eigi. 


Af Eiríki Guðmunds og fleiru

Í dag eru bara til tveir samnefnarar: Bubbi Morthens og Britney Spears. Ef tíu Íslendingar kæmu saman væri þetta einu nöfnin sem allir myndu þekkja vandræðalaust. Þetta finnst mér vera einhver áþreifanlegasta breytingin sem varð í kjölfar internetsprengingarinnar og fjölgunar sjónvarps og útvarpstöðva. Enginn þekkir lengur sömu hlutina. Allar samræður eru í raun einræður og upplýsingagjöf. Það er ekki hægt að koma sér saman um nein umræðuefni nema Bubba og Britney. Því er það svo að nafnið Eiríkur Guðmundsson segir ykkur líklega fátt eða ekkert (ég meina, ef þessir 20 lesendur þessa bloggs væru þverkskurður þjóðarinnar). Tíu prósent ykkar þekkja hann, giska ég á. Að hann hafi stýrt útvarpsþætti á besta tíma í 10 ár á rás eitt, vissuð þið það? Að þessa dagana haldi hann skáldlegar eldræður yfir rústunum, vissuð þið það?  Við lifum á vondum tímum - þar sem bestu raddir hins besta fólks týnast í kjaftavaðli. Undanfarin tíu ár hefur okkar besta fólk skrifað og sungið og talað og hitt naglann á höfuðið - nú heyrir maður í spekingum sem segja að fræðimenn og spekingar hafi sofið á verðinum á meðan þjóðin flaut að feigðarósi. Það er ekki rétt. Menn voru ekki að hlusta. Og eins og Eiríkur Guðmunds benti á í pistli í Víðsjá í gær eða fyrradag þá snérist umræðan um Sylvíu Nótt og brotthvarf Randvers Þorláks úr Spaugstofunni. Og annar góður punktur hjá honum; það var eins og Séð og heyrt væri komið með útibú í öllum fjölmiðlum. Hver man ekki eftir forsíðufréttum á mbl. um ástand Britneyjar og Amy Winhehouse? 

Mig langar að hrósa rúv. Mig langar að hrósa Eiríki Guðmunds, þeim í Speglinum, Hjálmari Sveins, Guðmundi Andra og öllum þeim sem eru að vanda sig.

Verst að þeir eru bara trúboðar meðal trúaðra; krakkavitleysingar á öllum aldri stinga hausnum áfram í afþreyingarsandinn og hækka bara í i-podinum og stela sér bara fleiri kvikmyndum og hafa það reglulega gott með dorritos-mylsnu í kjöltunni. 

Það er sorglegt að ekki sé til neinn almennilegur vefur sem segir og útskýrir fréttir og þjóðmál. Það er fyrirbærið útvarp sem heldur merkinu á lofti. Vefir mbl og vísis eru í raun bara sirkus þar sem óunnu efni er hent inn eftir því sem það berst. Skeggið á Brad Pitt blandast náttúruhamförum í Kína blandast úrslitum í bikarnum.

 

 

 


af lögum

Í fríinu góða á Íslandi í ágúst var oft glatt á hjalla. Mikið hlegið. Mikið grín. Mikið gaman. Á síðakvöldum sátum við einatt í Lacoste bolum með ralph lauren-peysur sveipaðar um axlirnar - í kringum eldinn og átum sykurpúða - svei mér ef einhver var ekki með gítar og spilaði maría-maría. Svei mér ef hann endaði ekki í eldinum. Djók!

Það var mikið keyrt - vð keyrðum mikið - það við keyrðum mikið og það var hlustað og reyndar heldur mikið á plötuskrípi eitt sem pottþétt heitir. Margir héldu mikið upp á lag sem heitir því gróteska nafni "Þú komst við hjartað í mér" og fjallar um læknamistök. Djók!

Tvö lög vöktu einatt furðu mína er ég hlustaði nauðugurviljugur á disk þenna; fyrrnefnt hjartalag og síðan eitthvað kántrílag um rauðháls sem rekur sögu sína á barnum. Það er gaman að skoða texta laganna og bera saman - og spyrja sig hvor karltegundin er meira aðlaðandi og eins væri gaman að skoða þetta út frá pólitíkinni; ætli báðir karlarnir kjósi Obama eða kannski bara annar, eða hvorugur? Er jafnvel hugsanlegt að bæði lögin rúmist í einum og sama karlinum? Er það kannski heldur mótsagnakennt?

 

Þú komst við hjartað í mér

á diskóbar

ég dansaði frá circa tólf til sjö

við mættumst þar

með hjörtun okkar brotin bæði tvö.

 

Ég var að leita að ást

....

og þegar þú komst inn í líf mitt

breytist allt þú kom þú komst

við hjartað í mér.

 

og ég fann þig sem betur fer

 __________________________

Nú - þið þekkið þetta.  Þetta er hugþekk mynd af nýmóðins karli. Þessi piltur fæddur circa 12/7 82 er ólíkur föður sínum sem fæddist 1958. Hann fer á diskóbar, hann dansar, hann gengur um með brotið hjarta, hann er ekkert þangað til hann hittir hinn helming hjartans. Pabbi hans var pönkari og dansaði helst ekki; kannaðist heldur ekki við að vera með hjarta en viðurkenndi þó að hafa fengið brjóstsviða eftir að hafa drukkið bjórlíki ofan í hangikjöt, grænar og jafning.

Ég skal ekki segja hvort þessi manngerð sé það sem koma skal. Þessi manngerð er frábærlega skemmtileg yfir traustum cappuchino og hann veit að biscotti er óætt nema maður dýfi því í kaffið. - En annað mál er hvort hann er þrautgóður á raunastund - gæti hann dregið fram lífið á lúku af kaffibaunum og hálfri kexköku grafinn í fönn? Ég veit það ekki. 

 Hinn textinn er svona í lauslegri þýðingu:

 Rehab- Bartender

Barþjónn, nú fór ég alveg með það

braut skilorð í góðum fílíng.

Það var nótt þegar loks ég kom heim á hlað

það var læst svo ég gaf hurðinni góðan kýling.

 

Hún var að brjálast yfir gluggapósti

ég sagði: "þú ert dópuð" með þjósti

 Hún kallaði mig fífl og henti mér út

 sagði að ég væri ræfill og lamdi mig rosalega fast.

 

Og í ölæði gerði ég nokkuð

sem ég hefði betur látið ógert

og nú er ég hér hjá þér barþjónn,óguð

fyllibytta á flótta.

_________________

ég hef ekki þorað að lesa textann í heild sinni - en ég sé ekki betur en lagið fjalli um mann sem gerir eitthvað við konuna sem veldur því að hann er nú á flótta. Mér finnst hann ekki vera mjög sorgmæddur; hér eru engin brotin hjörtu. Hann virtist vera hálf fúll og einhvern veginn var þetta henni að kenna: þið vitið: you make me so angry, I don't wanna do those things but you make me...

Ég hef svosem ekkert gáfulegt um þetta að segja. Það var bara stuð að heyra þessi lög nokkurn veginn í sömu andrá. Ég hef á tilfinningunni að þessi þarna Palin sé meira gefin fyrir Bartender lagið og Obama er svona diskóbarsbrotinhjörtubæðitvö-gæi. 

Besti textinn á plötunni er líklega kósýkvöld þeirra baggalútsmanna. Eitt truflar mig þó við textann. Við hlustun finnst mér ég vera staddur í teppalagðri blokkaríbúð anno 1982 og öll stemningin er á þá leið (það segir til dæmis enginn rólegheit og kósý í dag). Því finnst mér fyrirbærið flísteppi sem kemur fyrir í einni hendingunni vera hálfgerð tímaskekkja; eins og þegar rolex-úr koma fyrir í miðaldamyndum. Það var líka eitthvað annað atriði sem ég er búinn að gleyma. Reyndar er líklegt að þeir hafi hent flísteppinu inn til að ná fram póstmódernískum núningi.

Guð blessi Islamabad. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband