Af Noregi

Ég held það hafi verið M.Teitsson sem benti mér á afar sérkennilega söguskoðun í einu af lögum Bob Marleys. Maður lærði í skóla að gyðingar hefðu krossfest Krist og Hallgrímur Pétursson fjallar töluvert um þetta og það var vandaður maður. Í laginu So muchs things to say af plötunni Exodus segir Bob Marley aðra og töluvert átakanlegri sögu af síðustu augnablikum frelsarans - í hans meðförum eru það ekki gyðingar sem hengja frelsarann upp heldur Norðmenn, af öllum þjóðum! Þar segir hljóðrétt:

"But I'll never forget Norway: they crucified Jesus Christ" Ég hló að M.Teitssyni þegar hann sagði mér þetta og vísaði vitleysunni á bug. Hlustaði síðan á textann og viti menn, þetta er laukrétt. En hvað fær jamakískan söngfugl til að syngja um meintar misgjörðir Norðmanna árið 1977? Er þarna einhver hulin merking? Ádeila á olíugróða? Er þetta kannski vísun í morðið á Höskuldi Hvítanesgoða eða jafnvel Njáli í brennunni. Var Bob Marley sérfróður um Íslendingasögurnar? Þetta verður að teljast heillandi viðfangsefni fyrir fræðimenn.

 Ég skil ekki Noreg og samband Íslendinga við þetta "móðurland" sitt. Bandaríkjamenn af írskum ættum virðast halda rótunum frekar á lofti en hitt og lyfta þeim hátt á Patreksdegi svo moldin feykist um bari og borð svo Budweiserinn tekur á sig blæ og lit Guinnessbjórsins. Ég hef aldrei hitt nokkurn sem var stoltur af þessum tengslum við Norðmenn og aldrei hef ég hitt neinn sem sá nauðsyn í því að heimsækja upprunalandið - enda þótt að flestir séu sammála um að Noregur sé eitt fallegasta land í heimi. Einhverjir læknanemar og útgerðarmenn dveljast lengri eða skemmri tíma í Noregi en þeim þykir svo sem enginn frami í því. Hvernig stendur á þessu? Íslendingar skreppa helgi og helgi til Kaupmannahafnar. Höfum við eitthvað gott að segja um Dani? Ég trúi því ekki að 700 króna bjór á Strikinu sé svona spennandi. Af hverju skreppur enginn til Oslóar eða Bergen? 

Annað um Norðmenn. Kannski er það tilviljun en á skrölti mínu um háskóla í Þýskalandi rakst ég aldrei á Norðmann. Maður hékk með Svíum og Dönum og vissi af einhverjum Finnum en hvergi sá ég Norðmann. Leiðréttið mig endilega, ég held ég þekki engan Norðmann persónulega.

Hins vegar má ekki gleyma öllu því sem Norðmenn hafa gefið okkur á sviði menningar og lista, íþrótta og afþreyingar: Knut Hamsun og Odd Nerdrum, Dimmu Borgir og kjellinn sjálfur Jon-Arne Riise... 

 

 


Nýtt Liverpool-lag (handa M. Teitssyni)

 

 

Hefði jón arnar riise

bara tekið lýse

væri teitsson í dag með hýrri há

en í stað þess bíður hans hádegisbar á skuggalegri krá.

 

Nú snýr shankly sér við í gröfinni

öðrum megin við Mersey - eða var það hinum megin?

 

fram að þessu sögðu menn: þú munt aldrei ganga einn

slóðann í gegnum skóginn á leið til grafar

en það var þá, jón arnar.

Nú verður þú sendur nestislaus í kjaftinn á rauðhettu

og graham sharp bíður þín í rjóðrinu með skarpan kuta

og þú skalt passa þig í skóginum, jón arnar,

nú færðu að ganga einn þessa stuttu leið sem eftir er.

 

í hálfeik heyrði hann bara orðin "og nota hausinn, strákar"

og tönnlaðist á þeim eins og sænsku skroi þar til hann var sendur

inn á sviðið, búinn að gleyma línunum og hlutverkinu.

Hann var að hugsa um benídorm og fara nú að hætta

þessari bölvuðu vitleysu og fara að eyða og spenna

hýrunni sem hann hefur nískast með eins og Norðmanna er háttur.

 

"Þú munt aldrei ganga einn - þú munt aldrei ganga einn

leiðina stuttu sem eftir er"

 

Ó, jú, jón arnar minn góður

ó, jú. Þú verður sendur út á gaddinn til svíagrýlunnar sem mun taka þig í fangið

og  hlaupa með þig út á ísinn með ástarglampa í auga

 

og dóttir hennar, ungfrú anelka, með ljósa lokka stendur gleið við vök og 

lokkar þig ofan í með frönskum gylliboðum - hún rekur upp skræk, kastar

rauðþrútnum gangráði upp í loftið og plammar hann niður.

Augu þín opnast um stund, jón arnar, vökin lokast. Himnarnir hrynja. 

 

 


Föstudagurinn 18. apríl

Guðjón nokkur gerir athugasemd við blogg þetta. Hefði hann gert athugasemd við blogg Berlusconis hefði Berlusconi líklega svarað með ómálefnalegum hætti, kannski eitthvað á þessa leið: ,,Þú ert nú bara með há kollvik og átt ljóta úlpu." Ég er hins vegar málefnalegur: Guðjón þessi hafði einfaldlega rétt fyrir sér. Við sjáum hvað setur. Allt í einu er ég orðinn eftirsóttur þýðandi með endalausar dauðalínur og samkvæmislífið er með hressasta móti; ég fór að sofa hálf-tólf í gærkvöldi.

Annars er þetta grátlegt með Berlusconi. Vesalings Ítalir.

Gainsbourg og aðrir bindindsmenn

Serge Gainsbourg var mesta dýrðarmenni sem Frakkland hefur alið. Hugsa sér að árum saman var eins og hann hefði barað másað eitt lag um ævina; Je t'aime. Ég man hvað það var eitthvað á skjön að heyra þetta spilað í útvarpinu og maður var kannski 12 ára í sunnudagsbíltúr með fjölskyldunni. Maður var kannski að koma úr Brynju eða Nesti. Maður var kannski að stinga upp í sig pylsu og þá byrjar það; orgelspilið, andvarpið und der Höhepunkt. Eins þótt mér óþægilegt þegar Björgvin söng um píkuna og hvort hann var ekki að greiða hana líka. Afar sérkennileg hugarmynd það. Og kannski var Björgin á tímabili hinn íslenski Serge þegar hann söng ,,Gott er að ríða" með stúlknakór á barnaplötu. Merkilegt hvað lítið hefur verið fjallað um þetta.

Merkilegt hvað mínir helstu menn eru miklir óreglumenn; Chet Baker var alltaf skakkur, Miles Davis sömuleiðis, meðlimir The Band eru flestir dauðir úr dópneyslu, Serge var alltaf með Gitanes í vinstri og göróttan drykk í hægri, Megas tók stundum meðul. Reyndar var HKL lítið fyrir ofdrykkju en hins vegar þótti honum barbarismi að drekka vatn með mat. Einhvern tímann í fyrndinni fann ég á mér. Nú fylgi ég einatt boðskapnum sem finna má í Schlagaranum góða:

,,Ja, die Freude ist der beste Rausch- ja, lass die Freude sofort in dein Herz" 

 

Vinalínan

 Sökum nísku hef ég ekki tímt að kaupa vini upp á síðkastið. Fann hins vegar síðu sem heitir ,,lingo bongo" og þar getur maður komist á stefnumótin. Jú, hú. Ég er búinn að fara á tvö. Eina reglan er að maður á að tala ensku í hálftíma og síðan spænsku í hálftíma. Í gær mælti ég mér mót við kvenmann sem þykist vera að missa niður enskuna sína (hún bjó í tvö ár í London). En eins og kvenna er siður er þetta bara hógværð. Sá sem segir ,,drought" og ,,precarious" og hvort hún sagðir ekki ,,thus" og ,,ajar" svei mér ef hún sagði ekki ,,akimbo" lika - sá hinn sami er ekki að fara missa enskuna sína niður. Ég bullaði eitthvað á spænsku á móti. ,,Paella, alfomra, Almodovar, Alhambra og Toledo og Adios". Fyrr í dag hitti ég manndreng að nafni Jose. Hann virkaði vel á mig. Jarpur á hár, hress í lund og hafði dvalið bæði í Flórída og í Wales. Við tölum ensku en hann er það áhugasamur um lönd og lýði að hann notar frítímana sína fjóra til að læra þýsku í málaskóla. Þegar ég heyrði þetta fékk ég kökk í hálsinn og weinte - reif síðan upp Faust-heftið gula, steig upp barinn og velti pæju-pönnunni um koll. Já, ég reif upp heftið og fleygði því upp í loftið, þuldi síðan úr hjarta mínu orðin sætu:

Habe nun, ach! Philosophie,
Juristerei und Medizin,
Und leider auch Theologie!
Durchaus studiert, mit heißem Bemühn.
Da steh ich nun, ich armer Tor!
Und bin so klug als wie zuvor;
Heiße Magister, heiße Doktor gar,
Und zihe schon an die zehen Jahr
Herauf, herab und quer und krumm
Meine Schüler an der Nase herum-
Und sehe, daß wir nichts wissen können!
Das will mir shier das Herz verbrennen.
Zwar bin ich gescheiter als alle die Laffen,
Doktoren, Magister, Schreiber und Pfaffen;
Mich plagen keine Skrupel noch Zweifel,
Fürcht mich weder vor Hölle noch Teufel.
Dafür ist mir auch alle Freud entrissen,
Bilde mir nicht ein, was Rechts zu wissen,
Bilde mir nicht ein, ich könnte was lehren,
Die Menschen zu bessern und zu bekehren.
Auch hab ich weder Gut noch Geld,
Noch Ehr und Herrlichkeit der Welt;
Es möchte kein Hund so länger leben!
Drum hab ich mich der Magie ergeben,
Ob mir durch Gesites Kraft und Mund
Nicht manch Geheimnis würde kund;
Daß ich nicht mehr, mit saurem Schweiß,
Zu sagen brauche, was ich nicht weiß;
Daß ich erkenne, was die Welt
Im Innersten zusammenhält,
Schau alle Wirkenskraft und Samen,
Und tu nicht mehr in Worten kramen."

 

 


Góður laugardagur 12. apríl

Kaffi

Er að drekka kaffi frá Kaffitári; við kaupum ekki innfætt kaffi. Og síðan blótar maður íslensku kanarífuglunum sem fljúga til heitu landanna með saltfisk og mogga í farteskinu. Maður er ekkkert skárri. En svona er þetta bara. Merkilegt þetta fyrirbæri kaffi; Guðinn Kaffi sem tilbeðinn er kvölds og morgna og þar á milli. Er einhvers konar leiðarstef; rauður þráður í tilverunni. Ísbrjótur í heimsóknum; jú, kannski tíu dropa. Við vorum part úr sumri á Ítalíu, hvenær var það? já, 2002. Hanna var að vinna og ég að skottast með Unni litla og þýða vondar bíómyndir á síðkvöldum. Við bjuggum eiginlega úti í sveit, í þorpi sem heitir að mig minnir  Masotti og er nálægt Pistoia, sem er nálægt Flórens. Já. Við leigðum fína íbúð og leigusalinn bjó við hliðina í villu sinni ásamt konu sinni og dóttur. Leigusalinn var risi. Eini risinn sem ég hef kynnst á ævinni og hann hét Capone í ofanálag. Hann var atvinnumaður í körfubolta og mig minnir að hann hafi verið vel yfir 2,20 og hæð. Villan hans var sérútbúin; öll dyraop og slíkt löguð að hans stærð. Þetta var fínn kall sem hafði gaman af að æfa enskuna sína og fiflast í Unni. Í næsta húsi bjó Antonio og fjölskylda, og við urðum miklir vinir. Hann vildi læra ensku og ég ítölsku og við reyndum að bulla eitthvað um HM i fótbolta sem þá var einmitt í gangi. Maður þarf að kíkka aftur á þetta fólk. Kaffi já; fornvinur okkar hann Luca, sem giftur er Silviu, á heima í Pistoia. Eitt sinn kom hann í heimsókn á mótorhjólinu sínu, hvort klukkan var ekki að ganga tólf á hádegi. Ég spyr hvort hann vilji ekki kaffi. ,,Nei", svarar hann, ,,Ég er búinn að fá mér kaffi." Íslendingi finnst þetta skrýtið svar. Kaffidrykkja er aldrei endanleg og svei mér ef mér fannst þetta ekki móðgandi. Maður verður sérstaklega að passa sig þegar gamalt fólk bíður manni kaffi. Þá má aldrei afþakka. Þú getur alveg eins rifið úr því hjartað og trampað á því á skíðaklossum. 

Getafe 

Knattspyrnufélagið Getafe minnir mig á íslensk landslið í fótbolt og handbolt (allavega fyrr á tið). Þeir sýndu það að hjarta og stolt er betra eldsneyti en feitar ávísanir. Það sem þeir djöfluðust í Bayern. Og þeim hefur tekist það ótrúlega að snúa harmleik upp í sigur með því að bera sig mannalega. Tíu milljónir Spánverja horfðu á leikinn í sjónvarpi. Það er ekki lítið.

Greinin um Ísland

Hefur ekkert verið fjallað um greinina sem birtist í El País? Heilmikil lofrulla um landið og fólkið. Ég þyrfti eiginlega að þýða hana. Hún er mjög fyndin. Ég kannaðist eiginlega ekkert við þetta land. Viðbrögð við greininni voru mjög sterk og var hún mest lesna greinin á vef blaðsins um síðustu helgi. Það mun allt fyllast af Spánverjum í sumar, sjáiði bara til. Ég myndi ekki segja að Ísland væri besta land í heimi og Íslendingar hamingjusamasta þjóð í heimi - hitt er ljóst að þar eru tækifærin á hverju strái og einstakir hamingjumöguleikar - en við erum meistarar í því að klúðra kjöraðstæðum.

 

Nú ætlum við í bæinn

 með grenjandi börn sem hata bæjarferðir. Hver veit, kannski verði ég í stuði til að ég þýði hápunkta greinarinnar seinna í dag eða kvöld. Nú kannski skora ég líka á konuna í Skrafl eða Tafl. Kannski maður setjist út á svalir með göróttan drykk. Örugglega kannski.


Góðan föstudag - 4. apríl 2008

Ég nefndi það um daginn að framvegis yrði blogg þetta vikublogg og hugsanlega á mánudögum. Líklegra þykir mér að bloggið komi út á föstudagseftirmiðdögum. Ég opna oftast fyrsta bjórinn upp úr hádegi og þá verður maður svo asskoti pennaglaður. Byrjum þá:

 

Afmæli 

Ég vil byrja á að þakka mæðrum og feðrum Íslands fyrir allar afmælisveislurnar í gegnum tíðina; fyrir hressilegu barnaafmælin með pylsunum og pizzunum og skúffukökunum og blöðrunum. Takk. Nú veit ég að þetta er ekki sjálfsagt. Það er menning að gera hluti vel og mannalega; t.d. að undirbúa afmæli hjá krakkanum sínum og bjóða haug af fólki. Hér er aumur bragur á afmælum. Um daginn fór Unnur á á McDonalds í afmæli og í gær í einhvers konar boltaland sem sérhæfir sig í svona veislum. Mikið þótti mér þetta aumt. Krakkarnir skráðu sig í afgreiðslunni, fengu armband með númeri og afgreiðslukonan tók við gjöfinni til vörslu. Ég sótti Unni síðan tveimur tímum seinna.

Ruðst inn á tökustað 

Um hádegi í gær fór ég út að ganga eins og svo oft í skóginum vopnaður eyrnaútvarpi og sólgleraugum. Lalla mér eftir stígnum og sem ég tek eina beygjuna mæti ég ég ekki Nápóleon Bónaparte og vinum hans á hestbaki. Ég var fullkomlega fyrir og fékk stingandi augnaráð. Læddist þó í gegnum þvöguna og mína leið. Ég hafði ekkert séð í blöðum en þarna var greinilega verið að taka upp einhverja stórmynd; kannski ,,Emanuelle en Madrid" eða ,,Hopsasa pa sengekanten en Madrid".

Hiti 

Tilhugsunin um hita er miklu betri heldur en hitinn sjálfur. Það sama á við um fyllerí.  Eins er skemmtilegra að lesa greinar eftir Orra Pál Ormars um fótbolta heldur en að horfa fótbolta.

Verst 

Verst er að þurfa að hringja á viðgerðarþjónustu út af hitakúti og þurfa að gera það á útlensku.

Rolling Stones og Scorsese

Ekki líst mér á brotin sem ég hef séð úr ,,Shine a light", mynd Martins Scorsese um Rolling Stones. Mynd Scorsese um Dylan var frábær enda fjallaði hún um unga Dylan, svarthvíta Dylan, dásamlega Dylan - en ekki kántrímuldrandi nútímadylan. Rolling Stones fáum við að sjá á nýlegum tónleikum og á ég ekki von á öðru en að þeir eyðileggi flest lög sín með asnalegum útsetningum, undarlegum gestasöngkonum og svo framvegis. Í öllum fréttum sem ég hef lesið um útkomu myndarinnar er tekið fram að 16 eða 18 myndavélar hafi tekið herlegheitin upp. Yndislegt. Þótt myndin klikki getur maður kannski dáðst að flottum klippingum og kranaskotum. Ein besta tónleikamynd allra tíma er the last waltz með The Band. Þar er Scorsese að verki. Síðan eru liðin mörg ár.

 

Frægir Úrúgvæar

Ætli þeir séu margir? Ég fer stundum á kaffihús sem er við hliðina á æfingasvæði Atlético Madrid í Majadahonda. Í morgun sat ég yfir kaffi og blaði og að baki mér fer fram viðtal með tilheyrandi ljósmyndasmellum; hver kannast ekki við Úrúgvæan snjalla Diego Forlan?  Voðalega eru atvinnumenn í fótbolta annars orðnir barnalegir; spila playstation daginn út og inn og það bregst ekki að þeir eru með i-pod í eyrunum þegar þeir stíga niður úr félagsrútunum sínum. Svei mér ef ég sá ekki einn um daginn með sleikjó. Í gamla daga var allt betra, þá voru fótboltamenn tannlausir með feita barta. Sjáiði aumingjans Beckam á brókinni í einhverri auglýsingu. Andskotinn.

 

Evrópukeppnin í fótbolta

fer fram í Sviss og Austurríki nú í sumar. Nokkuð ljóst að Torres og Ronaldo verða eins og sprungnar blöðrur.

Ræktin

Mæli með færslu Stefáns Þórs um veskisstuld. Reiðir pennar eru góðir pennar. Og rauðir jafnvel líka.

Góða helgi 

Þið sem ætlið í Alþýðuhúsið, H-100 eða Sjallann, gleymið ekki nafnskírteinunum.  

 


Skerið sokkið en Akureyri blífur

Basti og coHeiðdís og Hildurunnur og kallá sjókakaSjóræningi inn að beiniKafteinn Krókur

Ágætu lesendur,

 

fyrst ber að segja að blogg þetta verður framvegis með öðru sniði. Meiningin er að taka upp vikublaðahátt; þ.e. að birta fréttir vikunnar, til dæmis á mánudögum, segjum það til að byrja með.

Nú er föstudagur og best að skrásetja atburði páskavikunnar áður en þeir rykfalla í minninu.

1. dagur

Það er margt meira spennandi en að flytja svokölluð börn milli landa og flengjast um í leigubílum, flugvélum og öðrum farartækjum dægurlangt. Flugvélar eru sérlega hvimleið fyrirbæri og fyrir utan að vera stórhættulegar þá er hávaðinn það sem pirrar mig mest. Nú eru flest flugfélög hætt að gleðja mann með dýrindis matarbökkum álfóðruðum og lítil gleði sem felst í samloku á fjórar evrur, bjór á eitthvað svipað og pringles á uppsprengdu. Helst vildi ég mæta með kaffi á brúsa og heimasmurt með kæfu en efa að það væri vel séð í öryggishliðinu. Hanna hefur allavega verið gómuð með allskyns krem sem eigi fljóta; kæfa væri konfiskeruð á staðnum. Sem sagt: föstudaginn 14. mars flaug ég ásamt krökkunum (Hanna var farin á undan í vinnuerindagjörðum) til Kaupmannahafnar. Kastrup er hinn sæmilegasti staður og þar má finna frábæra aðstöðu fyrir börn. Það er ávísun á geðstífni að labba með börn innanum toblerónturna, viskítilboð og mogm-dót. Miklu betra að spila fússball og leika sér í legó. Ég vil þakka Kastrúpfólki fyrir þetta og eins að mýkja fyrir mig okursjokkið sem ég átti von á á Íslandi. Á Kastrúp kunna menn jú að okra. Lítil kók á 3 evrur og 41 sent. Geri aðrir betur.  

Flugið til Íslands var tíðindalaust en börnunum þótti merkilegt að heyra alla þessa íslensku í kringum sig, verandi vön norðlensku á heimilinu.

Hanna sótti okkur á völlinn og keyrði með hópinn í Skipasund þar sem góðvinir okkar Sebastian og Kristbjörg búa ásamt börnum sínum Emil og Kötlu. Það vildi svo skemmtilega til að á heimili þeirra var einmitt verið að taka upp nýjan þátt í þáttaröðinni ,,Allt í drasli"... Kidda og Basti eru gott fólk. Basti á það sammerkt með mörgum mínum vinum að vera stóískur djöfull hið ytra en alræmdur keppnismaður hið innra. Basti, Guðjón og Andri eru ljúfir heimilisfeður sem flissa þegar börnin drulla á gólfið eða ýta á break-takkann á tölvunni svo skáldsagan hverfur, færa konunni froðukaffi í rúmið,  mæta sem sagt ágjöf með yfirveguðum svip Guðmundar Kjærnested. Ég er ekki svona. Ég er vondur. En allir eiga þeir það sammerkt að brjálast í íþróttum. Guðjón hef ég séð skriðtækla saklaus ungmenni í innanhúsbolta og ögra mönnum í körfubolta sem eru helmingi stærri en hann. Basti hleypur maraþon og eltir litla sentera upp miðjuna með öxi á lofti. Andri var kallaður plógurinn í boltanum. Enginn stoppar plóg á fullri ferð.  

Já, mikið var gaman að sjá Kiddu og Basta. Þau eru nýflutt frá Þýskalandi. Kidda vann hjá Össuri í Eindhoven og svo mikið þótti henni til Hollands og Hollendinga koma að hún eyddi 4 tímum í bíl í og úr vinnu á hverjum degi. Eitthvað þótti mér Kidda beygð að þurfa að skilja við Holland, eða eins og hún segir sjálf: ,,Ekkert toppar kaffið og samlokurnar í Eindhoven". Reyndar skilst mér að Kidda hafi sótt um starf almannatengslafulltrúa hjá Húsi Önnu Frank, en klúðraði viðtalinu með því að flauta þýska þjóðsönginn í ógáti.

2. dagur

Laugardagur 15. mars. Ég sótti Teitsson í Drápuhlíðinni heim og við gengum okkur niður í Sundhöll Reykjavíkur sem er einhver albesti skemmtistaður borgarinnar. Því miður náðum við lítið að synda vegna þess að gusgus var að taka upp myndband á dýpinu. En pottarnir eru góðir og útsýnið yfir rústirnar af Oz hressandi. Í framhaldi af þessu fórum við á kaffihús, drukkum kaffi. Síðan var Teitsson sóttur. Gaman að hitta Teitsson. Glæsilegur maður á velli og leitun að öðrum eins andans manni; þar kemur maður hvorki að tómum kofanum í American Psycho eða Nancy-bókunum.

Næsta klukkutímann drap ég tímann í bókabúðum og skoðaði nýjustu skyrturnar í Dressmann. Annað stefnumót framundan við annan Magnús og ekki síðri; H. Karlsson. Við Magnús eigum okkur langa sögu; vorum saman í Lundarskóla (þó ekki sambekkis) og á skíðum. Hins vegar féllum við ekki í ást fyrr en seint í menntaskóla; líklega ekki fyrr en undir enskum morgunverðum á Torremolinos. Við Magnús tókum einu lestina sem til er í landinu; sushi-lestina við Lækjargötu og héldum til Kyoto til að sjá Kyoto-bókunina með eigin augum. Sushi er góður matur og léttir lundina, nokkuð sem lund gerir ekki. Magnús skutlaði mér síðan á Vellina í Hafnarfirði þar sem fyrir lá heimsókn til Steina risa og fjölskyldunnar kanadísku.

Á Vellina mættu líka Auður Hönnusystir og Indriði hennar kall og Úlfur þeirra nýfæddi. Síðan var lamb étið og drukkið Canada Dry.

Seinna um kvöldið ætluðum við Basti og Maggi K. á bíó. Það var ekki fallegt. Við Basti vildum fara á stríðsmynd en Maggi á sætsúpuna Juno. Maggi fékk að ráða því hann átti bílinn. Mér leið illa í bíó; að láta sjá sig á svona vitleysu. Meðan Hanna og Kidda gröðguðu í sig harðfiski og sögðu karlafarssögur undir vodkasnöfsum í Skipasundinu, grenjuðum við yfir ljúfsárri vellu um ótímabæra þungun unglingsstelpu í Kringlubíói. Fuss. 

3. dagur

Litum í morgunkaffi til Andra og Möggu. Þar voru ótal sortir á borðum enda annar í skírn á þeim bænum. Þetta fólk í vogunum og sundunum sem maður þekkir er eitt af því fáa sem maður saknar frá rvk. Andri kallaði í fyrrum nágranna okkur úr Glaðheimunum þau Steffan og Kristínu. Mikil gleði - mikið grín. Ég hegðaði mér illa og lagðist í sortir.

Síðan var lagt í hann Akureyris til. Ferðalag þetta fer skánandi og styttist óðum. Nú er búið að stytta hér og laga þar. Það er mjög stutt eftir. En þetta er leiðindaleið en kunnugleg. 

Akureyri, halló Akureyri. Moldhaugaháls að baki og við blasir þetta skásta við Ísland og kannski það eina sem blífur. Nonni, Davíð, KA, Ingimar Eydal, Baraflokkurinn, Amaro, Linda, Bragi, Sana. Ég kom við í Kaupfélaginu við Ránargötu og keypti sanasól og júgursmyrsl. Allur er varinn góður.

Nú, fjölskyldan kysst í Jörvabyggð og fyrsta sýn á litlu Anítufrænku Gunnhjartardóttur. Hún er ansi sæt. Og síðan var sætt lítið lamb etið. Gott var það. Gott á það.

4. dagur

 Kreppan er víst komin og fer víða. Um daginn fréttist af henni á Þórunnarstræti á fleygi ferð, síðan beygði hún vestur Hamarstíginn. Á mótum Hamarstígs og Mýrarvegar tvísté hún um stund. Vinstri eða hægri? Vinstri var það og Heiddis og Arnarjóns sluppu í þetta sinn. Já, það var enginn kreppubragur á lummunum hennar Heiddisar. Og haldiði ekki að boðið hafi verið upp á alvöru kaffi: ,,Jáh, kaffibætirinn hefur engan áhuga á svo fínum gestum" sagði Heiddis. Já, lummurnar. Engar rúsínulufsur þar, nei dýrindis arabískt súkkulað og hvítasykur í tonnavís. Ja, hérna hér. Aftur lagðist ég í sortir. Var hent út.

 Æsustaðir. Eyjafjarðarsveitin er æði. Rauðir víkingar, ket og smér, þetta líkar mér.  Krakkarnir bjuggu til snjókall og léku við hundana. Tobbi er enn í fjöri. Einhvern tíma sagði ég í hálfkæringi við Smára bónda: ,,Já, kannski maður gerist nú bara bóndi og taki við þessu eftir þinn dag." Þetta var sagt í hálfkæringi en Smári túlkaði þetta sem absúrd brandara og þurfti að styðja sig við girðingarstaur svo aðframkominn var hann af hlátri. Ég væri reyndar til í að búa í sveitinni svona hálft árið; íslenskir vetur eru orðnir svo óáreiðanlegir að maður veit aldrei hvar maður hefur þá. Spurning um að taka Laxnesinn á þetta; Gljúfrasteinn (Æsustaðir) á virkum dögum, Fálkagata (tja: kannski Tjarnarlundur), um helgar og janúar og febrúar. Jú, og eitthvað í útlöndum líka. Við gistum síðan í kofanum sem svo er kallaður og seisei já.

 5. dagur

Bragi sá okkur fyrir Bragakaffi og brauði með hangikéti í morgunmat. Ef brjóstsviðinn drepur þig ekki þá styrkir hann þig. Meiningin er að dveljast mange dager í kofanum í sumar og hjálpa til við bústörfin...

Byggðaveggs-hyzkið Guðjón og Brynhildur og gaurarnir þeirra voru næst á lista. Þar fær maður gott að éta og sjaldan sem grænmeti er skorið við nögl á þeim bænum... Kreppan er heldur ekki skollin á þar því boðið var upp á pönnukökur ósykraðar með allskyns mat innaní. Þetta var gott en ansi eitthvað framandlegt að brúka pönnukökur með þessum hætti. Ég þakkaði samt fyrir mig.  

6. dagur

Man ekki alveg fyrripart dagsins. En um kaffileytið er ég allavega staddur hjá Dóru og Begga í Byggðavegi; krakkarnir uppi á klöpp að leika og við Dóra bergjandi á sérrí ræðandi jóga, tai-chí og útsaum. Hanna og krakkarnir lögðust síðan upp á þessa góðu fjölskyldu á meðan ég fór í fimmtugsafmæli til Axels Hönnugunnumanns; búðar-, neta-, og sjómanns. Hafi ég ekki verið kominn til Íslands fram að þessu gerðist það þetta kvöld. Útlendingar eru svona og svona þegar kemur að skemmtunum. Við Hanna vorum eitt sinn viðstödd breskt brúðkaup í Lúx. Sem var sosum ágætt. Vel veitt og allt það -en það vantaði allan kúltur; engar ræður, engar vísur - bara ferðadiskó. Þegar íslenskir taka sig til er best að passa sig. Ég skrifa ekki undir allt sem fer fram í íslenskum veislum og ættarmótum, en tek samt hatt minn ofan. Í afmælinu hans Axels mætt nefna eftirfarandi hápunkta: ósvífinn veislustjóri sem lagði afmælisbörnin (tvíburar) í einelti, endalausar áskoranir nú um að éta og drekka almennilega (dálítið eins og Rokkað í Vittula), partur úr karlakór að syngja ættjarðarlög, systir mín að syngja bítlalög, Heiðbjört að syngja ,,á íslensku má alltaf finna svar..." a capella. Opinn bar og allar sortir. Birkir með vísnabálk, maður sem sagði klámbrandara í hálftíma o.s.frv. já, Íslendingar eru skemmtilegir í (svona) hófi.

Ég stakk af fyrir rest enda ekki skemmtanaþolinn. Mælti mér mót við Unnar frá Grýtubakka; stærfræðing og fjölfræðing. Við sátum um stund á Karólínu og spölluðum við gamla nemendur. Karólína stendur fyrir sínu en vel mætti koma einhverju lagi á efri hæðina sem aldrei hefur virkað sem íverustaður. Unnar er með vandaðri mönnum sem ég þekki. Framsækinn vísindamaður en að sama skapi með báða fætur á jörð Ungmennafélags Borgarfjarðar. Lítill fugl hvíslaði að mér að hann hafi eitt sinn sótt um starf yfirmanns í grilli í Hyrnunni í Borgarnesi en ummæli hans um að breyta grillinu í grænan stað hafi fallið í grýttan jarðveg. Annars eru Borgnesingar góðir menn, til dæmis Birgir Örn og Orri. Borgarnespizzur þóttu nú heldur ekkert slor í eina tið.

 7. dagur

Stóri dagurinn. Grímur hafði átt afmæli á Spáni 9. mars og nú var taka tvö á Íslandi. Gömlum félögum af leikskólanum boðið heim og allir uppáklæddir sem sjóræningjar. Amma hans sá um veislustjórn og vantaði ekkert upp á sortirnar og myndarskapinn á þeim bænum. Á vissum tímapunkti voru sjóræningjarnir sendir inn í bílskúr með sverð sín og króka. Saklausir borgarar sátu á meðan í leðri og drukku kaffi.

Endalaus gleði. Um kvöldið tók við matarboð hjá Heiddisi og Arnarijóns. Nú var kreppan hinsvegar komin í Mýrarveginn. Sjálfdauð gæs og hrár fiskur á borðum. Kreppan kristallaðist í skemmtan barnanna þetta kvöldið; þau horfðu á ævaforna íslenska bíómynd sem heitir að mér skilst: ,,Stella í orlofi". Ég þakkaði samt fyrir mig og fór heim með þreytta krakka. Hanna dvaldist lengur og drakk gambra með húsráðendum og ræddi gengi krónunnar, gengi KA, gengi Jóns Arnars og gengi landsliðsins.

8. dagur

Föstudagurinn langi.  ,,If Jesus had been killed twenty years ago. Catholic school children would be wearing little electric chairs around their necks instead of crosses" (Lenny Bruce)

Fjölskyldan hélt upp í fjall en enginn nennti að fara á skíði sökum traffíkur. En það var fínt að skrölta þarna með þotu og vinna í brúnkunni.  

Nú var kannski komið að hápunkti ferðarinnar. Fótbolti undirritaðs með gömlu skúrkunum í KA-heimilinu. Hvernig kæmi ég undan sumri? Betri, verri? Búinn að tileinka mér spænskan leikaraskap? Ég hafði hins vegar engu gleymt (en ekkert nýtt lært sosem). Þetta var eins og að koma heim; maður sat undir skömmum frá Eggerti, skaut í hausinn á Nafna Valsteins og klúðraði dauðafærum í massavís. Sem sagt gott.

Nú var komið að því sem ég hafði mest óttast. Linsubaunasúpa hjá Guðjóni. Tækist mér að halda henni niðri? Mér fannst hún ekki vera að virka fyrst, en gaf henni séns. Svo á fimmta diski var hún orðin fín. Magnað var að sjá í fyrsta skipti almennilega framan í gamla kunningja; Maríu Helenu og hennar fólk og Ernu og hennar lið.

9. dagur

Nú er ég hættur að muna - allavega var eitthvað étið.

10. dagur

Nú færi þessu að ljúka. Haldið suður. Páskamatur hjá Steina og Drífu í Hafnarfirði. Sofið smá og vaknað til íslenskrar grámyglu og Reykjanessbrautar og Leifsstöðvar og fríhafnar og kaffis og Þórunn leikkona og björgunarvesti og eggjakaka og meira kaffi og Kastrúp og Barajas-flugvöllur í Madríd og reynt að spjalla við spænskan leigubílstjóra sem kunni ekki á kúplinguna og umferðarteppa og jú Real Madrid tapaði í gær, en hann væri meira fyrir nautin og helvítis páskahretið...

Að lokum

Ekki má gleyma öllu hinu sjálfsagða sem er ekki svo sjálfsagt. Sund á hverjum degi og ekki bara pottar, heyrirðu það, Ásgrímur? Stjan í Jörvabyggð. Skrambi gott kaffi hjá systur í Snægili. Viskitár hjá Billa og Dísu. Heimsókn til Valdimars á Rein ásamt Gunnjóni.  Ekki má gleyma Örra frænda sem alltaf hefur tíma til að leika. Árna bróður sá ég lítið, það er líklega ár í að hann gefist upp á tölvunni  og fari aftur að þora í skrafl. Sæt, lítil frænka en því miður langt í að fari að grænka.


Námsmatur

Áðan fengu krakkarnir vitnisburð í skólanum, ágætan mjög, og eru mun upplitsdjarfari en fyrir 8 mánuðum þegar þau voru að byrja að fóta sig á spánskri grundu. Í morgun sagði Grímur meira að segja: ,,Ég vil fara í skólann" sem eru hressilegri orð heldur en ,,Ég vil EKKI fara í skólann". Ein ástæðan er líklega sú að hann er hættur í fótbolta sem virðist hafa verið heldur stór pakki fyrir drenginn. Samkvæmt hans frásögn lá hann undir eilífum spörkum og níðingsskap á æfingum, en við erum reyndar á þvi að hann hafi misskilið fyrirbærið fótbolta, sem er einmitt eilíf spörk og níðingsskapur - spyrjið bara Roy Keane.

Nú er stund milli stríða en næsta haust skulu þau sko fá að sýna metnað og dugnað: hvort sem það heitir tónlistarskóli, júdó, sund, bóndabeygja eða hvað - þá verða þau neydd í það.  ,,Í Róm skaltu borða rjómaís eins og Rómverjar" segir máltækið og það neyðumst við til að gera. Krakkarnir verða í stífri dagskrá alla daga og fá bara að fara út um helgar. En aldrei skal ég borða kvöldmat klukkan tíu. Talandi um kvöldmat. Einu sinni sem oftar buðu Guðjón og Brynhildur okkur í mat. Ég þoli ekki að bíða eftir mat. Þegar við mættum á staðinn beið okkar ekki ilmur af keti og speki. Nei. Bara blóðilmur í bland við blaðsalat. Guðjón hafði skorið sig við að skera grænmeti. Ég reyndi að sýna samúð en vorkenndi mér í raun meira en honum. Af hverju var hann ekki komin lengra í matargerðinni? Móðursýki kvennanna þriggja varð til þess að ákveðið var að Guðjón skyldi fara á slysadeild - allur er varinn góður blah blah. Ég keyrði hann. Hvenær fengi ég að borða? Á slysadeild var löng röð og Guðjón var með lítinn skurð. Að mínu mati var þetta of löng röð fyrir svo lítinn skurð og ég sagði Guðjóni það. Hann kinkaði kolli hnugginn. Ég keyrði hann aftur heim, setti á hann plástur og sagði honum að hypja sig aftur inn í eldhús. Mér varð ekki meint af, fékk eitthvað gott að borða. Mér finnst Guðjón vera miklu skemmtilegri heim að sækja núna; stundum kemur maður beint í matinn - svona næstum því.

 

(líklegast mun ég ekki nenna að blogga í páskafríinu - góðar stundir) 


Grímur afmælispáfi

Nú er hátíðahöldum lokið - gestir farnir heim og Grímur liggur úrvinda og horfir á sjónvarpið.  Hér eru nokkrar myndirGrimupp kantinnblásnían


Senjor Grímúr

Hann á afmæli á sunnudag - 9.mars. Þá verður hann fimm ára.

Hann fékk martröð í fyrrinótt og kallaði upp yfir sig: ,,Ekki kaupa hráskinku!".

Hins vegar er hann á góðri leið með að verða smekkmaður eins og systir hans, er hrifinn af gráðosti, geitarosti, ólífum, mangó, papaya og um daginn gaf hann sushi séns og þótti það ekki svo galið.

Við lásum Transformers-bókina í gær. Um þá félaga Optimus Prime, Bumble-bee og vondu kallana sem kallast Megatrons. Optimus Prime er með 5 í kraft og vegur yfir 8 tonn. Ef þið hafið ekki séð myndina skuluð þið drífa í þvi. Stuð fyrir alla fjölskylduna.

Senjor Grímúr er að hugsa um að hætta í fótbolta. Honum finnst of mikið um stimpingar. Upp á síðkastið höfum við verið að leika okkur í paddel-tennis og það á vel við hann. Reyndar stekkur hann stundum upp á nef sér þegar pabbi hans ,,þrusar" eins og hann segir.

Við skruppum í ikea í gær og átum kjötbollur - ég flúði síðan út í bíl og las blaðið á meðan Hanna labbaði einn hring. Grímúr fékk að fara í langþráð boltaland en Unnur fékk rauða spjaldið fyrir að vera 5 cm of há.

Vinnufélagi Hönnu gaf Grími 7 Ferrari-bíla um daginn. Þeir eru reyndar litlir en samt flottir.

 Senjor Grímúr. 


Fótboltastrákar

Ég kunni því illa að sjá Leo Messi gráta þegar hann meiddi sig í leiknum í gær. Gordon Strachan fór aldrei að gráta þegar hann var leikmaður - jú- reyndar einu sinni; það var þegar hann leit í spegil og fattaði að hann var alveg eins og Dustin Hoffmann, bara með rautt hár. Í hálfleik varð mér hugsað um hálfleiki. Sum lið setjast niður og drekka te og borða appelsínur, þetta sá maður með eigin augum kíkjandi inn í búningsklefann á Akureyrarvelli. Hvaða leikmaður var það aftur sem stalst inn á einkaklósett dómarans og skildi þar eftir einn 5-pundara; var það kannski vinur minn Robbie Savage? Nú um daginn barst frétt um það að í landsleik Ísraelsmanna og einhverra hafi einn Ísraelsmaðurinn sleppt því að hlusta á peppræðu þjálfarans í hálfleik og kosið fremur að gamna sér með kvenmanni einum í einhverju skúmaskotinu. Hálfleikir. Eiður kemur sjaldan inn á í hálfleik - oft á 60. mínútu, stundum á þeirri 70. og í gær á þeirri 80. Eiður var með fallegasta móti í gær og ég er nokkurn veginn viss um að hann á eftir að skora úrslitamarkið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Ég trúi ekki öðru en Ríkharður hinn blautgélaði af Hollandi muni reka Messi fyrir grenjuskapinn og hampa Eiði ógrátandi. Mér þótti dálítið vænt um að þulurinn í gær skyldi sjá fegurðina í því að Grikki og Íslendingur væru að kljást um boltann á Camp Nou í gær.

Það er falleg mynd á vefsíðu Sverris Páls í dag. Þar fremstur í flokki er Finnur Friðriksson stórvinur minn og stórhlaupari, næsti Jón hlaupari segja sumir - þarnæsti forseti segi ég.  Síðan má sjá dr. Pálma sem gabbar fólk með stóísku skapi en er lúmskari en Lampard þegar inn á völlinn er komið. Síðan er það Pétur Maac sem er einn af fáum mönnum sem hefur látið það eftir sér að hjóla í mig fyrir að vera lélegur í fótbolta. Ég var á milli gleraugna og sá ekkert og klikkaði tvisvar á því að gefa á Pét sem var dauðafrír. Pétur sem er allstilltur maður gat samt ekki stillt sig og hjólaði í mig titrandi af uppsafnaðrii geðshræringu með hnefann á lofti. Þess má geta að Pétur er sálkönnuður. Þar sem ég er maður pervisinn og frekar hallur undir tungu en sverð, þá sagði ég þetta við Pétur: ,,Blessaður af hverju leggstu ekki á sófann hjá sjálfum þér." Þetta þótti mér gott svar hjá mér. En Pétur er all-vandaður maður og lipur með knöttinn. Hann og Eggert júdóbróðir eiga það sameiginlegt að vera mun betri á alvöru grasi heldur en innandyra. Annars er Kalli stóri alltaf bestur þótt honum sé stundum illt í löppinni sinni.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband