1.3.2008 | 20:12
Skíðaspánn
Ég þótti sérlega efnilegur skíðamaður en hætti á toppnum 12 ára gamall: ástæðan? Ég varð alltaf bílveikur á leið með rútunni upp í fjall. Þannig að ég kaus frekar að ganga niður í Skemmu á handboltaæfingar. En skíðaárin voru góð ár og verðlaunapeningarnir gleðja mig enn (hvar eru þeir aftur?). Ég var alltaf þriðji, Sævar Guðm. kvikmyndagerðarmaður var alltaf annar og Maggi Karls var alltaf fyrstur - nema einu sinni - þá datt Maggi og Sævar vann og ég fékk langþráð silfur.
Ég bregð mér ekki oft á skíði en er alltaf svag fyrir snjónum. Við vorum einmitt að koma úr skíðaferð sem var öll hin ágætasta, nema að það vantaði snjó. Jú, það var snjór, en bara svona latur vordrullusnjór.
Svæðið heitir El Formigal og er í spænsku Pýraneafjöllunum. Sex tíma keyrsla frá Madríd. Prýðilegt svæði. Við bjuggum á hótel Saliecho og þeir fá hin ýmsustu prik; til dæmis eru þeir með sundlaug sem er meira að segja hálf úti og þegar við komum í hlaðið seint á miðvikudagskvöldið beið hótelstjórinn með risabakka af allskyns ostum og skinkum og brauðum og gúmmelöðum. Blessann.
Við vorum í slagtogi með sænskættuðum vinum okkar þeim Björgu Birgisdóttir Borg úr Norðurbyggð og hennar hálf-ektamanni, Bo Borg, en hann og Björn Borg eru kviðmágar.
Skíðaferðir eru góðar ferðir að jafnaði; maður vaknar klukkan átta og étur beikon, brauð, vínarbrauð, osta og beikon og egg og beikon. Síðan fjall til fjögur - síðan sund og gufa - síðan fataskipti - öl á barnum matur klukkan áttta - sofa klukkan tíu. Rutmi sem þessi á vel við okkur Svíana (Moi, Bo og Björn Vigfússon, sem þó var fjarri góðu gamni). Næst langar mig að fara til Örra bróður í Sviss og dvelja í bjálkakofa í heila viku og borða kássu og drekka Stroh. Hótelvistir ganga á sjóði og það særir nískukennd vora. (Hanna er reyndar örlát - ég sé um nískuna og leiðindin).
Hugleiðsla er góð, flugleiðsla er betri, en það er það ástand sem grípur mann á skíðum.
Ég er brúnn, Hanna er með 50 freknur, Grímur er með 30 freknur og Unnur er pínu brún.
Já, synd var það að snjóinn skyldi vanta. Þið Hlíðfellingar eigið gott og Hlíðarfjall stendur alltaf fyrir sínu. Þó ég hafi farið upp á nokkrar aðrar er Hlíðin alltaf best.
Björg datt.
Bo pantaði Irish coffee á barnum á skíðasvæðinu en barþjónninn kom af fjöllum og henti í hann þerveþa.
Krakkarnir breyttust í skrýmsli í bílnum á leiðinni heim fyrr í dag. Smá ljósglæta var þó söngvakeppni milli systkindanna, þar sem Unnur söng ,,Hvar ertu nú?" og umbreyttist í djöfulraddaðan Proppé um stundarsakir. Grímur tók lagið um Marco sem er mjög ,,suave" og minnti á tannbrotinn Bo Hall í raddbeitingu og sjarma.
Nú eru börnin að horfa á stórmyndina Kirikou. Ég er að drekka te. Ég er nýrakaður. það er gott. Ég á vin sem kann ekki að raka sig. Hann fór til læknis sem kenndi honum að raka sig svo hann fengi ekki útbrot. Björn Vigfússon rakar sig oft á dag - ég vona að hann sé rafmagnsmaður - blautrakstur er skelfilegur - hann gengur svo nærri manni og skilur eftir vonda tilfinningu. Maggi Karls tók sjálfan sig eitt sinn á andlegu ipponi í einhverri próftíðinni. Til að neyða sjálfan sig til að dvelja dægrin löng einsamall inni á herbergi yfir Stæ 603 tók hann til þess bragðs að raka sig vel og vandlega um andlitið en skilja hálsinn eftir og framundir höku (dálítið eins og Jón Sigurðs og félagar hans). Þá bara þá var Mo shark ljótur.
Á morgun er spáð 19 stiga hita, líka á mándag. Kannski ég safni brúnku á líkamann svo hann rími við hausinn.
Nú fer að líða að Íslandsför; eftir tæpar tvær vikur verðum við á Akureyri. Ef þið viljið sjá okkur þá verðum við í laugunum. Eins hef ég hugsað mér að borða svið á Æsustöðum og vonandi sushi hjá Arnheiði Smárjóns. Ef Helena Eyjólfs væri með sjóv færi ég (ef það hæfist klukkan átta).
Það er laugardagskvöld - stuðið að byrja; grænt te og heill klukkutími þangað til ég fer að sofa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.2.2008 | 09:42
Er skerið að sökkva?
Fyrir tæpum tíu árum snérum við heim frá Luxembúrg. Þá var sko uppgangur. Framsóknarflokkurinn bauð öllum lán sem vildu og húsnæðisverð fór á flug. Ég keypti íbúð á kortéri í Reykjavík; ef ég hefði ekki stokkið hefði einhver annar gert það. Og það var gaman að lifa; dinnerar og kokteilar og bjartsýni. Maður rakst á fólk sem eldaði ekki mat það borðaði alltaf á veitingahúsum. Og það var stuð.
Það má ekki skreppa aðeins frá og þá fer allt fjandans til. Mér skilst að vextir á húsnæðislánum nemi 6,35 prósentum og verðbólgan á siglingu. Frekar kaupi ég mér 40 fm blokkaríbúð í Tjarnalundi en að gerast 40 ára áskrifandi að skuldasúpu.
Mikið var HKL framsýnn þegar hann reit Sjálfstætt fólk. Hversu sjálfstæður er maður sem þarf að standa í skilum við lánadrottna af húsinu sem hann þykist eiga? Hver á hvern?
En nú er búið að kalla á Máa til að taka til hendinni. Hann er mættur niður í móttöku með blóðgunarhnífinn á lofti. Lifi ráðdeildin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2008 | 11:12
Þögnin rofin
Nú er andleysinu vonandi lokið og framundan tímar innblásturs og andlegra aflrauna. Ég lagðist í reyfara í nokkra daga mér til mikillar skemmtunar. Harðskafi er hressandi skáldsaga um þekktan spæjara sem kallar ekki allt ömmu sína. Okkur Spánverjunum þykja svona bækur skemmtilegar; þær eru svo íslenskar; hangikjöt, Þingvellir, BSÍ, miðlar o.s. frv. Hörkustuð. Hin bókin: Dauði trúðsins, var ekki sem verst. Hefði mátt tóna niður bullið hér og þar en fín saga og frábær kynning á Akureyri...
Örri bróðir sendi á mig gamla frétt (ætli þetta hafi ekki verið að ganga á Íslandi) úr Degi. Fyrirsögnin fræga: ,,Negri í Þistilfirði". Ég vissi af þessari frétt en hélt satt að segja að hún væri mun eldri. Hún er frá 1977. Ég sakna Dags. Maður gat átt von á því að birtast þar. Einu sinni var ég í spurningu dagsins. Gestur Einar kom í skólagarðana og spurði að mig minnir til hvaða landa við vildum ferðast. Ég nefndi Frakkland. Einu sinni sást glitta í mig í einhverju hlaupi í gegnum lokkinn á Jóni hlaupara. Nú birtist maður aldrei í neinum blöðum; kannski fer það að breytast..muhahaa.
Ég hefði viljað sjá Þursaflokkinn spila. The Cure verður með tónleika hér á næstu vikum. Spurning um að stela varalit frá Hönnu og skella sér. Vælukjóarnir í Mars Volta troða upp einhvern tímann á næstunni. Setjið mig í klefa ásamt þeim og Muse og ég mundi rassskella fram karlmennskuna í þeim. (sendið Sigur Rós líka inn).
Fjölskyldan horfði á Laugardagslögin. Það var gaman. Lagið sem vann versnaði um 25 prósent við snörunina yfir á ensku. Veit ekki af hverju. Lagið hans dr.gunna var ágætt en það vantaði fleiri hugmyndir í lagið til að gefa því vigt. Eins og flestir vita var dr.gunni driffjöðurinn í s/h draumi sem gaf meðal annars út hljómplötuna Goð. Það er góð plata. Ég veit ekki hvort hún er lengur fáanleg en fyrir ca. 10 árum kom út safndiskurinn ,,Allt heila klabbið" með mestöllu sem Draumurinn sendi frá sér á sínum tíma. Ég gaf einhverjum helvítis útlendingi diskinn í einhverju landkynningarbríarí í Köln og sakna hans nú (disksins). Þá var ekki búið að finna upp brunann.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.2.2008 | 16:06
Með óráði
Nú er kallinn hálf aumingjalegur. Lagstur í rúmið með hita. Ég skreið að tölvunni og mun skríða aftur í rúmið eftir kortér; þegar ég verð búinn með viskíið og kjúklingasoðið. Ég náði að koma orðum að líðan minni áðan: ímyndið ykkur sjórekinn hval, inni í hvalnum er kaldsveittur mannlingur í baðkeri fullu af ísmolum.
Spænskunámskeiði lauk á föstudegi, allavega í bili, ekki get ég sagt að ég hafi vanist þessum ferðalögum í og úr skóla. En þetta var ljómandi, maður er orðinn karamellufær. Spænskan víða í Suður-Ameríku er miklu skýrari en Spánarspænskan. Spænska ríkið er núbúið að opna vef www.cervantestv.es þar er viðtal við perúska rithöfundinn Mario Vargas Llosa; ég held ég hafi skilið hvert einasta orð. Einn af dyravörðunum í blokkinni er frá Brasilíu; þvílíkt eðalmenni en ég skil svona annað hvert orð.
Hönnu finnst ekki seinna vænna en að kenna börnunum að dópa og drekka. Kvikmyndin Hárið var sett í tækið við töluvert góðar undirtektir. Í gær var það Moulin Rouge; absint-drykka og bóhemskapur. Nei. Verkfræði skal það verða.
Talandi um dóp; á heimasíðu dr. Gunna má finna lag með rapparanum Poetrix; þar sem hann fjallar um djamm og djús og fúlu hliðarnar á því. Vel gert og strákurinn er bara 22 ára.
Stuð - óstuð - stuð - óstuð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.2.2008 | 12:37
Nú verða sagðar fréttir
Ég fann kryddbrauð úti í búð - gæti verið úr Kristjáns.
Manuelo Rajoy sem vill verða forsætisráðherra vill að innflytjendur temji sér spænska siði; hér eru menn að velta fyrir sér hverjir þeir séu.
Zapatero hefur svipaða útgeislun og Mr. Burns og ég er viss um að handtak hans er þvalt.
Úti er besta veðrið: 10 gráður og skýjað.
Spánn er að þorna upp - vatnsbólin í lágmarki. Framundan þurrkasumar og skógareldar.
Ég sá myndina sem allir ausa lofi: ,,No country for old men". Það þótti mér vond mynd.
Nokkur dæmi um arabísk orð í spænsku: almohada:koddi, almacenar: geyma og síðast en ekki síst ojalá:vonandi (wa-sa' Allah: ef Allah lofar).
Spjallaði við enskan strák í frímó í málaskólanum, um tónlist og fleira: hann hafði aldrei heyrt talað um Frank Zappa. Hvað er eiginlega kennt í skólum í dag, hah? Ég hélt að Uncle Meat og Hot Rats væri 101-efni.
Hér fá enskir og bandarískir vinnu við að kenna ensku án þess að lyfta litlafingri og án þess að kunna nokkuð. Vesalings nemendurnir. Ég kenndi íslensku í Þýskalandi af því að ég var Íslendingur. Vesalings fólkið.
Kennarinn minn kann að kenna útlendingum spænsku; að kenna útlendingum t.d. íslensku krefst sérfræðimenntunar; slíkt hefur ekki verið í boði hingað til. Og á íslandi vantar góðar bækur; hér geta kennarar valið úr snilldarbókum og æfingum; þurfa ekki að búa til kennsluefni sjálfir eins og á Íslandinu góða.
Ég held að Íslandið góða yrði enn betra ef skólarnir byrjuðu klukkan níu á morgnana. Ég vaknaði klukkan átta í morgun; ég var þreyttur og svartsýnn. Klukkan 9.15 keyrði ég með krakkana í skólann og allir komnir í besta skap.
Kennarar þurfa að vera í stuði. Kennarar eru mjög sjaldan í stuði klukkan 8.15.
Ef ég réði byrjaði dagur menntskælingsins svona: klukkan 8 opnar kaffitería; grautur í boði og rist og kaffi; Monika Kvöldroði spilar á hörpu, birtan er mjúk, reykelsisilmur. Klukkan 9 byrjar ballið. Og fyrir okkur hina morgunhressu: klukkan sjö: sund og jafnvel kaffihús í framhaldi. Værettekki munur? Ég vil fá fisk í hádeginu alltaf nema á föstudögum. Ég vil leggja mig eða stunda hugleiðslu eftir matinn. Passið ykkur bara. Kannski mun ég einhvern tíma ráða.
,,Á Spáni er gott að djamma og djúsa" á eftir að prófa það. En loksins eru götufylleríin komin til Spánar. Botellón kallast þau. Mikið rætt um þetta núna.
Ef ég færi aftur að kenna á Íslandi, haldiði að það væri séns að semja við skólastjórann um að ég fengi að vera á Kanarí í desember og janúar og halda utanum kennsluna með Angel? Ekki svo galin hugmynd. (og byrja klukkan níu á morgnana).
Nú eru börnin komin með það mikið vit/óvit að við þurfum að fara að setja tölvureglur.
Grímur er byrjaður á línuskautum eins og Unnur og Hanna. Ég dreg bara lappirnar.
,,the creator has a master plan" Pharoah Sanders 32 mín - 45 sek.
,,Við heitum báðir Már", sagði Grímur í morgun á leið í skólann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.2.2008 | 18:54
Málaskólanám II
Nú er langt liðið á aðra viku í málaskólanum AIL. Ég veit ekki hvort ég er eitthvað betri í spænsku (modestia falsa...) en lærin eru orðin eins og upphandleggirnir á Jóni Má eftir hjólreiðar miklar til og frá heimili voru.
Það er skrýtinn söfnuður sem sækir skólann; aðallega enskir og þýskir krakkar í einhvers konar millibilsástandi í háskólanámi. Menn tala sem sagt ensku og þýsku í frímó; ég get alveg sætt mig við það, en vorkenni hlutaðeigandi nokkuð. Stundum má móðurmálið bara bíða.
Kennarinn minn hefur enn ekki klikkað; hvert einasta skref er undirbúið og þótt hún vildi glöð bombardera okkur með málfræði leyfir hún okkur að bulla þegar sá gállinn er á okkur.
Ég held ég sé orðinn frekar leiðinlegur nemandi. Maður þarf alltaf að segja frá einhverju leiðinlegu: ,,...en á íslandi blah blah". No conoces Ný dönsk? Muy famoso. Su mejor disco está Deluxe.
Ég reyni að akta tvítugur og hress. Á morgun er bjórkvöld. Það byrjar klukkan tíu. Þá er ég sofnaður og Björn Vigfúss kominn í náttfötin (reyndar í öðru landi).
Þrír tímar í ferðalög á dag; það finnst mér ansi mikið. Þetta venst en er samt tímaeyðsla og bull.
Metró er sérkapítuli. Ég tek línu 6 sem er hringferð og á heimleiðinni troða einatt leiðinlegir tónlistarmenn upp í sjálfum vögnunum. Dæmi um tónleika: My way á panflautu með skemmtaraundirspili af bandi. Drengfífl með harmóníku: When the saints, oh when the saints....
Annars lesa menn mikið í metró og stunda lyftingar um leið; þ.e. menn dröslast með nýjasta ken follet sem vegur 1200 grömm. Einhvern tíma hefðu menn skammast sín fyrir að lesa reyfara in públik. Ég geng alltaf með Faust í reklam-hefti og hampa því þegar ég sé einhvern sem ég vil imponera. Verst hvað ég verð alltaf bílveikur þegar ég reyni að lesa á ferð.
Nú er ég að lesa hinn margfræga róman The Citadel á spænsku. Það er merkileg bók. Á yfirborðinu er hún sentímental kjaftæði en þar fyrir neðan er ansi glúrinn útekt á læknastéttinni og heilbrigðiskerfinu enska á 3-4. áratugnum. Þessi bók varð gríðarlega vinsæl og einhvers staðar las ég að hún hefði óbeint stuðlað að stofnun NHS í Bretlalandi. En gott er að lesa góðan róman hvort sem þú ert staddur í New York eða Óman.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.2.2008 | 09:03
Sönglag um Spán
Sönglag um Spán
Naut á hverju horni,
horn á hverju nauti (fleiri en eitt),
hárið jarpt til hliðar vatnsgreitt
en allt í rugli að morgni.
Ég er fallinn fyrir Spáni
eins og vaxtalausu láni
mér er illt í stóru tánni
vona að það skáni.
Hér brosa menn í metró (not)
caramelos þýðir gott.
bigote er hormott-
a og er feit ávísun á hylli kvenna.
Hér er mikið drukkið af vondu kaffi
fá eða engin orð byrja á tvöföldu vaffi;
nema kannski Wolvo
en það er önnur saga.
Flamenkó upp um alla veggi
tryllir einatt unga seggi
en hörkutól dansa ekki
sbr. Beggi (í Ömmu Dýrunni).
Hýran fer í gas og hita,
hóstasaft og tapas-bita
sniðugt er hárið að lita
ljóst það opnar dyr ýmsar.
Zapatero er skósmiður
og er það liður
i að skæða
væða
Spánverja.
Por qué no te callas?
spurði kóngurinn.
á ítölsku hann kallas-
t Giovanni að ég held.
Eiður Smári og Ronaldinho
fara oft saman í sturtu,
en það er ekkert skrýtið
það er þeirra vinna.
Puyol er oft rosalega
lengi að þurrka hárið
hinir verða við það
ansi hreint pirraðir.
Því stundum er svo kalt
og hreint ekki sniðugt
að fara út nóttina
með hárið svaka hélað.
það er ekkert grín
að vera atvinnumaður
en gott að skulda ekkert hjá LÍN
og vera dásamaður.
Ser eða estár, that is the question.
Ekki veit ég svarið
málfræðin all gone
aus, bei, mit, nach, seit, von...
Ekki meir að sinni
þetta nægir, Kolbeinn, sagði Tinni.
og fékk sér smók.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.1.2008 | 16:45
Málaskólaganga
Nú er annar dagur málaskólagöngu minnar lokið og fram að þessu hefur það verið ferðalagsins virði. Ég er í fimm manna bekk. Þrír skrópuðu í morgun og við vorum tvö auk prýðilegs kennara.
Ég er með skólafælni á háu stigi. Ef ég hef minnsta grun um að kennarinn í það og það skiptið sé ekki fullkominn fer ég burt í fússi - ef tímarnir eru ekki vel skipulagðir, skemmtilegir og á allan hátt frábærir, læt ég mig hverfa. Eins og allir tímar sem ég stóð fyrir hafi verið dásemdin ein.
Það er einkum tvennt sem málaskólakennarar þurfa að hafa; leikni til að plata nemendur til að kjafta og ímyndunarafl sem gerir þeim kleift að botna setningar hjá nemendum eins og mér sem vilja tala meira en þeir geta og vantar alltaf þetta eina orð.
Fram að þessu hefur þessi málaskóli staðið við það sem stóð á heimasíðunni og er það vel.
Reyndar finnst fólkinu aðeins of merkilegt að ég sé frá Íslandi; eitthvað er farið að fjúka yfir heimsfrægð Hófíar og Jóns Páls og í dag var ég spurður hvort við Íslendingar ættum ekki 100 orð yfir snjó. Það virðist vera stutt í snjóhúsin.
Að dálitlu öðru: öngvir skólar hér virðast byrja áður en klukkan slær níu og skóli Gríms og Unnar byrjar klukkan 9.30. Hvaða stress er þetta á Íslandi? Það liggur við að ég fari að berjast til metorða til að breyta þessu. Þið fróða fólk? Hefur þetta alltaf verið svona? Er tilgangurinn að herða menn á sama hátt og köld böð og hákarlsát? Ég held að þjóðfélagið myndi mildast til muna með mýkra upphafi á deginum.
Hér ríkir undarlegur hiti/kuldi. Þessa dagana vakna ég sjö; hjóla í úlpu og vettlingum út á stoppistöð - sný aftur 5 tímum siðar á bol, með sangría í hægri og sólhlíf í vinstri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.1.2008 | 22:36
Rod Stewart og Faces - og fleira
Eins og flestir vita hefur Rod Stewart lengi hvílt á sex fetunum.
Einu sinni var hann sex fet á hæð; farið inn á you tube - hendið inn ,,I'm losing you" og njótið 7 mínútna ferðalags með Rod og Faces. Sveimér þá ef manni langar ekki að detta í ða þegar maður heyrir svona schnilld.
Það er langt síðan ég hef farið á tónleika. Hér kemur bráðabirgðalisti yfir 10 bestu tónleika sem ég hef verið viðstaddur:
10. Lost í Borgarbíói í kringum 1988. Rafmögnuð stemning. Maður hélt að þetta væri upphafið að einhverju stóru.
9. U2. Dublin 1993. Frosti og Hjörvar og svona 40.000 í viðbót.
8. Flaming Lips og Suede í Laugardagshöll ca. 2001. Þarna voru Suede dánir en minningin um heilt sumar til sjós með fyrstu plötuna í eyrunum var sprelllifandi eins og nýdáinn þorskur.
7.Septett Jóels Páls á Grand Rokk ca. 2004. Við Maggi Teits á fremsta bekk. Frank Zappa sagði ,,Jazz is not dead, it just smells funny". Hann hafði rangt fyrir sér. Þarna ilmaði jazzinn af stáli, leðri og hlaupköllum. Sem sagt vel.
6. Megas og hljómsveit í Borgarleikhúsinu ca. 2002. Útgáfutónleikar v. Svanasöngs á leiði.
5. Óperan Salóme á sviði í Strassbourg. Hver sagði að óperur þyrftu að vera leiðinlegar?
4. gus gus í Stadtgarten í Köln 1997. Kölsch og danspartí.
3. Ham í kjallara Hamrahlíðar ca. 199?. Algleymi.
2. Birgitta Hauks í Smáralind ca. 2002. Með Unni á öxlunum syngjandi ,,Ég vil ekki vera svoNA".
1. Nick Cave á Broadway (hemm, Reykjavík) 2002 eða þrjú. Við Maggi T. neyddumst til að standa uppi við barinn á besta stað. Þess má geta að við Nick ásamt Ragga Bjarna og Julio Iglesias eigum sama afmælisdag. Takk.
Tónlistarmenn sem mig langar að sjá. Ef þið eruð með miða eða aðrar upplýsingar, hafið samband.
Bonnie Prince Billy.
Tom Waits.
Cult.
Abba.
Paolo Conte.
Helge Schneider.
Tónleikar sem ég fór ekki á sökum leti og er reiður sjálfur mér fyrir vikið.
Kris Kristofferson í Höllinni.
Battiato í Madrid.
Björk í Madrid.
Morrissey í Rvk.
Kraftwerk.
Belle and Sebastian.
Hvað segið þið? Bestu tónleikar?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)