Læsið heimasæturnar inni - kallinn kemur um páskana

sænska lúkkið

Hambolt II

Ekki átti ég von á að Íslendingum svona slapparalegum. Svo virðist sem handboltalandsliðið sé á sömu leið og fótboltalandsliðið; þetta eru upp til hópa prýðisdrengir, vel stilltir og vel þjálfaðir. En ef Íslendingar hætta að ganga berserksgang og fara að trúa því að við séum færri, verri og minni en aðrar þjóðir; þá getum við gleymt þessu.

Ég vil að við dælum fé  í handboltann. Ég vil að við skrásetjum alla risavaxna drengi og setjum þá í æfingabúðir í staðinn fyrir að láta þá vinna á kassa í Bónus og gefum þeim stál og hákal að éta og sýru til að drekka.  Þeir þurfa að æfa hryggspennu og bóndabeygju. Þeir munu eiga orðabækur; í bókum þeim er ekki að finna orð eins og ótti, hræðsla, kvíði. Orðabækurnar munu innihalda þessi þrjú orð: sigur, sigur, sigur.

 


Fór í bæinn - það tók allan daginn

Fjarlægðin gerir fjöllin blá og árin sem ég kenndi í MA fá á sig algleymisblæ. Að öllu því leiðinlega slepptu var þetta mjög skemmtilegur tími. Eitt stendur upp úr: Ég bjó í fjögurra mínútna fjarlægð frá skólanum. Það er passlegt. Þegar pakkasúpur voru í matinn fór ég einatt heim; spændi í mig afganga, drakk lútsterkt kaffi og fékk mér kríu. Sá hinn prýðilegi uppfræðari og mannvinur Björn Vigfússon bjó lengra frá skólanum en ég; örugglega í 10-15 mínútna fjarlægð, en aldrei snerti hann bíl heldur gekk í og úr vinnu og eins í hádegismat. Björn hefur líka alla tíð verið maður súrmetis og á göngu sinni heim í hádeginu mátti oft sjá súrmetisglampann í augunum, og það af töluverðu færi. Ef ungdómurinn fylgdi hans eftirdæmi væri minna um mjaðmafitu, sljótt augnaráð og skilningsdepurð. Ég get sagt það nú að Björn var fyrirmynd mín við Menntaskólann; Ég fór að raka mig þrisvar á dag eins og hann, sletta sænsku og latínu og strauja brot í gallabuxur þyljandi Passíusálmana. En já, ég bjó í fjögurra mínútna fjarlægð frá skólanum, 12 mínútur tók mig að ganga niður í bæ og 14 að ganga heim úr bænum. Nú er annað upp á teningnum. Ég tók þá afdrífaríku ákvörðun að skrá mig á spænskunámskeið niðri í bæ. Og í dag fór ég æfingaferð með skeiðklukku að vopni:

Fyrsti leggur: Hjólað á allmikilli ferð frá heimili voru og inn til Boadilla: 15 mín.

Annar leggur: Sporvagn frá Boadilla til Colonía Jardín: 25 mín.

Þriðji leggur: Metró númer 2 til Pío: 10 mín

Fjórði leggur: Metró númer 6 frá Pío til Manuel Becerra: 20 mín

Fimmti leggur: Ganga frá Becerra til málaskólans AIL: 5 mín.

Samtals: 75 mín.

Þetta finnst mér afar vont en ætla að láta mig hafa þetta næstu 3 vikur. Það skrýtna er að miðbær Madrídar er ekkert langt í burtu en við liggjum hálf illa við samgöngum.

Ég er góðu vanur og vil keyra sem minnst. Þegar ég heyri af fólki sem eyðir kannski fjórum tímum á dag í ferðalög milli heimilis og vinnu verð ég dapur. Og byrja að vorkenna. Bílar eru nefnilega verkfæri andskotans: í þokunni í morgun var hundrað-bíla-árekstur á veginum milli Madrídar og Toledo og það er stríðsástand á vegum úti; yfir þrjúþúsund manns deyja í umferðinni á Spáni á hverju ári. 

Útlönd eru þokkaleg en svo sem ekkert merkileg þegar manni leiðist hiti og er ónýtur til drykkju. 


Skrambans

Þegar ljóst var orðið síðla vors að stefnan yrði tekin á Spán en ekki Ítalíu fór ég að garfa í spænskum orðaforða mínum sem reyndar var afar fátæklegur. En eitt orð kunni ég og hafði hlakkaði til að nota. Í flugvélinni mátaði ég það í munni og á morgnana hreytti ég því í spegilinn. CARAMBA! En enn hef ég ekki heyrt það á götum úti. Hér heyrist bara JODER! (fokk). Sem er ljótt og leiðinlegt orð.

Annars hef ég ekk lent í miklum málfarslegum ævintýrum. Eflaust hef ég látið út úr mér vitleysuna klassísku sem mér skilst að allir útlendingar geri sig seka um á heitum sumardögum. Maður getur sagt ,,Leche caliente" (heit mjólk). En ,,soy caliente" þýðir ekki beint mér er heitt, heldur: ,,Ég er graður".

Hanna hins vegar eyddi öllum heimilispeningunum í lögfræðinga (abogados) fyrstu dagana, en aldrei fékk hún avókadóin (abacados) sem hún í raun vildi. Það var því frekar þrúgandi stemning í hádegismatnum; 3-5 spænskir lögfræðingar með 10.000 kall á tímann og þegar þögnin var hvað þykkust hefur maður eflaust sagt ,,soy caliente" til að brjóta ísinn.

Caramba! 

 


Svíagrýlan

 

Um undarlega atburði gærkvöldsins

Ekki lætur að sér hæða

Svíagrýlan.

Íslensk hjartasárin blæða

en sú mæða.

Þurfum við það eitthvað að ræða? 


Hambolt

Þann 31. janúar 2007 leit fyrsta bloggfærsla mín dagsins ljós. Þá gat ég heldur ekki orða bundist, slíkur var harmurinn. Ísland var nýbúið búið að kasta frá sér sigri gegn Dönum og ég grét innANímér.

Svona hljómaði þessi litla færsla:  ,,Í ljósi atburða gærdagsins er undirritaður hættur að fylgjast með íþróttum. Í framtíðinni mun ég einbeita mér að eigin ferli."

Nú glottir hún við mér flaskan uppi á skáp; rykfallin og hún veit að ég mun opna hana á morgun.

Ég mun falla og það með sæmd. 

 

Handbolti er líklega skemmtilegasta íþrótt í heimi að spila (ekki alltaf fyrir áhorfendur reyndar).

Af hverju? Jú, hann er að ég held eina íþróttin sem sameinar bolta og bardagalistir.  


Sitges - the only village in the gay

 

 Sönglag um Sitges

 

Ég er að hugsa um að flytja til Sitges

þar er velkomið mitt fés;

warts and all

and we're gonna have a ball.

Hjólin þar eru ekki með sæti

en strákarnir kunna sér ekki læti

og hjóla um vegi og stræti.

 

Ég er að hugsa um að flytja til Sitges

en varla fyrr en í des.

Ég ætla að vinna á bar

þar.

Síðan ligg ég á ströndinni

og læt áhyggur lönd og leið

ég míg þar sem ég ligg

út í sjó er leiðin greið.

 

Ég er að hugsa um að flytja til Sitges

ég er orðinn svo fjandi kres-

inn.

Þar sólin skín alla daga

börnin gulrætur naga

kuldasamfestingurinn hangir á snaga

sem þarf reyndar að laga.

 

Ég er að hugsa um að flytja til Sitges

og stunda þar hes-

tamennsku.

En fyrst þarf ég að læra þarlenda útlensku.

Kannski rekst ég á Eið

það verður ekki leið-

inlegt.

 

Ég er að hugsa um að yfirgefa Madríd

Og verða eins og Oliver Reed 

drekka kvölds og morgna

og mér við minningar orna.

Víst verð ég grátinn hér

en sama er mér.

 

Ég er að hugsa um að yfirgefa Madríd

og reykja með rastaförum víd.

Læra að leika á ukulele

og gróftækla Makalele.

 

Ísland er oh svo passé

og eitthvað svo gamaldags

já, svona eins og flís í rasse.

(Nú brennur minn passe).

 

Ég er að hugsa um að flytja til Sitges

og opna þar kokteil-bar.

I'm gonna be a star

adieu, au revoir, vi ses. 

 

 

 

 

 


Gróa þessi sár?

Viðbrögðin við nýja lúkkinu eru afar misjöfn. Menn sem ég taldi vini mína viðhafa stóryrði og glens, fjölskyldumeðlimir hreyta í mig fúkyrðum, fyrrum vinnufélagar benda og hlæja. Inn á milli er samt fólk sem kann að meta eittthvað annað en hinn músarbrúnaháralit íslenska. Um leið og ég er samþykktur hér er ég utangarðsmaður þar. En ég læt þetta ekki á mig fá. Hér er minn staður, mín stund. Ísland er so passé.

Integration

Lykillinn að hamingju á erlendri grundu er að laga sig að siðum innfæddra. Það þarf að læra tungumálið, tileinka sér nýja matarvenjur og síðast en ekki síst að fínisera eitt og annað í útliti og framkomu. Fyrstu mánuðina í Þýskalandi á sínum tíma var ég útlendingur; utangarðsmaður. Síðan lét ég mér vaxa hormottu og mér opnuðust allar dyr. Kassadömurnar urðu vingjarnlegar, þjónarnir hressir; já, mér opnuðust allar þessar lokuðu dyr. Það kom mér á óvart að ég þurfti að beita sömu aðferð hér. En eftir yfirhalninguna hefur Spánn opnað faðminn. Nú er gaman. el puerco

Lifandi myndir

Ekki svo langt frá okkur er bíóhús. Þar eru bara talsettar myndir. Síðsumars sá ég hina ágætu skemmtimynd Bourne Ultimatum og skildi nánast ekkert. En myndirnar töluðu sínu máli. Í gær var ég orðinn leiður á bíóleysi og fór á eitthvað. Þetta eitthvað var mynd sem heitir víst á ensku The Hunting Party. Aðalleikari myndarinnar heitir Richard Gere og virðist leika í myndum til þess að fá pening til þess að hjálpa fólki í Tíbet. Einu sinni lék hann í mynd sem fjallar um hóru sem verður ástfangin af kúnna og vice versa. Myndin gerir í Bosníu og Serbíu árið 2000 og fjallar um blaðamenn sem ætla að freista þess að ná tali af / klófesta frægasta stríðsglæpamann Serba (byggður á Mladic og hinum þarna; Karadcic; hvernig sem maður skrifar það). Mynd þessi var fyrir undirritaðan töluvert skemmtun. Ég var orðinn allbetri í spænsku heldur en þegar ég sá Matt Damon á hlaupum með gemsa og náði að fylgja allmörgum samtölum. Annars var þetta frekar vond mynd og kjánaleg. Því kom það mér mjög á óvart að á hinum alltrausta kvikmyndabanka imdb.com fær hún heila 7.3 í einkun.

Hér heimavið höfum við verið að horfa á kábboj-þættina Deadwood sem er líklega það magnaðasta sem framleitt hefur verið fyrir sjónvarp. Ef þið hafið ekki séð þetta megið þið skammast ykkar. Þættirnir voru það góðir að það náðist bara að framleiða þrjár seríur. Þeir möluðu ekki nógu mikið gull. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband