Færsluflokkur: Bloggar

Grínverjinn

Í skólanum fengum við eftirfarandi verkefni: að svara nokkrum spurningum á borð við þessa:

"Hvað myndir þú gera ef þú værir forseti Bandaríkjanna?"

og "Hvað myndir þú gera ef heimsendir yrði á morgun?"

Við fengum nokkur dæmi um svör - sniðug svör og auðvitað vildi ég líka vera sniðugur.

Spurning tvö bauð strax upp á möguleikann á útúrsnúningi: "Y tú qué harías si te dijeran que el mundo se acaba manana? (Hvað myndir þú gera ef heimsendir yrði á morgun). Vegna þess að annað af stóru blöðunum hér á Spáni heitir El Mundo og hægt væri að skilja spurninguna svo: "Hvað gerðir þú ef El Mundo hætti að koma út á morgun" - nú, þá sagði ég í fyndni minni (lausleg þýðing): "Mér finnst "El Mundo" ömurlegt...", (pása: og allir stóðu á öndinni; svörin fram að þessu höfðu jú verið: ég myndi eyða þessum degi með vinum mínum, blah, blah) og síðan bætti ég við (áfram í fyndni minni) "ég kýs fremur El País" (von um hlátur og klapp...). Nei. Kennarinn horfði á mig af vorkunn og útskýrði fyrir mér að þarna væri verið að tala um heiminn en ekki blaðið, blaðið væri með stórum staf - þá var þetta búið. Ég þurfti að útskýra grínið og þá dó það. 

En ég get ekki kvartað (jú reyndar...) kennarinn, hún er góð. Reynslumikil og ljúf og hún kann milljón aðferðir og leiki sem eiga að plata fólk til að tala.  

Vesalings kanarnir og errin þeirra. Ætli raflost dugi ekkert?

Það er ekki ónýtt að læra spænsku og fá arabísku í kaupbæti. Eitt skrýtið arabískt orð bættist við í gær: El ataúd: líkkista. Ekki mjög rómanskur bragur á því.

Uppáhaldsfalsvini mínir á spænsku má finna í eftirfarandi setningu:

"El ejecutivo está constipado" auðvitað ætti það að merkja: "Yfirmaðurinn er vanskitinn" Nei.

Það þýðir: "Skrifstofumaðurinn er með kvef." Já, hemmi minn.

Annars held ég mikið upp á orðið puzzle, sem borið er fram púþle.

 

 


"lei-lei-ðindin"

Hefði Róbert Zimmermann ekki verið amrískur júði heldur íslenskur lúði hefði hann ekki ort "lay, lady, lay" heldur "lei-lei-ðindin."

Ég er snillingur í að láta mér leiðast. Ég kann ekki með frelsi að fara. Kennsla hentar mér fullkomlega: að fá stundarskrá eins og aðrir þeir sem gista stofnanir um lengri eða skemmri tíma.

Ég er líka svo undarlega gerður að þurfa fólk í kringum mig. Hér er lítið um svoleiðis.

Málakúrsinn er fínn og er sæmilegt haldreipi í "lífinu". En þrátt fyrir hjákátlegar tilraunir til bjartsýni og jákvæðni er það nú bara svo að við búum á leiðinlegasta stað í heimi innanum leiðinlegasta fólk í heimi sem reyndar er aldrei heima því það er alltaf að vinna til að geta borgað barnapíum og hreinsifólki sem er hins vegar alltaf heima hjá þeim, en hins vegar aldrei heima hjá sér. ha.

Og svo, þegar rignir þá rignir. Ég er líka þannig gerður að til að virka nokkurn veginn eðlilegur þarf ég að fá mér tvo þrjá bjóra eða stunda helvítis íþróttir. Undanfarin ár er alltaf eitthvað að mér einhvers staðar. Ég held ég sé með hrörnunarsjúkdóm þann er elli heitir. Í fyrra var það öxlin nú er það hnéð og ég nýbúinn að kaupa kort í svakalegu gymmi með svakalegum guggum með svæsnustu kamelklaufir í hinum vestræna heimi. Ég var kominn í rosa gír í jóga - flottur kallinn, náði ekki alltaf að melta spænsku kennarans nógu vel; eitt sinn var ég til að mynda kominn úr að ofan í höfuðstöðu - á meðan aðrir voru í hundinum - mér fannst endilega að hún segði...

Já, lei-lei - ðindin.

það er líka frekar pirrandi að vera á dauðadeildinni og bíða úrskurðar; ekki um sekt eða sýknu; heldur: með hvaða græju verður maður drepinn; stól, sprautu eða hryggspennu? Nú, eða bara leiðindum. Engar meintar fréttir berast af meintum peningum sem meint við áttum í meintum sjóðum hjá meintum bönkum.

Dagarnir fara í leiðindi - maður fer inn á leiðinlegar vefsíður sem fjalla um leiðinlega hluti - Lei-lei-ðindi. Reyndar var Lay low ansi fín þegar hún hélt tónleika í MA um árið; en eins og margir krakkar nú til dags er hún heldur erlendis fyrir minn smekk.

Einu sinni var ég stoltur íslendingur og á flakkinu fékk maður dásamlega athygli; soldið spes að vera frá íslandi; "eigentlich so ganz interessant und irgendwie spannend, und so" Elfen und Geysire und die Sagas." Nú spyr fólk sem er farið að leggja við hlustir: "Du eres de Islandía, no?" Þá er ég farinn að segja "þetta er einhver misskilningur, ég er frá Islamabad." Og þá líður öllum betur.

 það eru líka góðar fréttir - búinn að kynnast stórskemmtilegum Svía. Þið verðið að fyrirgefa en ég hef bara kynnst skemmtilegum Svíum á ævinni. 

Skólanum hér lýkur 20. júní - þá verð ég búinn að pakka og vonandi á leið eitthvert í andskotanum.

það bætir ekki úr skák að lítið hefur verið að gera í þýðingunum og eigin tilraunir til að koma á framfæri eigin þýðingu á skáldsögu einni hafa gengið illa. Eins hafa tilraunir til að setja saman rímu ætlaða til útgáfu steytt á skeri því er leti, uppburðarleysi og aumingjaskapur heitir.

"Lei-lei-ðindin"

ég er líka leiður á öllu þessu snakki. það er bara talað - ekkert gert. Það er enginn að gera neitt.

Hryllileg myndin af Ger Haarde í El País um helgina. Það fer maður með fjöll á herðum sér.

"lei-lei -ðindin" mér tekst ekki einu sinni að virkja msn til að koma leiðindum snöggt og vel á framfæri við "vini" "mína".

 Rakst á dásamlega auglýsingu í Fréttablaðinu. Þar var til sölu múffa sem er kynlífsleikfang fyrir karla. Þið vitið að í stað þess að notast við pústurrör eins og maður gerir að jafnaði þá er komin sérhannaður gúmmíhólkur fyrir gjörning þenna. Sem er vel. Hins vegar verð ég að viðurkenna að mér hrýs nú hugur við að fara í bakaríið við Brúna og fá mér múffu. Ætli maður haldi sig ekki bara heima með hrökkbrauð. Það er öruggt. 

Hvað meir? Ef ég flytti heim og hefði ekki vinnu, þá gæti ég stofnað fyrirtæki og boðið upp á eftirfarandi þjónustu:

1) Bjarganir: ég er með skírteini frá Björgunarskóla sjómanna.

2) hraðlestur: rippoff aldarinnar, per se.

3) Tvífótatæklingar: áralöng reynsla af malarvellinum við KA-völlinn.

4) Mok: mokaði mold og möl á Vatnsveitinu og þorski á Halamiðum; bý yfir geysilegri tækni.

5) Dónaleg orð á ýmsum tungumálum plús einn brandari á þýsku: "Was nennt man eine Frau die Vögel an die Wand wirft? Sie ist schlecht zu vögeln.

6) Níðvísur: reynsla og þekking

7) Sandköku og kaffiítroðsla: áralöng reynsla í umönnun annarsheimsgamalmenna sem fólst í því að troða sandkökum og kaffi í heimilsfólk á þriggja tíma fresti.

8) Þýðingar: þýði létta texta og þykkar steikur með rassgatinu.

9) Smekkur og framkoma: Ég gæti tekið að mér að laga tísku og lýtaaðgerðaslys: til dæmis gæti ég rifið skyrtulöf upp úr buxum og sömuleiðis buxur úr sokkum ( en það kostar aukalega). Eins gæti ég tekið að mér litgreiningu: hvort átt þú að vera í rauðri, grænni, grárri eða blárri Millet-úlpu.

10) ég gædi tekyð að mér pórfaskalesstur.

En reyndar á ég mér draum. Okkur Birni Vigfúss varð tíðrætt um þetta: að vinna við afgreiðslu við munna Vaðlaheiðarganga. Taka við greiðslu. Horfa á sápu. Taka við greiðslu. Horfa á sápu. Taka við greiðslu. Borða sandköku. Taka við greiðslu. Drekka kaffi. Vilja taka við greiðslu: hringja á lögguna. Taka við greiðslu. Dotta. Dotta. Dotta. Taka við greiðslu. Gullúr. Gröfin.

Ég sakna Múrsins. Þar var oft eitthvað vitrænt á ferðinni. Ég les dr.gunna og hef lengi gert. En hann er stundum of sniðugur. Stundum þarf bara eitthvað þurrt, og satt og leiðinlegt.  Hvert skal leita?  Orð dagsins? Spurning um að líma bílabænina á ennið á sér. Eða á rassgatið á Cher.

 

 Annars bara stuð: leikur í kvöld Atletico vs. Liverpool. Ég ætla rétt að vona að allir þeir sem hafa smaðrað fyrir enskum fótbolta séu hættir því í ljósi undangenginna atburða. Áfram Atletico. 

Vonandi að Eiður sé ekki illa særður. Vonandi meiddi hann sig bara lítið. Vonandi. Ég meiddi mig ekki oft í fótbolta. Ég man samt eftir því að hafa meitt mig á Siglufirði, í fótbolta. Þá spiluðu menn og börn á völlum þeim er við möl voru kenndir. Ég missti eitt sinn yfirborð af læri á mölinni á Siglufirði. Kjötmöl. Blóðkjötmöl. Og handbolti á Húsavík. Fékk olnboga í gagnaugað og blóð frussaðist upp í stúku og á hvítklæddar kórstúlkur sem þar sátu, og á markatöfluna og á dómarann. Erlingur þjálfari sendi mig mig inn á bað með plástra til að loka sárinu og hélt ég síðan áfram leik. Ég skoraði 10 mörk - hef aldrei skorað jafn mörg mörk í leik. Þetta segir töluverða sögu; nú er ég töluvert vanbarinn og vel haldinn, hence, ekkert í gangi.

Finnst ykkur gaman að ferðast? Er það? Það er nefnilega leiðinlegt að ferðast. Það er miklu skemmtilegra að lesa um fjarlæg lönd. Fólk, þykir ykkur svoleiðis skemmtilegt? Ha, miklu skemmtilegra að horfa á fólk á vídjó. Tala við fólk, ha? Nei, tala um fólk.

Mig langar í sviðalappir.

Ég fór í búðina áðan og fékk mér myntkörfu. Það er miklu betra að vera með myntkörfu heldur en buddu. Það hringlar svo í buddum. Myntkörfur eru bólstraðar og ekki svona hávaði.

 

 Ég heyrði nýtt lag með Sálinni. Þeir eru greinlega búnir að svipta af sér klisjunum og textar Stefáns eru miklu beittari en áður:

 

Von

"Þótt úti rigni eldi

og brennisteini

og stjórnvöld brenni galdramanninn Reyni"

 

;;þá er von, þá er stuð,

hér sé guð, hér sé guð;;

 

þótt bankamannaher þig vilji feigan

og kjötiðnaðarmenn selji þér bitan seigan,

Og endalaust þá hækki helv. leigan.

 

;;þá er von, þá er stuð,

hér sé guð, hér sé guð;;

 

 Þótt mjölið það sé maðkað

og vítateigssvæðið traðkað

þá er flest í fínu lagi

þótt örli á sagi (til að drýgja hveitið).

;;þá er von...;;

 

Ef heilsan er í lagi- og þokkalega hreinn þinn kragi.

Og hægt að stóla á þig, Bragi. 

Þá verð ég í góðum gír

ekki síst yfir félagslega raunsærri mynd í salnum hjá MÍR.

 

;;nananana;;

Því ætla ég að skemmta mér

þar til ég fæ krabba eða alzheimer.

Því þegar öllu á botni er hvolft, þá fer sem fer,

ooohoho, trúið mér,

úhuhuh, trúið mér. 

 


Fyrsta færsla eftir fall Fróns

Undanfarnar tvær vikur hef ég því miður bara bloggað í hausnum á mér. Umfang undanfarinna atburða hefur verið mér um megn. Það er erfitt að skrifa í reiði; þá frekar fer maður í sund eða út að hlaupa. Ég hef synt töluvert að undanförnu.

Í erlendum netmiðlum hefur mátt sjá fyrirsagnir á borð við þessa: "Partýið búið". Sem gerir mann frekar pirraðan. Ekki kannast ég við að hafa verið í partýi. Ég vissi af því, sérstaklega í Reykjavík. En mér fannst það ekkert sjarmerandi. Ekki það að mér hafi verið boðið.  Og greinar um allt þetta frábæra; íslenska eldhúsið; lundabringubiti á spjóti með dassi af títuberjasósu. blah. Ég var aldrei það að fram kominn af ást á íslenska eldhúsinu að ég yrði að hlaupa út með 20.000 kallinn og eyða honum á veitingahúsi. Og þrátt fyrir meinta velmegun hefur mér alltaf þótt mannsmorð að kaupa drykki á bar.

Að kalla partý og innkaup upp á krít velmegun eða uppgang hef ég aldrei skilið.  Og hlaupa síðan í burtu og láta aðra borga enn síður.

Ég var lengi poll rólegur. Ég var með allt á hreinu. Og svei mér þá að ég hafi ekki bara grætt á háu vöxtunum. Og ég hugsaði með mér, þið getið sjálfum ykkur um kennt: af hverju þessi bílalán, af hverju myntkörfulán, ha? Og inni í mér var ég allt að því hróðugur. Ég hafði alltaf verið skynsamur. Á þessari stundu er hins vegar ekki ljóst hvort við munum tapa einni, tveimur, fjórum, sex eða átta milljónum af þeim ellefu sem við áttum eftir að hafa selt eitt stykki íbúð. Allt í einu kom í ljós að eitthvað sem hét peningamarkaðssjóður var líka af hinu illa.

Við höfðum ætlað okkur að flytja heim næsta sumar. Ég sé það ekki gerast.  Óðaverðbólga og yndislegheit.

Og þið verðið að fyrirgefa. Mér finnst menn ansi bráðir með að bjóða hinn vangann, sáttahendur, hópknús og annan fíflaskap. Og að tala af bjartsýni um að allt verði betra og hreinna í hinni nýju uppbyggingu finnst mér viðbjóðslegt. Þannig tala þeir sem sluppu. Það þarf að byrja á því að laga til og draga til ábyrgðar. Óþolandi til þess að vita að alls staðar sé sama fólk við stjórnvölinn. Í Þýskalandi voru menn með brúna fortíð í öllum hornum langt fram á okkar dag.

Ég hef á tilfinningunni að nú sé skömmin ansi mikil; hver vill viðurkenna að hafa sett allan sparnaði í hlutabréf í banka? 

Og fyndnast þykir mér þegar sagt er að við verðum fljót af rífa okkur upp; hér sé svo mikill mannauður - hah! Segðu mér annan. Og kúrsinn mannauðsstjórnun, hann skal heita mannSauðsstjórnun. Ég mæli með því að 6 kúrsar verði til B.S. - prófs í viðskiptafræði: Gagnrýnin hugsun 1-6. Kannski er mikilvægara að þeir sem fara ekki í viðskiptafræði taki þessa kúrsa.

Og tilmæli til íslenskrar málnefndar að lán (það að skulda) verði ekki lengur samhljóma orðinu lán (lukka). Lán (það að skulda) mætti kalla til að byrja með lúsifer eða belsebúbb. En hér með lýsi ég eftir lýsandi orði um fyrirbærið.

Litla Ísland þolir illa svona erjur og klofning. Fyrir tuttugu árum voru þeir sem borguðu hæstan skatt apótekarar, skipstjórar og maður sem átti fyrirtæki sem saxaði niður álegg (Síld og fiskur). Þessir menn áttu station-bíla, og þokkaleg einbýlishús. Þeir voru með á að giska 5 sinnum hærri laun en litli maðurinn. Fyrir sex-árum hófst ruglið. Þar sem kaupahéðnar fóru um með feita fokkfingur á lofti sögðu okkur með látæði sínu að éta skít. Þið þekkð þetta: liðið sem fékk allt í einu milljón á mánuði og það var svo mikill uppgangur að Miele-tækin í eldhúsinu voru aldrei tekin í notkun - það var líka svo smart að borða á Apótekinu og hvað þér hétu/heita þessir staðir. Skömm ykkar verður lengi á lofti.

Ég kannast samt varla við þetta Ísland, nýríka, toysarus, smáralindarleiðindaísland, ég bjó þar aldrei - því er gremjulegt að gamla góða Ísland hafi verið dregið niður í svaðið.

Og myntkörfulán! Stundum fer nýyrðasmíðin út í algera vitleysu. Maður sér fyrir sér indæla lautarferð; tágakarfa með vínberjum, rauðvíni, gæsalifrarkæfu og eplasíder. Kannski heldur ljóshærði hnokkinn á körfunni, og hann dansar og er glaður. Myntkörfulán - LÁN!

 


"Mjaðmagrindin Elvis"

var bara að velta þessu fyrir mér.

Afmæli a la Espanjóla

José spjallvinur minn átti afmæli í gær og mætti ég í mína fyrstu afmælisveislu á spænskri grundu.  Ég neita því ekki að ég var hálf stressaður á leið í bæinn; framundan mannamót, hræðilegt ókunnugt fólk sem skylmist með spænskum sveðjum - og ég þess meðvitaður að mín spænska sveðja er sljó og deig og hugsanlega bara kuti jafnvel bara naglaklippa. Á leiðinni niður á útstöð metró, Colonía Jardín, hlustaði ég á konseptálbúmið hans Gainsbourghs um Manninn með blómkálshausinn í botni og reyndi að finna fróun í sígaunareyktri röddu Serges. Ég skildi bílinn eftir hjá metró og tók túbuna inn á Plaza de Espanja og gekk upp á Callao inn á bókabúðina Fnac. Þangað höfum við oft lagt leið okkar en líklega aldrei klukkan 20 á föstudagskvöldi. Ef þið ímyndið ykkur bókabúð eitthvað í líkingu við Huld eða Eddu, gleymið því. Þessi bók er títönsk og stemningin þarna þetta kvöldið var eins og á Hótel Íslandi og Sálin að spila fyrir dansi fyrir háskólanema að fagna prófum. Ég svitnaði en fann bókina sem ég var að leita að og ætlaði til gjafar. Fannst mér ég reyndar að vera að falla á tíma þegar ég lenti á kassa á eftir manni sem var að kaupa 30 dvd-myndir og var ekki sáttur við afgreiðslumanninn sem vildi ekki taka við visanu hans nema að fá að sjá vegabréf. Löng saga stutt og hlaupið yfir leiðindi: mætti á veitingahúsið Jeronimo klukkan 21.20 á fullkomlega réttum tíma. 

Eitt leiðinlegasta karaktereinkenni Íslendinga getur verið hunz og svalheit - sem er kannski bara feimni þegar betur er að gáð. Þetta lýsir sér í fullkomnu sinnu- og áhugaleysi gagnvart nýju fólki í gefnum hópi. Íslendingar geta verið ansi hreint þurrir og hræddir og svalir. Og síðan taka menn til við drykkju og skána.

Í þessu hófi var mikið af vönduðu fólki. Ég var hálf hrærður. Ég reyndar virtist hafa smá forgjöf; hér var mættur til leiks fálkinn sjaldgæfi, Bjarkarbróðirinn, Sigurrósinn og Eiðursmárinn (reyndar ekki). Ég held ég hafi talað heldur mikið, mér var einhvern þrýst inn þetta hólf sendiherrans og varla að ég kæmist þaðan út allt kvöldið. Ég hélt langar ræður um Ísland, kosti og galla - bar saman löndin og fólkið usw. Fyrir mér var þetta reyndar bara ókeypis málakúrs, tækifæri til að smyrja talstöðvarnar og mynda orð á vörum sem hingað til höfðu verið falin, djúpt.

Ég spjallaði við kana frá Michigan, talið barst að tennis og jú, ég væri áhugsamur, og hann, hefði stundað íþróttina stíft og, hvernig á ég að koma orðum að því? Hann var svo líkur Birni Borg í útliti að grín um  möguleg tengsl hefðu verið fullkomlega taktlaus. Það var rosalegt. Skemmtilegur strákur og ekki ólílklegt að ég geti vélað hann í að kenna mér nokkur trix, hann hefur líka hæfileikann, enda ekki langt að sækja þá...

José varð 28 ára, systur hans tvær voru þarna líka, rétt um þrítugt. Þau búa enn öll í foreldrahúsum. Svona eru útlönd frábær. Svona eru tækifærin hér. Og þetta eru menntaðir krakkar og klárir. En ungt fólk þarf að bíta í súr epli. Lág laun, fá tækifæri og húsnæðisverð absúrd.

Vel var veitt í mat og drykk; klassíkt borð spænskt, með chorizo og ostum og eggjakökum og skinkum uws. Talaði við stelpu sem dýrkaði Björk og átti meira að segja Gling gló (hefði ég kunnað að segja það hefði ég sagt henni að pabbi Bjarkar væri formaður Rafiðnarsambandsins).

Ég lét mig hverfa þegar leikar stóðu hæst og menn ætluðu á diskótek; ég steig fæti inni i anddyrið og þá varð mér ljóst að sökum hávaða gæti ég hvorki átt samkipti á spænsku né ensku, ekki einu sinni íslensku. Olíubrákaður fálkinn lufsaðist á braut.

Að öðru:

Helgarnar eru ekki skemmtilegar - það breytist kannski - það er of lítið í gangi. Krökkunum leiðist og þá verður allt þungt í vöfum.  

Þar sem ég sat í hrúgu, fullkomlega flatur, kveikti ég á sjónvarpinu og þaðan bárust myndir úr Bláa lóninu og tónlistin var kunnugleg, Mannakorn; þarna með Ellen Kristjáns "...saknaði þíííín." Einhver svona túristaþáttur. Býsna ferskur. Mig langaði samt ekki á þessar slóðir, Brian Tracy gæti ekki selt mér Reykjavík.

Í þessari viku hefst veturinn fyrir alvöru: Grímur í tónlistarforskóla, Unnur í dansi, ég í Málaskóla flokksins. Ég held ég kunni eitt orð sem aðrir í mínum bekk munu ekki kunna: pichichi:markakóngur. 


Menningarsvínahirðirinn

Stundum þarf að hrista fólk. Íslendinga þyrfti að hrista til á stundum og Spánverja líka, en ólíkar aðferðir þyrfti á liðið: "different strokes for different folks."

Um daginn var smá hóf hér úti í sameiginlegum garði - hljómar dansk og svona kolegi - en var það ekki en var allavega tilraun til að hrista eitthvað saman - en einhvern virkaði ekki. Ég spjallaði við þessa þrjá sem ég hef hingað til spjallað við í blokkinni. Við spjölluðum um þennan vinnudag hér á landi á og þeir voru sammála mér að þetta væri plága, menn hanga í vinnunni til átta sér og öðrum til ævintýralegra leiðinda og framleiðni er engin. Sá sem þykist ætla heim til sín klukkan sex er álitinn latur og stórskrýtinn.

Íslendingar eru illa haldnir af þeim misskilningi að allt í útlöndum sé frábært og það sé hálfgerð pína að búa á Íslandi. Þessi skoðun byggist á þremur þáttum: 1. áfengi er dýrt, 2. það er dýrt að éta á veitingastöðum 3. Á íslandi er sjaldan 28 stiga hiti og sól.

Já, já. En þessir hlutir skipta engu máli. Maður étur og drekkur heima hjá sér og trúið mér, eina óveðrið sem til er er 30 stiga hiti út í eitt.

Tíu hlutir sem gera ísland byggilegasta land í heimi:

1. Öryggi; fyrir utan tilviljanakenndar barsmíðar á fylleríi í Rvk kl. 03 um helgar þá er Ísland "öruggur staður til að vera á".

2.  Anti-stéttaskipting: á Íslandi eru enn til svona götur, þótt líklega hafi fínum götum fjölgað, þar sem býr allskyns fólk: sjómaður, kennari, strætóbílstjóri, bæjarstjóri, málari, pípari.  Í hverfinu okkar eru bara vel stæðir Spánverjar sem vinna í bisnessgeiranum, 35 plús með eitt barn í einkaskóla með barnapíu frá Rúmeníu.

3. Spontanitet: Hvernig líst þér á að vera með í fótbolta, við leigjum bara sal, okei?

4.  Húmor: líst er eftir húmor, hér hef ég ekki fundið hann, ætli hann sé í Þýskalandi?

5.  Var það ekki fleira? Ja, hérna hér.

 

En það þýðir ekki að segja Íslendingum að þeir hafi það fínt - og útlönd hafi upp á ekkert að bjóða. Þeir þurfa að finna þetta á eigin skinni. Í Íslendingasögunum þarf hetjan alltaf að fremjast í útlöndum, eyða vetri með Noregskonungi í mikilli sæmd og síðan þegar líður á vorið verður Íslendingurinn hljóður (heimþrá). Ég býst við að þetta sé óumflýjanlegt ferli. Það var fyndið nú í haust, í kjölfar árangurs og hömpunar silfurmannanna mættu tvær körfuboltahetjur sem höfðu verið í útlegð og sögðu hreint út að þeir væru búnir að fá nóg af þessu útlenska lífi, þeir vildu vera heima - og það var ekkert ófínt.

Íslendingar eru hins vegar snillingar í því að gera sér erfitt fyrir; þeir reisa sér einatt hurðarás um öxl. Kaupa sér höll þegar þeim nægir hús - kaupa sér dodge þegar þeim nægir justy - fara á holtið þegar þeim nægir slátur. Superbia. Superbia. Út í eitt.

Þegar allt kemur til alls þarf maður þrennt til að gleðja sitt hjarta: 1. vinnu sem er ekki mjög leiðinleg 2. bókasafn 2. sundlaug. 

Á íslandi er allt þetta þrennt alls staðar til í ómældu magni - og má ég minna á að lengi vel var lítið um ófína vinnu - einn góður maður benti á að einungis væru til tvær gerðir vinnu: vel og illa unnin. Ef svo er komið að menn eru orðnir of fínir til að grípa til skóflu, skeina rassa, eða beinhreinsa fisk - þá vorkenni ég ekki neinum.  En vissulega eru margir sem þurfa sína milljón á mánuði til að standa undir öllu sem þeir þykjast hafa rétt á.

Þegar allt kemur til alls þarf maður bara eldhúskrók, kaffi og sögur. Til hátíðarbrigða setur maður brennsa í kaffið og bætir kryddi í sögurnar.

Nú er liðið á annað ár - enn reima menn skóna sína á Kili.

Hingað í þetta hús hafa nánast öngvir nema Íslendingar stigið fæti - ekki er ég feiminn.

Ekki stendur á mér að bjóða fólki í kaffi.

Að öðru:

 Hjörvar Pétursson talar um áhrifamátt Francisar Bacons í pistli í síðu sinni.

Ég er Bacon-maður. Ég er Beikonnari. Ég sá Painting 1946 (eða eitthvað því skylt) á safni í Köln og varð ekki samur á eftir. Ég bara sat. Sat hann? Sat'ann. Já. Nokkrum árum síðar sá ég fleiri verk á Tate og hef lesið ævisögu hans nokkrum sinnum. Á þessari síðu undir valmyndinni ljóð getið þið séð vísukorn sem ég samdi um Francis. Góða skemmtun. Fæstir vita líka að til er ágæt mynd um Francis Bacon sem heitir "Love is the devil" - Derek Jacobi leikur kallinn og sjá og sjá, james bond sjálfur leikur George greyið Dyer.

 Og hverngi getur maður stillt sig:

 Eiður Gracías

ég elska þig eiður smári

ég elska decode, Kári, not

Ég elska Kristínu Thomas (Scott).

og sjúklinginn enska í þínu hári.

 

Ég elska þig eiður smári, í dag

ég hef alltaf verið svag

fyrir ljóskum

í blöðunum var nóg af hamingjuóskum

því þú skoraðir, helvískur.

 

Þú bjargaðir deginum, Eiður

ó, mikið var kassinn þinn breiður

og himinninn yfir Camp Nou heiður

um stund gerði hamingjan sér hreiður

á hausnum þínum.

 

Hvað er að frétta af Guardiola

er hann framtíðin eða bara bóla

Og eruð þið í bandi, þið Zola?

Og Bojan, er hann með rödd eins og Sigurður Bjóla? 

 

Og spænskan, hvernig gengur

ruglastu á ser og estoy lengur?

Og kaffið á Spáni, vá það er nú meira sullið

miklu mun skárra er frá Braga gullið.

 

Og hvað með katalónsku

gengur eitthvað?

nokkuð farinn að missa niður frónsku,

og hvað með flæmskuna?

sem minnir á gömlu slæmskuna

í hálsinum. 

 

Í gær fékkstu uppreisn æru

alveg á tæru

dagblöðin full af eiði smára

kallinn farinn að skora eins og Margét Lára.



Ókei, ég missti mig smá

ég elska þig ekki beint

það er var ekki þannig meint.

En ég kann þig vel að meta á velli

og hvernig þú fagnaðir

eins og björn á siglingu út úr helli. 

 

  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


The return of the "thin" white duke, throwing darts in lovers' eyes

Allt of fá ljóð fjalla um pílukast, þá göfugu íþrótt, en hver kannast ekki við þetta?

 

"To get to sleep in latitudes called upper

Is difficult at first for Englishmen.

It's like being sent to bed before you supper

For playing darts with father's fountain-pen,

Or like returning after orgies, when

 Your breath's like luggage and you realize

You've been more confidential than was wise" 

 

og önnur klassísk  hending í tilefni dagsins: "Ég er tvítugur í dag - ég nenni ekki neinu".

Nú hef ég náð Sverri Páli í aldri, reyndar má segja að ég hafi gert það í fyrra. Hann og einstaka eðalmenni eru svo merkilega saman sett að ná 35 aldri og halda honum síðan. Þetta er ekki öllum gefið. Kvenfólk reynir þetta með allskyns trixum sem einatt klikka. Þetta snýst nefnilega ekki um útlit heldur viðhorf. Margir sjóarar eru svona; 55 ára en samt bara 35 (eða í raun bara 22ja).

Séð utan frá með hlutlausum augum, með fullkomna hlutlægni að vopni má segja að Akureyri sé fallegasti bær landsins - á sama hátt má segja að stálgítarriffið í "One hundred years from this day" með Byrds sé besta stálgítarriff í heimi - á sama hátt má segja að  Meg Ryan og Nicole Kidman séu í raun skúfendur og á sama hátt má segja að Andri Snær sé í raun David Duchovny aka Dan Petrescu. Á sama hátt, og gleymið ekki þessu með hlutleysið og hlutlægnina, má ljóst vera að besta ár sögunnar, liðinnar og framliðinnar, var, hefur verið og mun vera árið 1972.

Hvort sem brugðið er niður fæti í menningu eða listum, íþróttum eða tísku, börtum eða bernaise, öll vötn renna til ársins 1972. Þar var einhverju hámarki náð. Fyrir 1972 var uppgangur eftir 1972 var hnignun.

Lou Reed gerði Transformer: "And the coloured girls go doo doo"

Laxness reit Guðsgjafaþulu: Íslandskokteill: koníak og rauðvín.

Stones gerðu Exile on Main street og létust daginn eftir í rútuslysi.

Miles Davis slengdi í eina netta swingplötu: Tevatn tíkurinnar (Bitches Brew).

Fyrsta Godfather.

Svalasta hefndarsaga frá því að ísl.sögur voru og hétu: Get Carter með meistar Michael Caine.

David Bowie varð Ziggy Stardust.

Marvin Gaye spurði bróður sinni hvað væri að gerast;

" Can't find no work, can't find no job, my friend

Money is tighter than, it's ever been

Say man, I just don't understand

What's going on across this land

Ah, what's happening brother?

Yeah, what's happening? What's happening my man?" 

 

og í dag - á þessum degi sem ég deili með Nick Cave og Julio Iglesias sigraði ég kerfið. Já, þetta er dagurinn sem ég sigraði kerfið og mætti með síðasta eyðublað nr. 2b og náði já  náði að skrá mig í málakúrs ríkisins hjá frænku hans Francos. Kannski er þetta sálfræði hjá þeim. Þeir eru glúrnir þeir spánsku. Frjálshyggjumenn vilja að menntun kosti og segja að þá muni fólk vanda sig meira við að mennta sig. Kannski ef við lítum svo á að tími sé peningar. Nú er ég búinn að sækja um skólann með líkamanum - ég er búinn að berjast og þótt að ég fái ömurlegan kennara og þótt einhver setji teiknibólu í stólinn minn og kennaratyggjó í hárið á mér mun ég aldrei gefast upp því ég mun minnast ferðanna með eyðublöð og ljósrit og kvittanir og aha, nei, ég mun aldrei gefast upp.

Já, þeir eru glúrnir þeir spánsku. Á bókasöfnum fara þeir ekki billegu leiðina, það er að sekta menn fyrir að skila bókum seint eins og á Íslandi. Nei, þeir nota trix frá tímum rannsóknarréttarins - það er rosalegt. Ég get varla sagt það. Það er of. Þeir nota hefndina og sparka þar sem maður er aumastur. þeir setja mann í straff. "Þú skilaðir viku of seint - þú færð ekki að taka bók í viku." Vá. Þvílíkir meistarar. Það er nefnilega alltaf hægt að borga sektir en að vera settur í bókastraff, it 'urts eins og kellingin sagði.

Ég skráði mig í rækt í þeim tilgangi að fara í jóga og liðka mig aðeins. Einhver hafði líka hvíslað að mér að Pílatus væri líka rosasniðug leikfimi. Ég fór í fyrsta Pílatus-tímanum um daginn og fannst hann dálítið skrýtinn. Í byrjun tímans (ég skildi ekki allt) var einhver í hópnum látinn "verann" . Ung kona með svart alskegg var valin og síðan áttu allir að hlaupa á eftir henni og reyna að klukka hana. Það gekk vel og einhver náði að klukka hana. Mikill sviti. Síðan var henni réttur þungur trékross og nú átti hún að hlaupa með hann. Allir hinir fengu hamar og nagla og áfram hélt eltingarleikurinn. Þetta var rosa áreynsla - mikil brennsla.

 

 

Þið afsakið að lítið skuli vera um myndir- við gleymdum nefnilega snúrunni á íslandi í fríinu.

 Mér sýnist líka að myndin af þessari með krossinn sé dálítið hreyfð.

 

 


Haglél

Fiðrildi er íslenskt orð sem vekur furðu útlenskra. Trevor, liverpúlski mannvinurinn sem ég kynntist í Heidelberg á sínum tíma þreyttist aldrei á því að máta orðið í munni sínum og hlæja við - eins þótti honum "bídl" undarlegt fyrirbæri. Haglél er líka soldið spes. Líka soldið spes að Madridíngar upplifi slíkt. Í útvarpinu áðan var viðtöl við elstu menn í Madríd og auðvitað mundu þeir ekki annað eins.

Ég var í prófi í morgun - asnalegt að fara í próf - alltaf þetta stress. Þetta var reyndar bara stöðupróf og sosum ekki hægt að falla - og í framhaldinu var munnlegur hluti. Kúrsinn byrjar síðan 1. október og þá er loksins komið lag á þessar spænskuþreifingar. 

Get varla beðið eftir að komast í rútínu; krakkarnir eru orðnir leiðir hvort á öðru og vita ekki að pillan sem slær á allt heitir skóli og byrjar á mánudaginn.

"Á stuttum buxum"; 8. bindi ævisögu Guðjóns Haukssonar frá Grenivík er nýkomið út. Í þessu bindi segir höfundur frá árunum á Akureyri - frumkvöðlastarfi á enter-takkanum og kynnum sínum af sundíþróttinni. Á bókarkápu stendur: "Guðjón og Stephen Hawking eiga það sameiginlegt að vera andlegir risar í fangelsi eigin líkama - þeir gefast aldrei upp og innan múrsins, innan fangelsins flögra þeir um víðáttur andans." "Meistaraverk" (K.B). "Hið fallegasta við mannskepnuna er geta hennar til að standa stöðugt aftur á fætur. Guðjón er mannskepna." (Fréttablaðið).

Las "On Chesil Beach" eftir Ian McEwan um daginn. Ekki lesa hana. Hún er frábær. Hún er of. Ég neyddist til að skera lauk að lestri loknum. Bók þessi er nýkomin út á íslensku. Sá brakandi nýja útgáfu af Skugga-Baldri á spænsku í dag. Sú bók var flott.

 

Á maður að fara á REM? Þeir verða hér 1. okt á frægasta Nautabanahring Spánar, Las Ventas. REM; frá 1982-1992 var magnað dæmi. Auðvitað fer ég, vonandi taka þeir ekki Losing my Religon. Vonandi spila þeir bara Murmur í heild sinni. Nú, síðan koma snillingarnir í Wedding Present í heimsókn. Þá liggur við að maður detti barasta íða, ha?  

 

 


Budejovické

Hjartað tók aukakipp við bjórhilluna í Carrefour í gær. Það var kominn ný bjór í neðstu hilluna; 1795, Budejovické pivo. Mér leið sem ég hefði skrúfast inn í aðra vídd og væri staddur með Gísla Halldórssyni á krá í Budejovické. Ætli Góði dátinn sé ekki sú bók sem Íslendingum þykir hvað vænst um, og þá í raun í upplestri Gísla?

Við erum varla búin að ná áttum eftir langt frí - Hönnu var skellt inn í raunveruleikann um leið og hún kom út og hefur verið að flengjast á milli borga í Evrópu síðustu daga.

Góð vika er í að krakkarnir byrji í skólanum og er það vel.

All andstyggileg gubbupest greip okkur Grím í byrjun vikunnar. Daginn eftir fórum niður í bæ og krakkarnir heimsóttu Siggu vinkonu sína á meðan ég rölti í bæinn. Ég var ekki tilbúinn að rölta í bæinn. Mér var illt í maganum. Þó hélt ég ferð minni áfram og skrönglaðist inn í bókabúðina Fnac. Þá var illa af mér dregið. Þá mundi ég að í bókabúðinni er vin. Lestrarherbergi. Ég fann einhverja bók og hélt þangað inn hress í bragði með óbragð í munni. En vei! Hvar ó hvar, hafði umsjónarmaður búðarinnar viti sínu glatað? Í klefa þessum, annars þægilegum, var klezmer-tónlist spiluð á töluverðum styrk. Það finnst mér að jafnaði ekki skemmtileg tónlist og við þessar aðstæður var hún óbærileg. Mér leið sem hressilegu klarinetti hefði verið sprautað í æð mér og væri á tilviljanakenndu ferðalagi um æðakerfið. Í kringum mig var fólk sem las í rólegheitum og virtist ekki heyra þessa tónlist. 

Mikil borg er Madríd og gömul og hún er dásamleg á haustin og veturna. Sumar-Madríd er heit og þung.

 

 

 


Um það þegar menn syntu í Eyjafjarðará

Af aumum

 

Eyjafjarðará í ágúst heitum

æpir á eftir mönnum feitum:

„Standið upp frá steik og majónesi,

stefnumót við eigum úti á nesi.“

 

„Keppi skal nú kæla,

kroppinn gamla stæla,

standa upp frá bjór og svínalund

og sigur þreyta sund.

 

Aumt er yfir eiginlega flestum

Aumir hanga yfir matarrestum

Einn er þunnur, annar konu barnar.

Aðeins einn er maður: Arnar.

 

Augum hina illum lítur:

„Eruð þið menn eða músaskítur?,

majonesið niður manninn brýtur

mjög eruð þið rúmlega vaxnir ítur.

 

Afi minn var alinn upp á þessum slóðum

áin ætíð var hans heilsulind.

Heyrt frá mönnum hef ég fróðum

að á haustmánuðum hafi synt

upp strauminn eftir sauðum óðum

og síðan þurrkað sér í kind.“

 

Upp leit Baldur upplitsdjarfur:

„Brúkar mjög þú munninn stóra“,

felldi Jói froðu stjarfur

en frændi Valgerðar varð rauður sem karfur.

 

Þurftu fleiri reyndar frýjur

(Fólin höfðu hjarta á við 12 ára píur)

„Í fitu fáið þið allir fullt hús, kútar,

fattið þið, eins og í keppni hrútar.“

 

Eitt og eitt sást tár á hvarmi

„Éttu skít þú þarna, armi.“

Eitthvað virtist í þá spunnið.

Æði virtist á þá runnið.

 

Baldur ferðar bjóst til niður að á

bærðist neðri vörin blá.

Hildar Jói hljóp við hliðina á.

Hokið Auðmennið með frosið bros á ská.

 


Bakvið hús hjá Braga

bróðir Hönnu faldi sig í laut

vaxinn hátt með vöðvastæltan maga

væla heyrðist: „Áin er svo blaut“.

 

Reið á vaðið Ranra fyrstur

raust upp sína hóf þá byrstur:

„Síðastur sem stekkur verður kysstur“

Stukku útí þá þær systur.

 

Upphófst grátur endalaus

„Æ, millitáamanni fraus.

Duglega er frosið daus.

Déskoti er freðinn haus“

 

Vatnið tók Jóa í læri

en Indriða í rass

Baldur virtist hræddur vatns.

Voðalegt er þetta góðæri.

 

Allir hófu að æpa á guð,

allir nema Már.

Voru á þá vaxin skuð

virgínsk og laus við hár?

 


Arnar tók þá alla í fangið

og arkaði heim á leið.

Heimilisfólkið var hrætt og bangið

og hafði tilbúið lýsi og skeið.


Arnar oní rúm þá bjó

og öll á báttin kyssti

Sussubía sussuró

Sofnaði sá fyrsti...

 

 

Ég vona að saga þessi seggjum kenni

að sinna betur líkama og á sál

að tölvu betri er bókarögn og penni

að bögglesið á ekki séns í kál.

 

 

 

 

 

               

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband