Færsluflokkur: Bloggar
20.7.2008 | 06:40
Jæja
Nú er komið jæja á þetta.
Eftir tvo tíma förum við út á völl - fljúgum til Köben og þaðan til Kefl.
Frábær tímasetning á þessari ferð. Nú er mánuður liðinn frá því sumarhitarnir skullu á, búið að vera fínt en framundan er pottur - í gærkvöldi fannst mér ég eiginlega búinn að fá nóg af hitanum.
Ekki er víst að mikið verði bloggað næsta mánuðinn - en maður veit þó aldrei.
hils
a
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.7.2008 | 13:33
Davíð
Þessa dagana er ég að lesa ævisögu Davíðs Stefánssonar - ekki er hún gallalaus en ég skemmti mér allvel við lesturinn.
Ég rakst á þetta ljóð í gær sem ég kannaðist ekki við - enda enginn sérfræðingur í skáldinu - þótt margt hafi fallið mér vel í geð í gegnum tíðina.
Vornótt
í nótt er gott að gista Eyjafjörð
og guðafriður yfir strönd og vogum.
Í skini sólar skarta haf og jörð
og skýjabólstrar slegnir rauðum logum.
Það veit hver sál, að sumar fer í hönd,
en samt er þögn og kyrrð um mó og dranga,
og hvorki brotnar bára upp við strönd
né bærist strá í grænum hlíðarvanga.
Svo ljúft er allt í þessum heiða hyl,
svo hátt til lofts og mjúkur barmur jarðar,
að víst er engin veröld fegri til
en vornótt björt í hlíðum Eyjafjarðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2008 | 21:13
Ár
Í dag er ár liðið frá því að við fluttum til Madrídar. 15. júlí - 15. júlí.
Ég myndi opna kampavínsflösku ef ég ætti - reyndar hefði ég ekki lyst því ég er saddur.
Ég hef ekki drukkið kampavín á Spáni, við fáum bara kampavín þegar við heimsækjum Kolbein og Junko. Spurning um að heimsækja þau.
Vorum með spánska kunningja í heimsókn - þau sem eru á leið til Íslands - ýmislegt var rætt, til dæmis pílagrímsgangan góða til Santiago de Compostela. Frúin fór þessa leið fyrir einhverjum árum; 800 km á 30 dögum - David maður hennar benti á þann möguleika að hjóla þetta á 8 dögum sem er víst algengt og verð ég að segja að ég er mjög svag fyrir þeirri hugmynd. Næsta vetur myndi ég koma mér í þríþraut, takmarka svínafituát og skammta mér bjór í matskeið og mæta helmassaður í þröngum spandex-buxum í hjólreiðatúr. Það má skoða þetta.
Ár á Spáni - þung byrjun, svona svona fram að jólum - undanfarna mánuði eintóm gleði, þannig séð.
Börnin eiga skilið Fálkaorðuna fyrir framlag sitt til einhvers...
Við erum með öll nútíma þægindi - þó höfum við ekki haft fyrir því að kaupa okkur uppþvottavél - enda á mörkunum að vera nauðsyn. Það er til að mynda dásamlegt að hlusta á útvarpssöguna, Andrarímur, Spegilinn, Víðsjá meðan maður vaskar upp. Hlustaði á síðasta lestur Múrsins í Kína og þurfti að styðja mig við eggjaköku til að detta ekki í gólfið af hlátri. Næst síðasti kaflinn segir af heimsókn á Karókíbar og er hrein dásemd. Þetta er hógvær, góð og lúmskfyndin saga hjá Huldari.
Ár á Spáni -
Már á Smáspáni.
Márakjáni á Smámannaspáni.
eyja, eyjapeyi - eyjaskeggi
að elta lonníettur og hlæja.
Velta sér upp úr elddögginni og hlæja.
En þá kemur skógarvitleysingurinn með dálkinn
og kveður:
Mýsla, mýslupísl,
þér ég hvísla, kyss döggina af gráhárinu og smáfárinu.
En þá fannst mér sem ég vaknaði
og felldi tár.
Annars man ég eftir mun betri stælingu á kvæðinu sem Ásgrímur Anganýs galdraði fram í menntaskóla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.7.2008 | 21:49
Bonnie Prince Billy og fleira
Í dag þarf inngang að öllu. Þekkirðu ekki x? Hann gerði þetta og þetta og þetta? Ha? 1000 manns hlusta á 1000 tónlistarmenn og lesa 1000 rithöfunda. Gott eða slæmt? Ég veit það ekki. Flókið? Já. Fyrir 15 árum var netið varla til og í plötubúðum voru til x margir titlar. Í dag er enginn samnefnari; jú, kannski U2 og Madonna - ekki mikið meira.
Þegar við segjumst hafa farið á tónleika með Bonnie Prince Billy segir það fæstum nokkuð. Fáa myndi gruna að þar væri spámaður á ferðinni. En þannig er það.
Við fórum sem sagt á tónleika í Madrid með bandaríska tónlistarmanninum Bonnie Prince Billy. Krakkarnir voru í pössun hjá nýunnum vinum okkar hér í Madríd; þeim Hrafnhildi og Pétri og Siggu sem kann að leika.
Þetta var fullkomið kvöld. Við mættum hvorki seint né snemma á tónleikana. Við gengum inn - fórum á barinn og fundum okkur stað úti á gólfi - enginn risi fyrir framan okkur og - okkar maður hóf spilið um leið og bjórinn var hálfnaður.
Ég þekki líklega helming af því efni sem Will Oldham (aka Bonnie Prince Billy) hefur sent frá sér. Á þessum tónleikum spilaði hann hinn helminginn. En þvílík dásemd að verða vitni að frumflutningi á snilld.
Þarna voru ekki þreyttir menn að flytja þreytta slagara fyrir góðborgara á fótboltavelli heldur maður á hátindi ferils síns.
Og eitthvað heillandi við þá staðreynd að 1500 manns yfirgefi heimili sín á svipuðum tíma á fallegu kvöldi í 4 milljóna madrídborg og hittist eina kvöldstund á skrýtnu diskóteki og hlusti á mann með hljómsveit í 2 tíma. Síðan heldur hver sína leið heim. Á einhvern hátt snortinn.
Ég hef verið latur að skrifa að undanförnu - fátt gerist markvert við sundlaugarnar; við bjóðum góðan daginn og brosum góðlátlega við nágrönnunum - kveðjum og höldum inn. Eftir að hafa fylgt Grími hinum duglega á sundnámskeið lá leiðin í minnstu búð í heimi í Boadilla - þar kaupum við góðu mjólkina grænu og brauð. Konan í búðinni er almennileg - hún er frá Kólumbíu - hún sagðist vera á leið heim í frí í 20 daga - ég sagðist vera á leið heim í 5 vikur. Hún var glöð fyrir mína hönd. Enda triste að vera í útlöndum - allavega ef örlögin reka mann þangað. Við erum lukkunar fólk. Skammtaður tími í útlöndum er reynsla en ekki tragík.
Talandi um tragík. Við fórum í góðan laugardagsbíltór með nýgóðvinum okkar Vicente, Ingu og fjölskyldu upp í fjöllin. Fyrst skoðuðum við El Escorial sem var sumarhöll Felipe 2 og munkaklaustur. Á sextándu öld var þetta stærsta bygging í heimi? (Evrópu). Þar skoðuðum við meira að segja grafhýsi Spánarkonunga. Á leið niður í hvelfinguna var túristahópurinn beðinn um að fara um hljóðlega, þeir væru á helgum stað. En í hverju horni heyrðust hlátrasköll, skvaldur og slíkt. Sumir kunna sig ekki. Aldrei. Ég var ekkert sérstaklega strangur kennari en eitt var ljóst að væri ég að lesa upp ljóð eða úr Njálu eða kafla úr Kiljan - þá átti að þegja. Sumir kunna ekki að þegja. Og fáir kunna að hlusta.
Já, tragík. í framhaldi af El Escorial heimsóttum við yfirþyrmandi dapurlegan stað; Valle de los caídos (Dal hinna föllu). Minnismerki sem Franco reisti um fallna hermenn sína. Hrikalegt minnismerki sem tók mörg ár að reisa. Fasísk steinsteypa og stórmennskubrjálæði. Þetta minnismerki er hálf umdeilt enda dóu margir stríðsfangar við bygginguna og þetta er jú tákn sigurvegaranna. En staðurinn er ægifagur og hægt að komast upp að krossinum með nær lóðréttum sporvagni.
Maður drukknar í drasli; dagblöðum og keyptum hlutum. Af hverju rígheldur maður ekki bara um eitthvað eitt; penna, trompet eða tennisspaða? Fátt er hvimleiðara en dagblöð.
Nú er Íslandsförin að taka á sig mynd. Töluverðar líkur á að synt verði við Gróttu að kvöldi mánudagsins 21. júlí. Ha, þið sem lesið þetta, Maggi Teits og fleiri, ha? Reyndar skilst mér á Ása Angantýs að sjórinn sé leiðinlega mollulegur - það verður að hafa það. Ég hef verið að búa mig undir vosbúðina með setum í sundlaug hverfisins sem fær geirvörtur til að stökkva hæð sína í loft upp og aðra líkamsparta til að láta í minni pokann.
"Tangled up in blue"
Hendið inn leitarorðinu Unnur danssýning á youtube og skemmtið ykkur vel.
Grímur verður fimleikamaður eða ofurhetja. Einn morgunninn vaknaði hann og sagði: "Mig dreymdi að ég færi heljarstökk". Ég held það styttist. í íþróttum var ég seigur en laus við ofgnótt af hæfileikum. Grímur er seigur og efnilegur. Hann hefur axlirnar.
Tennis er íþróttin næstu 20 árin. Síðan tekur badminton við. Síðan boccia. Síðan mun einhver góðhjartaður slá mann í hausinn þegar maður er orðinn óþolandi gamall - með boccia-kúlu og vefja manni í badminton-net og sökkva manni í sjóinn á Hjalteyri. En það er eitthvað í það.
Annars langar mig að þakka Kára Árna fyrir allt badmintonið, höfuðstökkin, jakahlaupin, skotmennina, upphífingarnar, hástökkið, arabastökkin og blakið - og þakka Inga sturtu og þakka Kára aftur fyrir að láta mann hengja handklæðið yfir fötin - þið vitið hvað ég meina.
Ég hef verið að lesa nokkrar ævisögur í vetur - hálfgerð tilviljun reyndar; þetta eru gjafir flestar.
Ævisaga Guðmundar Böðvarssonar, Þórbergs og nú síðast Davíðs. Ég öfunda þá af einu að hafa ekki verið deyfðir af endalausri afþreyingu í formi sjónvarps og nets. Það er ævintýralegt hvað maður hefur látið afvegaleiða sig undanfarin 35 ár og sér ekki fyrir endann á því. Spurning um að lesa sér aðeins til um þetta fyrirbæri sjónvarp og hvað það hefur gefið okkur og hverju það hefur svipt okkur. En þetta er ekki auðveld gáta - sjónvarpið getur verið heillandi. Ég meina, Bogi Ágústsson.
Hei, ég er að hlusta á Bonnie og minni þig, minn kæri vin, að skila mér Master and Everyone. Eflaust skulda ég þér eitthvað. Og, tónleikarnir með Bonnie minntu mig á tónleikana með Nick Cave um árið á Broadway. Þetta var eiginlega á madrískri Broadway. Tvöfaldi viskíinn sem Hanna kom með var samt næstum því dropinn sem fyllti mælinn. Næstum því.
Jæja,
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.7.2008 | 09:15
Churro
Churro eða Churros er spænskt bakkelsi; undarlega freistandi. Löðrandi í fitu og frekar salt, síðan er hægt að panta það með súkkulaði. Karl ljótur, vinur minn, sem bjó um stund í Andalúsíu, nærðist nær eingöngu á þessu brauði. Enda var hann við það að horfalla á tímabili og var ráðlagt af læknum að drekka rjóma kvölds og morgna og graðga í sig churrosi yfir miðjan daginn.
Churro er líka nafn á einhvers konar flotholti sem krakkar notast við í sundkennslu. Grímur er einmitt á sundnámskeiði þessi dagana og syndir um með churros.
Við skruppum á bæjarhátíðina í gær, gripum með churros, eftirstöðvarnar voru étnar með barnaefninu áðan. Hvað er þetta með barnaefni? Hvílíkur grautur? Með veikum mætti reyna stöðvarnar að halda smá uppbyggilegheitum að börnunum (kannski er það bara til að friða foreldrana) en annars kafnar þetta í smábarnatísti einhverra sætra dýrmenna og síðan er Burger King, Playstation, Indana Jones og félagar auglýstir út í eitt.
Tæknin gefur og tæknin tekur. Þægindi? Þegar upp er staðið held ég ekki. Hugarró? Líklega ekki. Ég var að skipta um símafyrirtæki og nú fæ ég símtöl daglega frá gamla fyrirtækinu þar sem ég er spurður: Af hverju hættirðu með mér? Er ég ekki nógu góð? En ég get boðið þér góðan díl? Þetta er eins og að vera með Glen Close berjandi á baðherbergishurðina með öxi.
Eftir strembin dag settumst við krakkarnir niður út á svalir með klaka og bjór. Stundum grípur krakkana dansæði og það gerðist í gærkvöldi. Þá setjum við ekki Boney M á fóninn. Grímur vill rokk og þá dugar ekkert minna en Utangarðsmenn eða Ham. Í gær tóku þau létt spor við danslög á borð við Sigurður var sjómaður, Fuglinn er floginn og ég fékk eitt lag: Bjór með Fræbblunum.
Nú styttist í Íslandsferð. Mig vantar 3 daga til að verða heilbrúnn; ég er alltaf í frekar síðum sundbuxum og því eru efri lærin heldur hvít. Þetta þarf að laga. Ég hef bara einu sinni verið brúnn; það var eftir 35 daga túr á togara.
Ég lenti aldrei beint í sjávarháska. Reyndar var stöðugur stormur þennan túr sem ég fór á Hjalteyrinni á Dornh(svo?) banka um árið. Jú, reyndar mætti tala um sjávarháska. Kokteilsósan um borð í Akureyrinni var alltaf geymd við stofuhita og stundum fann maður æðarnar taka andköf en alltaf slapp það til og hefur eflaust bara styrkt mann. Eins man ég eftir túr þar sem vatnið bragðaðist eitthvað undarlega og ég drakk pilsner í 30 daga í röð. Jú, og hamborgaraveislurnar gengu nærri manni. Um tvítugt sporðrennir maður 3-4 hamborgurnum með bravúr og fer síðan í koju.
Hanna er búin að vera á Íslandi í viku. Hún útbjó mat fyrir sex daga og setti í frysti:
1. Falskur héri og grænar baunir. 2. Kjötbúðingur og stappa 3. Pylsur og egg 4. Bjúgu og stappa 5. Kjarnapizza með kokteilsósu. 6. buff stroganoff. Nú er dagur sjö og ég er ráðalaus. Best að kaupa bjúgu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.6.2008 | 20:54
"Spánland, Spánland yfir öllu"
Mikið er gaman þá sjaldan að réttlætið sigrar. Spánn vann fótboltann, Ísland mun vinna Eurovisjon næst og Megas hlýtur heimsfrægð. Xavi var góður, enda var hann búinn að hvíla sig hjá Barcelona í allan vetur. Þessi sigur var mikilvægur fyrir spænsku þjóðarsálina - rétt eins og sigur okkar á Svíagrýlunni í fyrra. Á árinu mun ég fella mína grýlu; Nafnagrýluna í tennis.
Íslenskt veðurfar er fullkomið. 35 stiga hiti dag eftir dag er ekki gott veður. Það er óveður. Veðurfar sem þetta gerir menn kurteisa, leiðinlega og fyrirsjáanlega. Á Spáni virðist mikið lagt upp úr því að heilsa nágrönnum sínum og kveðja með virktum. En að taka hressilegt spjall eða drekka kaffi saman virðist ekki spila jafn stóra rullu. Í portinu eru hjón sem eiga tvo litla stráka sem Grímur leikur stundum við úti í laug. Grímur kallar þá tvíburana enda þótt í það minnsta ár sé á milli þeirra. Ég er búinn að segja þúsund sinnum "hola" við þau hjónin. Eitthvað kemur í veg fyrir að við færum samræðurnar á æðra stig. Au-pairið þeirra er hinsvegar tútta. Ég tala stundum við hana. Ég hef það á tilfinningunni að Madrídbúar séu frekar öruggir með sig án þess að vera sérlega montnir. Þeir eru undarlega gerðir. Þeir eru heimsmenn án þess að hafa séð heiminn og eru hálf hræddir við útlendinga. Þeir eru skíthræddir við enska tungu og bera óttablanda virðingu við Þjóðverjum (kannski er það liðin tíð?)
Bretarnir voru hjá okkur í tæpa viku og eitt af því sem við gerðum var að fara í bíó. Ég er búinn að finna eitt snilldarbíó sem sýnir gamlar myndir. Bíóhúsið er rúmlega hundrað ára gamalt og salurinn í sinni upprunalegu mynd. Við fórum að sjá Lawrence of Arabia. Það var gaman. Á sjónum voru sex tíma vaktir og stundum stóð maður á færibandi í 3 og hálfan tíma samfleytt. í fyrsta sinn á ævinni sat ég á rassinum í 3 og hálfan tíma. Það var erfitt, en mikið var þetta góð mynd og mikið er gaman í bíó og mikið er fíflalegt að horfa á bíómyndir heima hjá sér. Alveg sama hversu stór og flatur skjárinn þinn er. Fyrir næsta vetur ætla ég að koma mér upp barnapíu svo við getum farið vikulega á bíó.
Ég reyndi stundum að vara fyndinn. Stundum tekst það. Stundum tekur fólk viljann fyrir verkið og flissar af einhverri vitleysunni. Stundum lendir maður á fólki sem verður hálf hvumsa rekist það á bull. Einhvern tímann var ég á fundi með kennurum og einn kennarinn af þýskum ættum sagði í kjölfar einhvers bullsins í mér "jah, sú vera svona fyndinn." Ég tók því ekki sem hrósi. Af hverju er ég að tala um þetta? Við fórum í matarboð til alvöru Spánverja. Það var gaman. Miðbarnið í fjölskyldunni er með Grími í bekk og er fjölskyldan á leið til Íslands í frí. Nú, þetta er hið vænsta fólk, ég bauð þeim í kaffi um daginn og gaf þeim ráð varðandi förina og í framhaldinu buðu þau okkur í mat. Og þau voru dásamleg. Við vorum ekki dásamleg. Við mættum með rauðvín - þau drekka ekki. Við bölvuðum og bulluðum - þeim stökk ekki bros. Mér leið eins og ég væri innan í hvítri sál hlaupandi um á skítugum skónum. Nei, nei. Þetta var fínt. Fólk er bara skrýtið og skrýtnastur er maður sjálfur eins og skáldið sagði.
Ég er búinn að múta krökkunum til að fara á nautaat í kvöld. Merkilegt. Þessi nautaöt eru ekki bönnuð börnum. Þessi tegund kallast Recortes, en þá gera menn allskyns kúnstir i kringum dýrin án þess að meiða þau. En þetta er rúlletta og góðar líkur á því að menn drepi sig - og uppi í stúku sitja krakkarnir með mútugreiðslur út að kinnum.
Æi, já. Bara fínt, takk. Bara fínt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.6.2008 | 18:20
Leiðinlegar laugarnar - laug Arnar
Ég hef verið að vinna að brúnkunni með töluverðum árangri, þið verðið ekki svikin þegar þið sjáið mig í Laugunum eftir mánuð. Bjórinn sér ístrunni fyrir fyllingu og er það vel. Svei þeim karlmönnum sem berjast við ístruna eins og óvin, svei þeim hégóma. Best er þegar maginn er fullur af hráskinku, ostum, pylsum, bjórum og í hálsinum og munninum er ekki pláss fyrir orð bara dæs, bara dæs.
Og ég sem ætlaði að ganga út með Eyjafirði og gista í tjaldi. Nú þori ég því ekki. Ég vil ekki vakna upp með órökuðum Birni eða hugsanlega ekki vakna upp. Ha? Reyndar á ég svissneskan vasahníf með sög og naglaþjöl og þótti beita Osoto Otoshi af töluverðri natni. Og hver er munurinn á Óda og ísbirni? Enginn. Ef ég mætti Birni órökuðum myndi ég finta hann eins og það heitir á handboltamáli - finta að hætti Eggertsonar Þorleifssonar Valsmanns, eða Halldórs Haukamanns. Anthony Hopkins lék í Nóbelsverðlaunamynd fyrir nokkrum árum. Þar leikur hann mógul sem týnist í óbyggðum ásamt nokkrum öðrum. Þar lenda þeir í slag við skógarbjörn, skógarbjörninn hefur bara áhuga á svarta manninum í hópnum og endar með því að éta hann. Ekki fallegur boðskapur það. Nú lít ég út eins og svarti maðurinn - kannski mæti ég ísbirni með hvítan strýtuhatt og kyndil uppi á heiðum.
Óskaplega geta stórþjóðirnar kúkað í buxan sín í fótbolta; vonarstjörnurnar Portúgal og Holland með kúk upp á bak. Rússland var vopnað blautklútum og barnasálfræði og Holland sofnaði vært úti í vagni. Spánverjar gætu farið á límingunum í kvöld; þeir eru bestir en þeirra eigin haus er þeirra versti óvinur. Ítalir eru þeirra Svíagrýla. Þær falla reyndar á endanum.
Unnur og Grímur kláruðu skólann á föstudaginn. Námsárangur frábær. Unnur þótti sýna einstakan árangur í spænsku. Lokahóf var síðan haldið að skóla loknum og var það prýðileg skemmtan. Unnur tók þátt í danssýningu og Grímur fékk medalíu fyrir þáttöku í fótbolta sem hann reyndar gafst upp á á endanum. Magnað hvernig þessi grey hafa sigrast á einu og öðru undanfarið ár. Það er ekki lítið á þetta fólk lagt.
Hvað er verst þegar maður er að læra tungumál? Að fá símhringingu; kannski frá banka, eða skólanum eða íþróttadeild bæjarins sem tjáir manni að hugsanlega sé maður kominn inn af biðlista og blah blah. Oft skilur maður ekkert fyrstu mínútuna - síðan kemur eitthvað stikkorð, aha. Svo giskar maður á erindið út frá samhengi og reynir að hiksta eitthvað. Spánverjar eru reyndar afar kurteisir og þolinmóðir við þessar aðstæður. Margur íslendingurinn væri margbúinn að skella margsinnis á þennan helvítis útlending.
Bretarnir okkar eru í heimsókn. Unnur sýnir góða tilburði í enskunni og Grímur skellti flottu thank you út úr sér þegar hann fékk einhverja gjöf.
Hitinn þessa dagana er rosalegur. Madridíngar tala um"höggið". Því sumarhitinn skellur eiginlega á í kringum miðjan júní. Allt í einu. Og síðan fer hann ekkert. Það eru engar sveiflur. Bara 35 stig í þrjá mánuði.
Ég elska tennis. Wimbledon fer að byrja. Og ég mun sitja með gin og tónik og njóta þess. Stúdera teoríuna og rassskella síðan Nafna og Örra þegar ég hitti þá næst. Já, meðan ég man, í vikunni tók ég stöðupróf í tennis. Bullandi stressaður tók ég við uppgjöfum frá kennaranum og leið eins og bólugröfunum unglingi í stæ 102. Reyndar er ekki ljóst á þessu stigi hvort einhver pláss eru eftir en við skululum sjá til. Ég gæti líka keypt mér borðtennisborð og stuttar buxur a la Guðjón og sett annan borðshelminginn upp og spilað við sjálfan mig. Ekkert að því að spila við sjálfan sig ef annað þrýtur.
Langt síðan ég hef heyrt í Mo Shark og Ljót og Guð-jón er enn að glíma við 9-11 árasirnar á tvíburasörverinn í MA.
"Yes, until 1989 beer was banned in Iceland" "Why?" Uh. Stundum verður manni svarafátt.
Spænsk götufyllerí. Þau heita Botellón. Reyndar hef ég aldrei orðið beint vitni að þeim. En mig grunar að þau fari fram með eftirfarandi hætti: spánskir unglingar hittast á leiksvæðum og hafa meðferðis plastpoka með Mahou bjórflöskum brúnum (lítri) og Don Simon-fernurauðvíni (lítri). Og svo er sötrað. Ég var frekar rólegur í tíðinni í den en þá eins og ná var stíll yfir kalli; Absolut vodki í appelsínusafa. Don Simon-fernurauðvín (lítri) kostar innan við evru. Absolut-aumingi kostar örugglega vel yfir 2000.
Ágætu lesendur (báðir) ef einhver vill skella sér til heitu landanna frá 1.-20. júlí. Opið hús. Öl, ostar, skinkur og sundlaug. Gin og tónik úti á svölum.
Lifi Spánn. Niður með Rómverja!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)