Heimsgasti nemandinn - fösstudagur

Frú Reyes heldur að ég sé tossinn í bekknum. Það er nefnilega svo að þegar hún spyr hvort allir skilji þá svara ég einfaldlega stundum nei. Reyes er góður kennari, gallinn er bara sá að hún kann bara spænsku og á erfitt með að setja sig í spor nemenda sem tala tungum.

Í skólanum í morgun, svona um ellefuleytið, sýndi frú Reyes ykkur myndbút sem fjallaði um San Sebastian og þá ekki síst matarmenningu íbúanna með áherslu á pinchos sem er einhvers konar tapas. Annar hver maður var slefandi hafandi einungis nært sig á espresso um morguninn. Þetta var svipað og að sitja undir vissum atriðum í Basic instinct í setustofu úti á sjó, einungis innan um samkynja og eiga í engin "hús" að venda.

í nýrri útgáfu á ljóðum Davíðs hefur einhver póstmódernískur hryðjuverkamaður komist í handritið - fyrsta erindi "Konunnar sem kyndir ofninn minn" er nú svona:

Ég finn það gegnum svefninn,

að einhver læðist inn

með eldhúslampann sinn,

og veit, að það er Conan,

sem kyndir "ofninn" minn.

 

Þetta verða að teljast skemmdaverk. Enginn ber lengur virðingu fyrir neinu. 

Töluverð viðbrögð voru við síðasta texta um Amor. Gleðilegt verður að teljast að kvenfólk er farið að sýna mér áhuga - gleðilegt og sorglegt. Það hefði mátt gerast fyrr. Eflaust hringir síðan landsliðsþjálfarinn í fótbolta í mig á morgun; 15 árum of seint. 

Flestir unglingspiltar hafa upplifað kvenhræðslu. Halldór Laxness lýsir þessu fyrirbæri í einni af minningarbókum sínum; að hann hafi verið kvenhræddur. Það er tilfinningin þegar unglingspiltur, einn á ferð, gengur fram hjá hóp af unglingsstúlkum á svipuðum aldri; töluvert um fliss og önnur skemmtilegheit og hann verður allmeðvitaður um sjálfan sig. 

Annað orð eða frasi sem lýsir þekktu fyrirbæri er þetta: "að vera sleginn húsblindu". Það er þegar íbúar tiltekins húss verða samdauna ýmsum vanköntum íbúðar (það vantar lista, dósir, og ýmislegt smálegt til að fullkomna íverustaðinn). Ég er húsblindur, algerlega.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband