Perúskur perubrjóssykur

Ekki beint, en ég átti yndislega stund í þorpinu okkar á meðan Grímur sótti tíma í einhverju sem kalla mætti tónlist. Við eyðum annars litlum tíma í þorpinu því þorpið er eiginlega lokað þegar við sækjum krakkana í skólann og þyrftum á þorpinu að halda. Þorpið er nefnilega opið milli 10-2 og opnar aftur milli 5-8.  Ég átti sem sagt fallegan klukkútíma milli 18.30-19.30 á meðan Grímur tók tónlistargyðjuna á kné sér.

Ég keypti grænu mjólkina í minnstu búðinni í heiminum og kólumbíska konan hrósaði mér fyrir hattinn sem ég þó var ekki með á þessari stundu. Á meðan ég beið eftir afgreiðslu náði ég fínu augnsambandi  við viskíflöskurnar í efstu hillunni. Það voru meira að segja eðalskotar þarna inn á milli.

Síðan fóru ég í vonda súpermarkaðinn til að kaupa almennar nýlenduvörur. Sérkennilegt að koma inni í verslun sem er einfaldlega sjabbí og skítug. Ágætis tilbreyting að þurfa ekki að bíða við kassann í kortér eins og í Carrefour.

Í framhaldinu lá leiðin til slátrarans. Það er ætíð kvíðvænlegt að fara í búðir sem þessar með takmarkaða málakunnáttu í farteskinu. Það er að mörgu að hyggja, stundum kaupir maður til dæmis fisk sem kostar mann mánaðarlaun. Það er ekki erfitt að kaupa eitthvað óvart hjá slátrara sem kostar mann aleiguna. Í þetta sinn tókst mér að koma á framfæri ósk um hluta af lambi; og af því að það er kreppa þá er best að segja að ég hafi keypt hjörtu og nýru en ekki lambalæri svo fólk haldi ekki að ég hafi það of gott.

Perúski grænmetissalinn var næstur á listanum. Við erum mestu mátar. Við tökum ætíð spjall saman - enda þótt ég skilji ekki orð af því sem hann segir og geti ekki munað hvað hann heitir og nú er orðið of seint að spyrja - ég hef þekkt hann of lengi - ég er alltaf að vona að einhver kalli í hann meðan ég versla þannig að málið leysist. Við spjöllum oft um fótbolta - í þetta sinn reyndi ég að vera málglaðari en ella og féll í gildruna sem ég hélt ég væri búinn að hylja með plönkum og spýtnarusli; tussugildruna.  Tussugildran er svona: tvö orð eru afar lík í útliti og líkur á því að maður verði laminn velji maður annað þeirra við gefnar aðstæður: Coño er tussa. Menn segja líka "coño" sbr. "Fjandinn".  Fari maður hins vegar í ísbúð þá fær maður sér oft ís í "cono" sem er kramarhús. Á stundum sem þannig stíga heilinn og tungan afar varlega til jarðar: "ég ætla ekki að segja coño, ekki coño, ekki coño. Og maður endar með því að biðja um ís í tussu. Jæja. Ég var ekki staddur í ísbúð en ég féll í tussugildruna spjallandi við perúska perluvinin minn hann Machu Pichu. Talandi um Barcelona sagði ég við hann yfir hálfa búðina (lausleg þýðing): "Já, trúðurinn minn skoraði fyrir Barcelona um daginn." Tussugildran: payaso=trúður, paysano=landi. Og ég hafði ekki ætlað að falla - en jú, mér tókst að breyta mínum ágæta landa honum Eiði Smára í trúð. Eins og hann hafði staðið sig vel.

Endastöð innkaupanna var heilsubúðin þreytta. Þar afgreiðir mjög þreytt kona sem selur ekki mikið. Spánverjar eru allir rauðir af saltkjötsáti og heimta bara kjötbúðing, kaffi og bjór - heilsufæði, fuss. En ég fer þarna stundum - eitt sinn keypti ég bjór sem reyndist vera útrunnin - það er ekkert spes. En hún er ágæt, konan, smákjaftar oft við mig um krakka og veður (sadómasó og leður).

Já, ég er innsti koppur í búri í þorpinu mínu. Mig vantar bara krá þar sem allir þekkja nafnið mitt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

where everybody knows your name, kannast við tilfinninguna, eins og það er frelsandi stundum að vera útlendingur  væri notalegt að eiga krá þar sem maður á identitet.  Annars var ég að spá hvort þetta hafi ekki örugglega verið lífrænt ræktaður bjór og hvort þú hafi ekki drukkið hann og hlustað á enju í leiðinni?

Brynja (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 14:04

2 identicon

Mér finnst þú frábær penni, en þú þekkir greinilega ekki reglur í bloggheimi, ef ég kommenta á þig,þá kommentar þú á mig,

Frábært tilhugsun að geta labbað inn á bar, og þurfa bara að horfa á barþjóninn og hann veit hvað þú vilt, greinilega frábært að búa þarna á Spáni, mælir þú með því, er nebblilega búin að fá nóg af Svíaríki. Hef lært spænsku i 2 ár 6 tíma á viku í menntó, tala frönsku, en aldrei komið til Spánar.

Við Brynja viljum báðar að þú kommentir á okkar blog, alternatift að þú meilir á mann og segir skoðun þína á manns bloggi,

Kveðja, Hola que fala,

Tobba (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 14:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband