Vetur í Madríd

Mikið er blogg leiðinlegt fyrirbæri; eiginlega jafn spennandi og skál af ódýru snakki frá Euroshopper. En samt getur maður ekki stillt sig um að fara blogg-hring hjá vinum og vandamönnum og tína upp í sig - enda þótt maður sé að springa -

Mitt blogg er ekki snakk frá Europshopper - mitt blogg er sviðalappir.

Verði ykkur að góðu.

Nokkur viðbrögð urðu við síðasta bloggi - varð mér í kjölfarið hugsaði til orðatiltækisins "að svara í sömu mynt." Ég dreifði um mig krónum og aurum, kannski aðallega aur og allt í einu setur einhver upp svip og vill borga með yenum.

En vissulega eru grundvallarspurningar um markmið og tilgang dásamlegar.

 Að öðru.

Nú er allt að gerast í bekknum mínum. Nú á að sigra heiminn. Teiti og lærdómshópar, bíóferðir og uppáferðir. Djók!!

Einhver stakk upp á því að hittast og hugstorma um fyrsta teitið - kemur þá ekki upp úr dúrnum að kínverska stelpan Á kínverskan stað - hversu gaman er það? Þangað verður haldið á fimmtudaginn og lagt á ráðin um þjóðbúningakvöld, kvöldbúningaþjóð, þjóðkveldisbúninga og fleira skemmtilegt. Einnig barst í tal að búa til sushi en sú japanska er víst alveg vonlaus í því.

Ég á mér draum - að kyrja rímur á kvöldskemmtan með bekknum mínum og fá vin minn Svíann til að spila undir á langspil. Eins gæti ég hugsað að leika atriðið úr Íslandsklukkunni þegar Jón var híddur, en bikiníröndin myndi spilla fyrir, eins kæmi til greina að taka best of Sveinn M. Eiðsson; svona medley, hverngi líst ykkur á það? Eins gæti ég haldið fyrirlestur um notkun skugga í íslenskum kvikmyndum áttunda áratugarins, eða  sagt frá skáldaleyfi í rímum Sigurðar Breiðfjörð. Mig langar bara að vera aðal. Aftur. Ég sem hafði verið aðal í þessari skrifblokk þangað til Ranicki hinn sænski steypti mér af stóli.

 Æi, ég sakna Islamabad(s); þröngar göturnar, kryddilmurinn, testundirnar með Akmed, svínafórnin á föstudögum, stjan kvenfólksins - ah, ég sakna Islamabad.

Er eitthvað betra:

Að keyra þegar rökkva fer í nóvember ásamt jan eða per í vetrarborg eins og madríd og hlusta á Schubert, ha? Winterreise? Ha? Þar er hlutunum lýst eins og þeir eru: Ich habe im Traum geweinet...  Ha, skemmtilegt, ha? Ég sá ansi flottan náunga syngja Winterreise í Köln um árið; ég held að gaurinn heiti Quasthoff, eða eitthvað svoleiðis og ef hann hefði verið í Hávamálum hefði það verið hann sem reið hrossi. Ég fór með einhverju góðu fólki og ég keypti svo billegan miða að við vorum fyrir aftan sviðið og horfðum ofan á hausinn á blessuðum manninum. Hefði líklega orðið reiðari hefði Catherine Zeta Jones verið að syngja. Sem minnir mig á Nóbelsverðlaunamyndina sem ég get ekki hætt að mæla með, Entrapment, með Kötu og Connery. Þar sem þau reyna að brúa kynslóðabilið á ástríðufullan, en um leið tempraðan máta, án þess að það verði sóðalegt. Annars vil ég ekki tala um hana Catherine, því þá fer ég að hugsa um Michael, og hvað hún sjái við hann, og hvernig þetta hefði allt getað farið öðruvísi.

Djöfull getur maður verið asnalegur og gert hluti sem eru, þið vitið þegar "eitthvað gerist fyrir mann" eins og þegar Orri Ingþórs keypti sverð, trommur og þjóðbúning af sama manninum í Marokkó án þess að vilja það. Hann bara lenti í þessu. Ég er eins. Ég vil ekki vekja athygli og mér líður einatt illa innanum frægt fólk en samt gat ég ekki stillt mig um árið að taka Bono tali og eins kjaftaði ég við Konrad Adenauer "yngri" (hann var hundrað ára þá) og var eins og asni. Ég fór þarna á handboltaleik um daginn hjá hinum ágæta Ólafi Stefáns í Ciudad Real - og eftir leikinn gerist það fyrir mig að það er tekin mynd af okkur - nei, ekki okkur, það er gallinn, heldur af mér við hliðina á honum, krakki við hliðina á hetjunni sinni, krakki við hliðina á guffa, feitur krakki við hliðina á risagúffa sem beygir sig niður og á þvi augnabliki sem myndin var tekin er eins og ég hafi verið að fylla magann af lofti a la yoga - ég er eins og pera og Ólafur beygir sig niður nett kumpánlega en samt svona ekki á janréttis - þetta er ekki mynd af okkur, þetta er mynd af mér með honum. Ég hefði reyndar getað sagt honum: hæ, þetta er ég, ég er enginn aukvisi í íþróttum, ha? Annað sæti á Íslandsmótinu í knattspyrnu í 3. flokki árið 1987 og kallinn, ef þú trúir því ekki, þá vill svo til, vill svo til að ég er með medalíuna um hálsinn. Og ég skoraði mark gegn Val í 2. flokki, á Hlíðarenda, ha. Gunnar og Kolskeggur, kallinn minn. 

Ég hef alltaf öfundað Kolskegg - hann var "öruggur í öllu". Ég vildi að ég væri öruggur í öllu. Guðjón vinur minn er svolítið svona öruggur í öllu, sem og Valdimar Gunn. Maður réttir svona mönnum eitthvað vandamál, alveg sama hvort það er úr dýraríkinu, tölvuríkinu eða mannaríkinu og þeir leysa það - öruggir í öllu. Ég hinsvegar ætla mér að renna upp úlpunni og mér líst ekkert á það, kvíði því, held ég klúðri því og enda með því að fara í lopapeysu en festa þumalinn í lausu bandi og enda með því að vera bara heima og blogga.

Talandi um peysur. Man einhver eftir smásögu eftir Cortázar (fyndið hvar áherslan liggur) sem fjallar um mann sem getur ekki farið í peysu eða einhverja flík og endar með því að detta út um gluggann - þetta var í smásagnasafni sem kom út hjá Bjarti líklega fyrir hundrað árum.

Annars er aumt að sjá skrif sem þessi á krepputímum - nú er ekki tími fyrir kerskni og kumpánlegheit. Og þið megið vita að ég sit ekki í Loydsskóm einum fata með Davidoff special R milli tannanna, bergjandi á 12 ára skota og nei, mér eru ekki færðir bakkar með tapasi á tíu mínútna fresti og nei, hér hefur ekki sést Valrona-súkkulaði í þrjá mánuði.

En þið megið vita að ég sit hér í myrkrinu og treysti á fingrasetningaræfingar úr Gaggó og ég hef slökkt á skjánum til að spara rafmagn og ég er með lokuð augun  - til að spara augun. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er orðið mér mikið metnaðarmál að vera sú fyrsta sem kommentar á þig Arnar, hlutverk sem ég tek alvarlega.  Vonandi opnar þú augun aftur ljúfurinn, mundu þetta með að spara aurinn og kasta krónunni.  Ég man abbars (annars, fannst bara abbars flott og sænskuskotið orð)  eftir leiksigri þínum forðum sem lík, sjaldan hefur lík hlegið jafn mikið meðan vídalínspostillan er lesin.  Væri etv. hlutverk sem þú getur leikið með þeim sænska, hann getur verið Vídalín.  Annars var Orri fallegur í þjóðbúningnum og hefur sjaldan komist jafn nálægt kvenmanninum í sjálfum sér

Brybba (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 21:34

2 Smámynd: Guðjón H. Hauksson

Satt er það. Oftast er bloggið leiðinlegt. En ekki hér. Ekki aldeilis.

Farið að drífa ykkur heim! Húsið fyrir ofan mig er til sölu. Ég var að senda þér póst.

Á Íslandi eru aftur að myndast aðstæður fyrir hugsandi fólk. Við þurfum bara rétt aðeins að jafna okkur af kjötsvimanum og þá geta hugsanir farið að mótast öðruvísi en í sætabrauðsdeig. Við þurfum á ykkur að halda :)

Guðjón H. Hauksson, 27.11.2008 kl. 11:28

3 identicon

Mér finnst þú bloggið þitt aftur fyndið og skemmtilegt, vel skrifað og fallegt. er komin úr bloggfýlunni minni, Valli segir að ég sé óvenju viðkvæm varðandi bloggið mitt, ef einhver gagnrýnir það er eins og að viðkomandi sé að segja að barnið mitt sé ljótt og leiðinlegt. Ég man líka eftir að hafa búið í útlöndum með allra þjóða kvikindum í bekk, drekkandi ódyrt 1 franka rauðvín, og fyrsta flaskan var viðbjóður, önnur svona OK og þriðja bara allt i lagi, hef ekki drukkið viðbjóðsleg vín síðan, lífið og stutt. Njóttu þess að vera í bekk, manni finnst maður vera eitthvað svo ungur þá. Þakka konu þinni fallega lagið sem hún sendi okkur Brynju. Kveðja þín Tobba

Tobba (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 14:53

4 identicon

Ég er að leita mér að húsi líka Guðjón geturðu fundið eitt gott og notalegt, á brekkunni takk og með einhverju útsýni, helst við hliðinna á Arnari, veit að honum myndi þykja mjög vænt um það.

Brynja (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 21:15

5 identicon

Gracias mi amigo, que tu has piensat por mi pequeno corazon. Soy my contente.Esperada que la weekend esta bien para todos tu familia. Tu amiga de Suedia Tobba

tobba (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 08:47

6 Smámynd: Stefán Þór Sæmundsson

Ég vil þakka Guðjóni fyrir að reyna að selja hús afa og ömmu á klöppinni fyrir ofan Guðjón. Þetta er frábært hús og útsýni mikið. Ég gæti vel hugsað mér að heimsækja Arnar eða Brynju þangað. Bíllinn hans afa, lítið ekinn Yaris, er líka til sölu. Öndvegis frúarbíll.

Stefán Þór Sæmundsson, 30.11.2008 kl. 21:43

7 Smámynd: Guðjón H. Hauksson

Athugið, bæði Arnar og Brynja:

<table><tr><td><a href="http://www.mbl.is/mm/fasteignir/fasteign/index.html?eign=328293" target="_blank"><img src="http://www.mbl.is/fasteignir/img/532/e328293_1B.jpg" align></a> </td><td><a href="http://www.mbl.is/mm/fasteignir/fasteign/index.html?eign=310369" target="_blank"><img src="http://www.mbl.is/fasteignir/img/497/e310369_0B.jpg" align></a></td><tr>
<tr><td colspan="2">Þetta eru húsin sem þið skuluð flytja inn í á vordögum. Þið megið velja hvort fær hvort.</td></tr></table>

Guðjón H. Hauksson, 1.12.2008 kl. 18:32

8 Smámynd: Guðjón H. Hauksson

Aldrei má maður neitt. Nú er moggabloggið búið að banna html í athugasemdunum. Jæja, hér er þetta þá. Arnar og Brynja hafa um tvennt að velja (kannski eilítið meira): Annars vegar er það <a href="http://www.mbl.is/mm/fasteignir/fasteign/index.html?eign=328293" target="_blank">Byggðavegur 136a</a>, hús Nielsar Krügers heitins sem gnæfir fyrir ofan okkar hús og sá Stefáni Þór fyrir felustöðum í bernskuleikjum sínum. Hins vegar er það <a href="http://www.mbl.is/mm/fasteignir/fasteign/index.html?eign=310369" target="_blank">Byggðavegur 134</a>, þar sem Rafn Kjartansson enskukennari undirbjó á hverju kvöldi kaffidrykkju næsta dags við kennslustörfin við MA (hann skilgreindi iðulega kennarastarfið sem kaffiþamb). Hvort tveggja eru stór og stæðileg hús sem geta hýst stórt og stæðilegt fólk.

Ég hlakka til að sjá ykkur.

Guðjón H. Hauksson, 1.12.2008 kl. 19:20

9 identicon

 Öll erum við stór og stæðileg og það eykst alltaf í desember ;)  Þetta eru glæsileg hús.  Mun bjóða kaffi og jólaköku þegar ég verð búin að koma mér fyrir, ég vona Stefán að þú komir samt í heimsókn til mín ef Arnar verður á undan mér.

Brynja (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 21:16

10 identicon

Kannastu við orðið hundslappadrífa, sjá innlegg á blogginu mínu!!

Kveðja þín vinkona Tobba

tobba (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 13:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband